16.03.1987
Efri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4216 í B-deild Alþingistíðinda. (3852)

392. mál, almannatryggingar

Frsm. heilbr.- og trn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. 11. þm. Reykv. um afstöðu okkar framsóknarmanna til þessa frv. og afstöðu okkar fyrr til fæðingarorlofs vil ég taka það fram að við höfum tekið heilshugar þátt í umfjöllun um þetta mál og teljum þrátt fyrir allt að frv. feli í sér gott skref í átt til þeirra viðhorfa sem við höfum haft til þessara mála. Það hefur margoft komið fram í umræðunni, enda lýsa ákvæði frv. sér skýrt um það, að hér er u.þ.b. 50% aukning á rétti að ræða til heimavinnandi kvenna, auk lengingar fæðingarorlofs í áföngum samkvæmt ákvæðum frv. Um þetta ætla ég ekki að hafa fleiri orð en taldi rétt að koma í ræðupúlt vegna orða 11. þm. Reykv., þar sem hún vék orðum sínum að okkur framsóknarmönnum og afstöðunni sem við hefðum haft til málsins.