29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

86. mál, stjórn fiskveiða

Flm. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 86 hef ég leyft mér að flytja frv. ásamt þeim hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, Jóni Baldvini Hannibalssyni og Hjörleifi Guttormssyni.

Frv. er um breytingu á lögum nr. 97 1985 um stjórn fiskveiða. Það fer ekki mikið fyrir þessu frv. og engin ástæða til slíks, svo einfalt sem málið kann að vera. Frv. gæti þó að mínu viti losað um þau stjórnunartök sem hafa verið á fiskveiðum og gæti hugsanlega leitt til þess að betur fjaraði undan þeim kvótamönnum og eðlilegt athafnalíf gæti gengið á þeim svæðum sem byggja fyrst og fremst á fiskveiðum og fiskvinnslu. Þetta frv. er sem sagt um það að lina á þessum tökum.

Í fyrsta lagi, þ.e. í 1. gr. frv., er lagt til að á eftir fyrri mgr. 1. gr. laganna sem nú eru í gildi komi ný mgr. svohljóðandi:

„Ákvæði 1. mgr. taka ekki til veiða með línu og handfærum.“

Ég er að vona að menn séu orðnir nokkuð sammála um að línuveiðar og handfæraveiðar eigi a.m.k. ekki að vera háðar kvótaskiptingu. Ég held að frekar eigi að hvetja til slíkra veiða en að setja á þær hömlur og ég held að reynslan hafi einmitt sýnt að það er miklu frekar ástæða til slökunar í þessum efnum. Vissulega hefur átt sér stað nokkur slökun að því er þetta varðar en ég held að málið sé orðið þann veg vaxið að það eigi að afnema kvótann bæði í handfæraveiðum og línuveiðum.

Síðan kemur kannske aðalbreytingin, þ.e. 2. gr. frv., en þar er lagt til að við 2. gr. laganna bætist ný mgr. er hljóði svo:

„Við úthlutun á aflamarki og sóknarmarki til einstakra skipa ber ráðherra að taka sérstakt tillit til þess ef skip er gert út í byggðarlagi þar sem a.m.k. 35% vinnuafls starfar við fiskveiðar og fiskvinnslu og skal aflamark og sóknarmark þeirra skipa, verði eftir því leitað, aukið um a.m.k. 25% frá því sem það hefði ella orðið eftir almennri úthlutunarreglu.“

Kannske staldra menn við svona hlut. Eigi að síður er ég þeirrar skoðunar að það verði að gera ráðstafanir til þess að þau sjávarpláss sem byggja að langmestu leyti afkomu sína, afkomu þess fólks sem þar býr, á fiskveiðum og fiskvinnslu, að það verði að gera þeim kleifara en nú er að sækja þessa björg. Það hefur margoft verið á það bent að þörfin að þessu leytinu er brýn, ekki bara fyrir viðkomandi sjávarpláss eða byggðarlög heldur og líka fyrir þjóðarbúið, að nýta gæðin frá þeim svæðum sem er handhægast og ódýrast að nýta þau frá og skapa bestu verðmætin.

