29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

86. mál, stjórn fiskveiða

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem ég sagði áðan nema ég fór ekki út í neina viðmiðun. Ég fór út í þetta að gefnu tilefni frá hendi sjútvrh. Hann var að ræða um sjávarútvegsmál, en það komst inn í ræðu hans um starfsmannahald við eitt tiltekið sjúkrahús, sjúkrahúsið á Ísafirði. Það má vel vera að ég sé eitthvað uppnæmari fyrir því en ýmsir aðrir og þá tek ég á mig að ég hafi verið það.

Ég forðaðist að gera samanburð við aðrar atvinnugreinar. Ég vil líka undirstrika hér að þegar ég talaði um fækkun skipa á þessum stað tók ég fram að fækkunin hefði verið mest á árinu 1982. Ég hélt að það væri þá skiljanlegt að ég væri ekki að ráðast með því á kvótakerfið. En síðan hefur þetta haldið áfram.

Ég held að það sé nauðsynlegt að tala um þessi mál án þess að gera það í þessari tóntegund. Ég talaði algerlega um þetta mál eins og það kemur fyrir og það er engum manni ljósara en mér hve erfitt hlutskipti það er að skipa embætti sjútvrh. á Íslandi. Ég ætla að láta það koma alls staðar fram að það er erfitt hlutskipti og oftast vanþakklátt. En það verður að taka tillit til þess þegar illa er komið og þá er hægt að gera undantekningarráðstafanir, ekki þannig að einn eða tveir þm. eða einn ákveðinn stjórnmálaflokkur slái sér upp á því heldur á manndómur þm. og flokka að vera með þeim hætti að leysa úr sárum og brýnum vanda án þess að einhver einn eða einhver ákveðinn hópur geti þakkað sér það heldur ríkisstjórnin í heild og Alþingi, sömuleiðis stjórnarandstaðan.