16.03.1987
Efri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4222 í B-deild Alþingistíðinda. (3868)

10. mál, leyfi frá störfum vegna umönnunar barna

Frsm. minni hl. félmn. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. félmn. sem er að finna á þskj. 940. Að því stendur auk mín hv. þm. Helgi Seljan. Frv., sem er 10. mál þessa þings, kveður á um rétt foreldra til að beiðast lausnar frá starfi sínu til að annast um nýfætt barn allt að tveimur árum frá fæðingu barnsins, en ganga aftur að sama starfi og sömu kjörum að þeim tíma liðnum.

Frumvarpið er flutt til að koma til móts við þá breytingu sem orðið hefur á vinnumarkaðnum á undanförnum árum með gífurlegri aukningu á atvinnuþátttöku kvenna. Þetta er réttindafrumvarp sem miðar að því að taka umönnun barna með sem eðlilegan þátt í skipulagi vinnumarkaðarins og tryggja atvinnuöryggi foreldra þannig að öryggisleysi þeirra á vinnumarkaðnum verði ekki til þess að koma í veg fyrir að foreldrar geti sinnt barni sínu óskipt fyrstu tvö æviárin eftir fæðingu þess eins og frv. kvað upphaflega á um. Jafnframt tekur frv. á einum þætti þess kynbundna launamisréttis sem hér er í þjóðfélaginu vegna þess að ein ástæða fyrir lágum launum kvenna á vinnumarkaðnum er sú að konur hverfa iðulega af vinnumarkaði tímabundið til þess að annast um bú og börn, og síðan þegar þær koma út á vinnumarkaðinn aftur þá eru þær oftar en ekki í störfum nýliða á vinnumarkaðnum og þurfa að byrja upp á nýtt og þetta skilar sér í lægri kauptöxtum, minni aldurshækkunum og minna launaskriði hjá konum en körlum. Ástæður mismunandi launa kvenna og karla eru margar, en þetta er ein. Frv. er því ætlað að taka á þessum tveimur þáttum: Að laga vinnumarkaðinn að þörfum foreldra ungra barna og einnig að taka á einum hluta hins kynbundna launamisréttis.

Eins og fram kemur í nál. minni hl. félmn. var frv. ítarlega rætt á fundum nefndarinnar, enda verið þar til meðferðar frá því snemma á s.l. hausti. Umsagnir bárust frá Jafnréttisráði, Kvenréttindafélagi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Bandalagi kvenna í Reykjavík, og töldu allir umsagnaraðilar nema Vinnuveitendasamband Íslands frv. taka á brýnu réttindamáli foreldra ungra barna, en jafnframt að ýmsar lagfæringar yrði að gera á frv. til þess að sá réttur, sem það kveður á um, yrði sem best tryggður.

Með tilliti til þeirra athugasemda sem fram komu í umsögnum um frv. flytur minni hl. brtt. við frv. á sérstöku þskj.

Brtt. þessar fela í sér í fyrsta lagi að í stað þess að foreldri beiðist lausnar frá starfi sínu, eins og frv. kveður á um, þá óski foreldri einungis leyfis frá starfi sínu. Þetta er mun auðveldara í framkvæmd heldur en að foreldri beiðist lausnar frá starfi. Það tryggir betur rétt bæði foreldra og vinnuveitenda og er meðfærilegra þar sem aðeins er um tímabundið leyfi að ræða.

Í öðru lagi er í 1. brtt. einnig gert ráð fyrir að leyfi frá starfi til þess að annast um barn gildi aðeins í eitt ár frá fæðingu barns en ekki í tvö ár, eins og frv. kveður á um. Kom fram í nefndinni að menn höfðu miklar áhyggjur af að þetta væri óhóflega langur tími þar sem erfitt væri fyrir vinnumarkaðinn að aðlaga sig jafnlöngum tíma í einu stökki. Þess vegna er hér lagt til að rétturinn styttist í eitt ár og skrefið verði tekið í áföngum, byrjað á þessu eina ári. Ég vil taka það skýrt fram, og vænti þess að allir hv. þingdeildarmenn sjái, að þegar fæðingarorlof er orðið sex mánuðir þá er hér eingöngu um sex mánuði til viðbótar að ræða við fæðingarorlofið. Þannig að foreldri hefur þá rétt á sex mánaða launuðu fæðingarorlofi og síðan sex mánaða launalausu leyfi til viðbótar samkvæmt þessu frv.

