13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4175 í B-deild Alþingistíðinda. (3796)

321. mál, vaxtalög

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég læt í ljós að ég er samþykkur brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. sem eru fluttar við frv. Ég tel að menn hafi haft nokkuð góðan tíma til að fara yfir þetta frv. og athuga það nánar. Ég vil líka minna á að frv. er árangur starfs sem unnið var mjög rösklega, einkum af prófessor Jónatan Þórmundssyni. Það er unnið í samráði við viðskrn. og Seðlabanka og enn fremur var rætt um einstaka þætti þess við sérfróða menn á þessu sviði. III. kafli frv., um dráttarvexti, er í stórum dráttum byggður á frv. til sérstakra laga um dráttarvexti o.fl. sem Benedikt heitinn Sigurjónsson fyrrv. hæstaréttardómari og Viðar Már Matthíasson hæstaréttarlögmaður sömdu og ég flutti á síðasta þingi. Þessi mál eru því ekkert ný. Að þessu dráttarvaxtafrv. var síðan unnið áfram í viðskrn. Það varð að ráði að fella dráttarvaxtaþáttinn inn í hið nýja vaxtalagafrv. með nokkrum breytingum og úrfellingum. Það hefur ótvíræða kosti að setja ein heildarlög um vaxtamál. Það fæst með því heildarsýn, reglurnar verða einfaldari og markvissari og um sum atriði má setja sameiginleg ákvæði án tillits til vaxtaforms.

Við samningu þessa dráttarvaxtakafla var höfð hliðsjón af umsögnum ýmissa aðila um það dráttarvaxtafrv. sem ég lagði fram á síðasta þingi svo og eldri frumvarpsdrög hæstaréttarlögmannanna Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Baldurs Guðlaugssonar um bætur vegna rýrnunar á verðgildi gjaldkræfra peningakrafna eða hinar svokölluðu verðgildisbætur og sömuleiðis um dráttarvexti frá 1980 ásamt grg. og umsögnum þó nokkuð margra aðila. Enn fremur var litið til erlends réttar á þessu sviði og sérstaklega voru höfð í huga dönsku vaxtalögin. Það má segja um ákvörðun um dráttarvexti að hún er hugsuð eftir tveimur mismunandi aðferðum þótt munurinn á þeim þurfi ekki að vera svo mikill í reynd. En lögfræðingar eru ekki á eitt sáttir í þessum efnum frekar en þeir eru yfirleitt, enda yrði þá alveg hrun í stéttinni ef þeir væru allir sammála alltaf, og meðal þeirra eru skiptar skoðanir á þessum aðferðum. Sú aðferð sem er lögð til grundvallar í þessu frv. er sú sama og hefur komið fram í umræðum og er notuð af Seðlabankanum. Hún er fólgin í því að dráttarvextir eru byggðir ofan á almennt gildandi vaxtakjör, þar sem þau kjör hljóta að vera til viðmiðunar um tjón er leiðir af vanskilum í almennri lánastarfsemi. Þessi leið tekur fyrst og fremst mið af öllum venjulegum lánum, af almennri lánastarfsemi. Seðlabankinn hefur byggt sínar ákvarðanir á tveimur þáttum, útreikningi á vegnu meðaltali ársávöxtunar annars vegar og ákvörðun reiknihlutfalls hins vegar. Hin aðferðin gerir ráð fyrir að fastir dráttarvextir, refsivextir séu byggðir ofan á verðgildisbætur, höfuðstólsvísitölu, og sérstaklega vexti hvers láns. Tekur þessi aðferð því fremur mið af skaðabótakröfum, ýmiss konar dómkröfum og lánum til langs tíma. Þetta kerfi getur reynst flókið þegar um er að ræða óverðtryggð lán með nafnvöxtum og er óleyst mál varðandi verðtryggð lán.

Ég tel það ekki vera neinn vafa að með þessu frv. er stigið mjög merkt skref og samræming þess er að mínum dómi mjög mikils virði því að frv. tekur mið af þeim forsendum að viðhalda því takmarkaða vaxtafrelsi sem þjóðin býr nú við eftir þróun síðustu ára. Í öðru lagi treystir það á samræmi lagaheimilda um ákvörðun vaxta, refsiábyrgð og viðurlög við okri. Og í þriðja lagi tryggir það upplýsingar um almenn vaxtakjör hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og reglulega birtingu þeirra t.d. í Lögbirtingablaði eða á annan aðgengilegan hátt og það gerir vaxtareglur þannig úr garði að þær verða einfaldari og meðfærilegri í framkvæmd en gildandi reglur. Það tryggir efnisleg málalok í þeim okurmálum sem enn eru til meðferðar fyrir dómstólum. Þá kem ég að því atriði sem hv. 3. þm. Reykv. spurði um og hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. gerði að umræðu.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það eftir viðræður við færustu sérfræðinga á þessu sviði að ef lögfest eru þessi ákvæði til bráðabirgða halda þau. Lögin eru eðlilega sterkari en skýring á skoðunum ágætra manna. Enginn efast um að frsm. meiri hl. er góður lögfræðingur, en þó ég, sé ekki löglærður maður vil ég halda þessu fram. Ég tel að það hefði verið að mörgu leyti slæmt að fella niður þetta ákvæði I til bráðabirgða og grípa þannig beint og óbeint inn í málshöfðun sem þegar er hafin. Þess vegna var ég og er ég ófáanlegur til að taka þetta aftur. Ég hef enga sérþekkingu á þessum málum, verð því að fara eftir því sem sérfræðingar á þessu sviði halda fram, en eins og ég sagði áður eru skiptar skoðanir um þessi mál meðal lögfræðinga og þá er það dómstóla að skera úr í þeim efnum. Lög eru lög en túlkanir þeirra eru annað. Ég legg áherslu á að þessi ákvæði séu inni og ég legg líka mikla áherslu á að þetta lagafrv. hljóti afgreiðslu á þessu þingi því á því er brýn nauðsyn. Ég tel ekkert athugavert við það, sem frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. sagði í sinni ræðu, að það væri eðlilegt að endurskoðun færi fram. Og það er margt athyglisvert í tillögum Jóns Steinars Gunnlaugssonar sem hafa verið gerðar hér að umræðuefni. En þær þarfnast frekari skoðunar. Ég tel það sjálfsagðan hlut að viðskrn. feli færustu sérfræðingum á því sviði að fara yfir þennan þátt málsins með það í huga að flytja frv. til breytinga á þessum lögum á næsta þingi.

Ég vil svo að síðustu þakka nefndarmönnum fyrir afgreiðslu á þessu máli og endurtek það að ég legg á það mikla áherslu að það nái fram að ganga.