29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

86. mál, stjórn fiskveiða

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það vefst fyrir mönnum hvort það muni vera 35% íbúa á Ísafirði sem stundi fiskveiðar og fiskvinnslu. Það er kannske rétt að það komi hér fram að það eru 47% af íbúum Vestfjarðakjördæmis sem stunda fiskveiðar og fiskvinnslu og næsta kjördæmi sem kemur þar á eftir er Austfirðirnir með nálægt 35%. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af Ísafirði í þessum efnum. Þeir eru örugglega langt fyrir ofan þau mörk sem hér er talað um.

En það er nokkuð oft búið að koma því beint og óbeint á framfæri að það hafi verið offjárfest í sjúkrahúsi á Ísafirði. Það er kannske rétt undir þessum lið að svara því einu sinni hér í þingsölum hver er sannleikurinn í þessum efnum.

Íslendingar eru búnir að fjárfesta í fleiri sjúkrarúmum pr. íbúa en aðrar Norðurlandaþjóðir. En í Vestfjarðakjördæmi, þegar þetta sjúkrahús er fullbúið, erum við með um helming af sjúkrarúmafjöldanum pr. íbúa miðað við það sem er í landinu. Þannig er staðan.

Þetta vona ég að séu nægar upplýsingar fyrir þm. til þess að menn hætti að láta í það skína í tíma og ótíma að það hafi verið offjárfest í sjúkrahúsbyggingu á Ísafirði.