Önnur brtt. á þskj. 941, sem minni hl. félmn. flytur, er að í frv. komi ný grein sem verði 2. gr. Í þeirri grein er kveðið á um þau skilyrði sem foreldri þarf að uppfylla til þess að njóta þeirra réttinda sem frv. kveður á um. Upphaflega var engin slík grein í frv. og á það var bent í umsögnum að hún væri nauðsynleg og er það fyllilega réttmætt. Þar er lagt til að foreldri, sem hefur starfað samfleytt hjá sama vinnuveitanda í 18 mánuði, eða í eitt og hálft ár áður en að leyfistökunni kemur, hafi þessi réttindi. Einnig er lagt til að foreldri skuli tilkynna vinnuveitanda með góðum fyrirvara, eða þriggja mánaða fyrirvara, hvort óskað sé leyfis frá störfum skv. ákvæðum 1. gr. og þá jafnframt hvenær foreldri hyggist hefja störf að nýju. Með þessu móti er vinnuveitandi vel tryggður. Hann veit með góðum fyrirvara bæði hvenær foreldri hyggst taka leyfið og eins hvenær hann má vænta þess að foreldri hefji störf að nýju á tímabilinu.

Varðandi þær athugasemdir sem fram komu m.a. í máli hv. frsm. meiri hl. félmn. hér áðan vegna þessa frv., í fyrsta lagi vegna réttarstöðu afleysingafólks, þar sem sá sem leysir af foreldri sem nýtir sér ákvæði þessa frv. hefur samkvæmt frv. engan rétt, þá vil ég taka fram að það er ekki með nokkru móti hægt að tryggja afleysingafólki sams konar rétt og þeim sem gegna föstum störfum úti á vinnumarkaðnum, enda má segja að slíkt sé e.t.v. óeðlilegt. Ég vil einnig benda á að hvað varðar fæðingarorlofið, sem við vorum að ræða hér rétt á undan, þar sem gert er ráð fyrir sex mánaða orlofi, þá hefur þetta atriði greinilega ekki vafist fyrir nokkrum. Foreldri, sem fer í sex mánaða fæðingarorlof, þarf einnig á því að halda að vera leystur frá starfi. Þar er einnig um afleysingafólk að ræða og réttindi þess eru ekki með nokkrum hætti tryggð í fæðingarorlofsfrv., enda verður slíku ekki við komið, hvorki í því frv. né í frv. sem hér er til umræðu.

Einnig vil ég benda á að fólk sem ræður sig til afleysinga gerir það vitandi vits og það er vitaskuld öllum í sjálfsvald sett hvort þeir ráða sig til afleysinga eða ekki þannig að ég tel ekki að hér sé gengið á rétt nokkurs þótt þetta frv. kveði ekki á um rétt afleysingafólks. Spurningin snýst um það hvort við viljum tryggja einhverjum einhvern rétt eða öllum engan rétt.

Einnig komu þau sjónarmið fram í nefndinni að aukinn réttur af þessu tagi til foreldra ungra barna gæti gert það að verkum að konur yrðu að óæskilegu vinnuafli á vinnumarkaðnum þar sem líkur eru á að það yrðu einkum mæður sem myndu notfæra sér þessi réttindi. Sömu rök voru uppi höfð á sínum tíma um fæðingarorlofið og þegar það varð fyrst að lögum þá var það einmitt í trássi við þessi rök, að með því að tryggja konum rétt til fæðingarorlofs, þá þrjá mánuði, yrðu þær þar með afskaplega ófýsilegur valkostur fyrir atvinnurekendur. Þau rök voru lögð til hliðar þá og af sömu ástæðum held ég að óhætt sé að leggja þessi rök til hliðar nú hvað varðar þetta mál. Ég vil einnig benda á að þau hafa ekki komið upp varðandi það fæðingarorlofsfrv. sem verið var að samþykkja hér áðan, heldur komu þau eingöngu upp varðandi þetta atriði.

