13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4161 í B-deild Alþingistíðinda. (3787)

119. mál, umferðarlög

Frsm. allshn. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð að loknum þessum umræðum um frv. til nýrra umferðarlaga, 2. umr. hér í deildinni.

Ég þakka þeim þm. sem tekið hafa til máls og lýst skoðunum sínum á frv. og þá sér í lagi brtt. sem allshn. Nd. flytur.

Að því er varðar athugasemdir sem komu fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 10. landsk. þm. Guðrúnu Helgadóttur, að ökuhraðinn væri ákveðinn of hár þar sem menn mættu utan þéttbýlis aka á 90 km hraða á vegum með bundnu slitlagi sem hún gagnrýndi, vil ég benda á það sem í sömu grein síðustu mgr. segir. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að aðalreglan er að á bundnu slitlagi er ökuhraðinn 90 km. Hann var hækkaður í Ed. En í síðustu mgr. segir: „Ákveða má lægri hraðamörk þar sem æskilegt þykir til öryggis eða af öðrum ástæðum.“ Þannig er hér heimild til þess sem hv. þm. benti á og getur iðulega verið nauðsynlegt. Það fer vitanlega eftir aðstæðum öllum.

Brtt. er flutt á þskj. 885 um að ekki verði áskildar auknar kröfur til að aka bifreiðum sem bera 5 tonna farm né heldur bifreið sem dregur eftirvagn með meira en 1400 kg hlassi að leyfðri heildarþyngd. Eru þær till. fluttar af allmörgum þm. Mótbárurnar eru þær að vera kynni að slík samþykkt bryti að einhverju leyti í bága við alþjóðasamning um umferð og yrði erfiðara fyrir okkur að öðlast viðurkenningu ökuskírteina okkar erlendis.

Ég held hins vegar að hér sé um mál að ræða sem sé rétt að gangi fram. Í frv. eins og það er eru verulegar takmarkanir í þessu efni sem valda munu mörgum erfiðleikum og óþægindum, jafnvel þó svo að menn haldi þeim réttindum sem nú hafa þau, en strangari reglur taki aðeins til þeirra sem öðlast ökuskírteini frá þeim tíma sem lögin eru samþykkt. Ég hygg að þessar brtt. gangi í rétta átt. Hins vegar verð ég að lýsa vafa mínum varðandi þá brtt. sem borin er fram á þskj. 834 frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur um að bannað verði að stöðva bifreiðar. Það er brtt. við 28. gr. Ég held einfaldlega að á þeirri brtt. sé varla þörf. Hún fjallar um það að í hlið bætist að ekki megi stöðva ökutæki eða leggja því á merktu stæði fyrir leigubifreið til mannflutninga. Hér bætist við einnig „eða bifreiðir fatlaðra“. Það getur verið nauðsynlegt, og hér er aðeins talað um að stöðva til þess að láta út farþega, að stöðva bifreiðir jafnvel þó að það sé á stæði fyrir bifreiðir fatlaðra. Hér er ekki talað um það að leggja bifreiðum þar, heldur aðeins að stöðva til að láta út farþega. Stæði fyrir bifreiðir fatlaðra eru oft við íbúðarhús og annars staðar þar sem ekki er ástæða til að banna mönnum að koma að til að hleypa farþega út eða taka farþega í bifreið. Er ekki gengið á nokkurn hátt á rétt fatlaðra að ég hygg með því, þó þarna sem um augnabliksstöðvun að ræða.

Að því er varðar bílbeltin vil ég geta um könnun sem var framkvæmd á vegum Hagvangs í haust, en miklar umræður hafa orðið um þau. Þar kom í ljós að liðlega helmingur þátttakenda taldi rétt að beita sektarákvæðum, tæp 40% töldu það vera rangt, en 10% tóku ekki beina afstöðu. Þessi könnun er framkvæmd af Hagvangi 26. sept. til 4. okt. s.l. Það e vitað að þetta er mjög umdeilt mál og má færa mörg rök með og móti, en afstaða meiri hl. nefndarinnar er ljós í þessu máli. Hún leggur til að undanþágan sem er í núgildandi lögum að því er sektir varðar verði felld niður.