29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

86. mál, stjórn fiskveiða

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Ég tel augljóst að sú hugsun sem býr að baki þessa frv. sé góðra gjalda verð. Ég er ekki að segja að frv., þótt samþykkt yrði, mundi leysa allan vanda eða mikinn vanda. Hitt er deginum ljósara að hinar svokölluðu kvótareglur eru farnar að verða tilfinnanlegar úti um byggðir landsins. Þess vegna hæfir síst að skella skollaeyrum við því þegar hreyft er hugmyndum sem kunna að geta lagfært þær á einhvern veg. Ég álít því að það minnsta sem hægt sé að gera varðandi þetta einstaka mál sé að skoða það rækilega, að sú nefnd sem fær það til meðferðar kryfji það til mergjar og aðrir þeir sem völdin hafa í þessum efnum leiti eftir leiðréttingum á því mikla misrétti sem kvótinn leiðir af sér.