13.03.1987
Neðri deild: 63. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4202 í B-deild Alþingistíðinda. (3836)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég flutti brtt. við þetta frv. við 1. umr. og óskaði eftir því að nefndin sem átti að fá frv. til skoðunar mundi athuga þessa tillögu. Frsm. meiri hl., hv. þm. Friðrik Sophusson, minntist ekki einu orði á það að þessi till. hefði legið fyrir nefndinni. Ég skil það vel í raun og veru að nefndarmenn vilji ekki hafa hátt um þessa tillögu miðað við forsögu þessa máls, en ég hefði samt vart trúað því að hv. varaformaður Sjálfstfl., fyrst hann talar fyrir þessu á annað borð, skyldi ekki einu sinni á það minnast.

Það er dálítið sérkennilegt hvernig þetta staðgreiðslukerfi fer nú af stað og þær upplýsingar sem Þjóðhagsstofnun hefur komið fram með, að í staðinn fyrir að lækka skatta á einstaklingum, á launafólki, þá liggur það nú fyrir frá Þjóðhagsstofnun að skattar muni hækka verulega.

Ég vil spyrja hæstv. forseta að því hvort forsrh. sé hér í húsinu. Ég hef spurningar fyrir hann að leggja út af þessu máli. (Forseti: Ég hef upplýsingar um það að forsrh. hefur fjarvistarleyfi. Hann getur ekki mætt hér á fundi í kvöld. Hann hefur tjáð mér það.) Ég mun ræða þetta við 3. umr. og mun láta máli mínu lokið nú, en óska eftir því að ég verði látinn vita með fyrirvara og eins forsrh. að ég muni beina til hans spurningum ásamt öðrum formönnum þeim sem gáfu fyrirheit um það að jafna aðstöðuna í þjóðfélaginu. (FrS: Er ekki hægt að gera það á tröppunum á Hótel KEA?) Ég get talað við hv. varaformann Sjálfstfl. ef hann vill á tröppunum á KEA. Ég skal bjóða honum þangað ef hann vill.