Ég held að enginn vafi sé á því, og það þekkja hv. þingdeildarmenn trúlega ekkert síður en ég, að kvótastefnan hefur orðið þess valdandi að sjálfsbjargarviðleitni manna er heft. Komið er í veg fyrir að hægt sé að sækja þessa björg, eins og er, með eðlilegum hætti. Og það gerist meira: Í mörgum tilfellum er málið svo og hefur verið á þessu tímabili að það er ekki nema brot úr árinu sem bátar geta róið vegna kvótans. Svo langtímum skiptir verða bátar að liggja í höfn hluta úr árinu. Ég er þeirrar skoðunar - og ég vona að ýmsum sem hafa verið kvótamenn hafi snúist hugur og þeir hafi séð það í reynd a.m.k. að því er varðar sjávarplássin - að þar verði að gera breytingu á. Við horfum t.d. upp á allt of mörg dæmi þess, Vestfirðingar, að þessi stefna leggur byggðirnar í eyði. Við höfum eitt dæmi í höndunum nú sem ég ætla ekki að gera að umræðuefni, einn staðinn sem er á þessari leið. (Menntmrh.: Hvaða staður er það?) Ég hygg að Vestfirðingnum sjálfum, hæstv. menntmrh., ætti að vera kunnugra um þessa hluti en svo að hann þurfi að spyrja úr ráðherrastól: Hvaða staður er það? Veit hæstv. ráðherra ekkert hvað er að gerast í landinu? Veit hæstv. ráðherra, útgerðaraðilinn hér á Reykjavíkursvæðinu, ekki neitt hvað er að gerast í fiskiðjum í kringum landið? Slíkar spurningar koma úr hörðustu átt að mér finnst af þokkalega uppöldum sjómannssyni. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geti gengið úr skugga um það sjálfur hvar þessi staður er hvar á kortinu hann er sá staður sem er verið að tala um. (Menntmrh.: Má ekki spyrja að því?) Auðvitað má spyrja og það færi betur að hæstv. ráðherra spyrði oftar greinda og góða menn áður en hann tekur ákvarðanirnar margar.

En það var ekki aðalumræðuefni mitt að gera einstaka staði, tilnefnda, að umræðuefni. Þetta er á allt of mörgum svæðum, allt of mörgum stöðum sem þessi stefna hefur orðið þess valdandi að byggðirnar eru að flosna upp. Og auðvitað er það Alþingis, stjórnvalda, að gera ráðstafanir til að því verði breytt. Ég trúi því ekki, hvað sem kann að vera sagt um hæstv. menntmrh., að honum sé þetta ekki ljóst. Ég trúi ekki öðru en að þeir sem á annað borð gefa sér tíma til þess að hugleiða þennan þátt mála komist að raun um að breyting þarf að verða á.

Tillögur efnislega líkar þeim sem liggja fyrir í frv. voru fluttar við afgreiðslu kvótamálsins haustið 1984. Þær tillögur fengu dræmar undirtektir. Eigi að síður hefur verið linað á kvótanum frá þeim tíma, og vegna hvers ætli það hafi verið? Ætli það hafi ekki verið vegna þess að hann þótti of harðneskjuleg stjórnunaraðferð eins og hann var búinn í hendur til framkvæmda þá? Og það er auðvitað líka nauðsyn á að lina enn á þessu taki, koma í veg fyrir að það haldi áfram að leggja byggðir í auðnir, það haldi áfram að verða þess valdandi að fólk flytjist búferlum frá þessum annars góðu landsvæðum sem gætu framleitt góðu vöruna til hinna svæðanna sem ekki hafa þær aðstæður.

Í þriðja lagi er svo gert ráð fyrir því, í 3. gr. frv., að fyrri tölul. 1. mgr. 9. gr. falli brott, en sá málsliður gerir ráð fyrir að hefta að hluta veiðar smábáta á tilteknum tímum. Ég vék að því áðan að slíkt finnst mér algjör óþarfi, að hefta þessar veiðar, og þess vegna er þessi tillaga flutt sem 3. gr. frv.

Ég þarf út af fyrir sig ekki, herra forseti, að bæta miklu fleiru við. Kvótamálið hefur verið í stöðugri umræðu, um það hafa vissulega verið deildar meiningar. Ýmsir létu á sínum tíma flekast af þessum hugsjónum, margir þeirra hafa snúið til baka og ég vænti þess að þeim fjölgi enn sem komast á rétta leið - á rétt ról, svo notað sé sjómannamál - komast á rétt ról að því er þetta mál varðar. (Gripið fram í.) Ná áttum, það er rétt. Það er trúlega sama merkingin.

Ég skal ekki, herra forseti, segja meira um þetta í bili en ég legg til að að umræðu þessari lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.