Ef við tökum þá afstöðu að aukinn réttur vinnandi fólks, sama hvort um konur eða karla er að ræða og sama af hvaða ástæðu það er, sé þeim skaðlegur vegna þess að þá vilji vinnuveitendur ekki fá fólk í vinnu til sín, ef við tökum þá afstöðu þá erum við líka að segja: Það er ekki eðlilegt að tryggja vinnandi fólki neinn rétt á vinnumarkaðnum; við þurfum enga vinnulöggjöf. Þessari afstöðu mótmæli ég eindregið. Ég tel það vera eitt af hlutverkum Alþingis að tryggja vinnandi fólki ákveðinn lágmarksrétt á vinnumarkaðnum og í þá veru gengur þetta frv.

Spurningin sem er lögð fyrir hv. þm. í þessu frv. er þessi: Telja menn eðlilegt að vinnumarkaðurinn taki tillit til barnsfæðingahlutverks kvenna og að þeim verði tryggð réttindi á vinnumarkaðnum í samræmi við það? Ég vil minna hv. þm. á að þetta atriði er ein meginuppistaða í alþjóðasamningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum sem samþykktur var einróma hér á hæstv. Alþingi fyrir tæpum tveimur árum síðan. Þar skuldbundum við okkur á alþjóðagrundvelli til að taka sérstakt tillit til barnsfæðingahlutverks kvenna, hvar sem borið er niður í þjóðfélaginu. Og það er einmitt það sem þetta frv. gerir.

Hv. frsm. meiri hl. félmn. vék að því hér áðan að e.t.v. væri þetta mál eðlilegt samningsmál, þ.e. um það ætti að fjalla í samningum aðila vinnumarkaðarins og til þess tekur sú tillaga sem meiri hl. nefndarinnar flytur hér.

Þetta mál snýst ekki um kaup og kjör og þess vegna tel ég að óhætt sé fyrir Alþingi að hafa skoðun á þessu máli og tryggja vinnandi fólki þau réttindi sem hér um ræðir. Ég vil enn vísa til umræðna um fæðingarorlofsfrv. Með sömu rökum og hv. frsm. félmn. hafði hér áðan má segja að fæðingarorlof sé samningsmál. Það eigi að ræða í samningum aðila vinnumarkaðarins, þar eigi það að ákvarðast og Alþingi eigi ekki að vera að skipta sér af þessum málum. Slík rök hafa ekki heyrst hér í hv. deild varðandi fæðingarorlofið og þau eiga jafnilla við hvað þetta mál varðar.

Ég harma það mjög að ekki skuli hafa náðst samstaða í hv. nefnd um þetta mál. Ég mun greiða atkvæði gegn þeirri frávísunartillögu sem meiri hl. ber hér fram. Og ég vil taka það fram að í mínum huga er þessi tillaga meiri hlutans fyrst og fremst tillaga um að vísa málinu frá vegna þess að ég hef reynslu af því á þessu kjörtímabili að málum hafi verið vísað til ríkisstjórnarinnar með því fororði að taka á því. Ég vil þar sérstaklega nefna frv. til laga um átak í dagvistannálum barna sem ég flutti á 106. löggjafarþingi. Því frv. var vísað til ríkisstjórnarinnar af meiri hl. fjh.- og viðskn., með þeim orðum að þetta mál þyrfti að skoða vel og átaks væri þörf, um það var ekki deilt, og því skorað á ríkisstjórnina að láta hendur standa fram úr ermum. Síðan þessu máli var vísað til ríkisstjórnarinnar hafa framlög til dagvistarmála barna farið hríðlækkandi á fjárlögum frá ári til árs. Þetta er sú reynsla sem ég hef af því að láta vísa þeim málum sem ég hef hér borið fram til ríkisstjórnar. Og ég geri ekki meira með þá frávísunartillögu sem hér liggur fyrir heldur en sú reynsla sem ég hef sannar.

Virðulegi forseti. Ég hef þessi orð ekki öllu fleiri. Ég ítreka það að mér þykir mjög leitt að ekki skuli hafa náðst samstaða í nefndinni um þetta einfalda og ég vil segja litla réttindamál, og mér þykir mjög miður ef ástæðan er sú að málið strandar á pólitískum skerjum hér innan dyra. Ég vona að það verði ekki reyndin og legg til, ásamt hv. þm. Helga Seljan, að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem við flytjum á sérstöku þskj.