13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4184 í B-deild Alþingistíðinda. (3818)

422. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að skýrt var frá því hér á dögunum að sett yrði reglugerð um þetta efni sem og verður gert, en eftir að nefnd manna úr heilbrmrn., fjmrn. og Tryggingastofnuninni hafði athugað það mál vandlega og unnið að undirbúningi reglugerðar varð það niðurstaða að nákvæmar og betur væri að málum staðið með því að setja lög um þetta atriði vegna þess að reglugerðin mundi þurfa að byggja á því að bifreiðar féllu undir hjálpartækjagreinina. Auðvitað er bifreið eitt af mikilvægum hjálpartækjum allra manna, hefur tekið við af þarfasta þjóninum, en það hefur ekki þótt fært að telja þær meðal þeirra tækja almennt sem eru á skrá yfir hjálpartæki öryrkja, svo algengt tæki sem hér er um að ræða. Þess vegna er það nú sem þetta atriði er sett í lög.

Að öðru leyti get ég vísað til þess sem hv. flm., 9. landsk. þm., sagði áðan að því er upphæðir varðar. Ég vil einungis bæta því við að ætlunin er að heildarupphæðin, sem ella hefði verið á vegum fjmrn. með hinu fyrra skipulagi, verði millifærð til Tryggingastofnunar, en framkvæmdin verður á hennar vegum.

Ef ég má bæta einu atriði enn við, herra forseti. Ljóst er að hluti af þessu er eðli sínu samkvæmt á vegum lífeyrisdeildar þar sem um er að ræða uppbót á elli- eða örorkulífeyri, en aftur á móti hluti vegna hreyfihömlunar. Sú grein frv. yrði auðvitað sjúkratryggiagaparturinn.