16.03.1987
Efri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4221 í B-deild Alþingistíðinda. (3867)

10. mál, leyfi frá störfum vegna umönnunar barna

Frsm. meiri hl. félmn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Félmn. hefur haft þetta mál til meðferðar lengst af vetri. Þetta er 10. mál þingsins og fjallar um rétt foreldra til leyfis frá störfum vegna umönnunar barna.

Það hafa allmargar umsagnir borist um þetta mál, m.a. frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Kvenréttindafélagi Íslands, Bandalagi kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasambandi Íslands, Jafnréttisráði og sendiráðum Íslands í Danmörku og Noregi. Í þessum umsögnum sem bárust, ekki síst frá Kvenréttindafélagi Íslands, Bandalagi kvenna í Reykjavík, Kvenfélagasambandi Íslands og Jafnréttisráði, er viss samhljómur. Umsagnir eru í raun mjög jákvæðar fyrir frv. Þó er bent á atriði í því sem þyrfti að færa til betri vegar að dómi umsagnaraðila.

Ég vil skýra frá því að í nefndinni komu fram tillögur um breytingar á frv. Hv. flm. þessa frv., 11. þm. Reykv., hafði fyrst og fremst veg og vanda af því að útbúa þær tillögur. Þær voru ítrekað ræddar í nefndinni. Það náðist hins vegar ekki samstaða um það að veita frv. brautargengi, þ.e. til samþykktar, þrátt fyrir tillögur um breytingar á því, eins og ég hef skýrt frá, sem fram komu í nefndinni.

Ég talaði um það að athugasemdir og umsagnir hefðu verið jákvæðar. Þó tel ég, þrátt fyrir þær brtt. sem hér liggja fyrir frá minni hl. félmn. og þá þegar höfðu verið kynntar í nefndinni, að eitt standi út af, ef ég má svo að orði komast, þ.e. réttur þess sem hleypur í skarðið fyrir þann sem tæki sér leyfi frá störfum samkvæmt ákvæðum frv. og/eða brtt. Að vísu skal það viðurkennt að í umsögnum um frv. er að öllum líkindum sterkara að orði kveðið vegna þess að í frv. sjálfu er gert ráð fyrir allt að tveggja ára leyfi frá störfum vegna umönnunar barna. Þessi tími hefur verið styttur niður í eitt ár skv. brtt. En þrátt fyrir það þá er þarna um allnokkurn vanda að ræða vegna réttar þeirra sem hlaupa í skarðið eins og ég áður sagði.

Meirihlutaviðhorf í félmn. eru á þá lund að þessi mál verði að ræða milli aðila vinnumarkaðarins. Og meirihlutaviðhorf eru í raun á þá lund, hafi ég skilið meiri hl. nefndarinnar rétt, að þetta sé í meiri mæli samningamál og á því beri að taka sem slíku þótt ekkert banni það í sjálfu sér að löggjafinn hafi frumkvæði á þessu sviði.

Með vísan til þess að meiri hl. hefur áhuga fyrir því að þetta verði skoðað nánar, meiri hl. nefndarinnar er jákvæður fyrir málinu, en eins og segir í niðurlagi nál., með leyfi forseta:

„Meiri hl. nefndarinnar telur að frv. feli í sér réttindamál sem krefst vandaðs undirbúnings og samráðs við samtök á vinnumarkaði. Meiri hl. leggur því áherslu á að ríkisstjórnin hafi frumkvæði að því að koma á fót viðræðunefnd aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar til þess að gera tillögur um rétt foreldra til leyfis frá störfum vegna umönnunar barna. Í trausti þess að framanritað gangi eftir leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Undir þetta álit rita eftirtaldir auk mín, hv. þm. Björn Dagbjartsson, Salome Þorkelsdóttir, Valdimar Indriðason og Stefán Benediktsson.