16.03.1987
Efri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4227 í B-deild Alþingistíðinda. (3873)

408. mál, heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Hér liggur fyrir eitt af þeim stjórnarfrv. sem flutt eru til kynningar hér í hv. Alþingi. Ég vil freista þess að mæla örlítið fyrir því ef það mætti e.t.v. komast til nefndar þannig að unnt yrði að senda málið til umsagnar. Ég geri mér grein fyrir því að það næst ekki að afgreiða þetta mál nú, enda er það þess eðlis að það er sjálfsagður hlutur að það fari til umsagnar þeirra aðila sem hlut eiga að máli.

Ástæðan fyrir tilurð þessa frv. er í stuttu máli sú, sem menn verða varir við hér á hv. Alþingi jafnan í desembermánuði, þegar ráðherrar heilbrigðismála mæla fyrir því að framlengt sé bráðabirgðaákvæði í núgildandi heilbrigðisþjónustulögum þess efnis að lögin eins og þau eru skuli ekki taka strax gildi á höfuðborgarsvæðinu.

Þannig er mál með vexti að það hefur betur og betur komið í ljós á þeim tíma sem liðinn er frá því að heilbrigðisþjónustulögin voru fyrst sett árið 1973 að nokkuð öðru máli gegnir um framkvæmd sumra ákvæða þeirra hér í þéttbýlinu heldur en úti um landið.

Nú er það mála sannast að uppbygging í heilsugæslunni út um allt land hefur verið með mjög miklum ágætum og það er svo sannarlega af sem áður var að þar eigi menn mjög erfitt með að ná til læknis eins og víða var. Heilsugæslustöðvarnar hafa að því er ég tel breytt lífi fólks úti um landið mjög til hins betra og sannarlega haft í raun og veru áhrif á kjör þeirra sem þar búa með þeim glæsilegu heilsugæslustöðvum sem upp hafa risið og þeirri þjónustu sem þar er veitt og þaðan er veitt. Hitt er svo annað mál að hin fjölbreytilega starfsemi, sem lögin gera ráð fyrir að fram fari í heilsugæslustöðvum, þarf e.t.v. ekki nauðsynlega að vera í hverri heilsugæslustöð á þéttbýlissvæði þar sem um margar stöðvar er að ræða. Meira hagræði væri að því að samnýta suma þættina og þannig gætu sveitarfélögin sparað sér allnokkurt fé án þess að skerða þjónustuna hið minnsta.

Einnig er á það að líta að hér í þéttbýlinu er aðstaða fólks nokkuð önnur eins og ekki er þörf á að fjölyrða um þegar litið er til alls þess fjölda lækna sem hér rekur sínar lækningastofur á þéttbýlissvæðinu og enn fremur að hér eru menn í nánd við hina sérhæfðustu sjúkrahúsaþjónustu. En heilsugæslustöðvarnar sjá fyrst og fremst um þjónustu utan sjúkrahúsa og heimilislæknaþjónustu.

Ég hef lýst því áður hér í hv. Alþingi að ég sé ekki mótfallin því að starfað geti hlið við hlið hið svonefnda númerakerfi í læknisþjónustunni, að menn velji sér hver sinn heimilislækni, og svo heilsugæslustöðvarnar. Á það hefur hins vegar verið knúið með vaxandi þunga að tekið verði af skarið um það hvenær heilbrigðisþjónustulögin taki alfarið gildi hér á þessu svæði og þá með hvaða hætti það skuli gerast.

Þess vegna var það að fyrirrennari minn, hæstv. núverandi samgrh., Matthías Bjarnason, skipaði á árinu 1984 nefnd til að endurskoða ákvæði þessara laga, sérstaklega með skipulag heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu í huga. Til þessa nefndarstarfs var stofnað í framhaldi af niðurstöðum fundar og samkvæmt óskum sveitarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu.

Í nefndinni voru þeir Davíð Gunnarsson, þáv. aðstoðarmaður fyrirrennara míns, Eggert Jónsson borgarhagfræðingur, Jón Gauti Jónsson bæjarstjóri, Kristján Guðmundsson bæjarstjóri, Lúðvík Ólafsson heilsugæslulæknir og Hilmar Björgvinsson, deildarstjóri í Tryggingastofnuninni. Og síðar á árinu 1984 tók síðan Katrín Fjeldsted heilsugæslulæknir við sæti Eggerts Jónssonar í nefndinni.

Þessi nefnd komst í stuttu máli að þeim meginniðurstöðum að á þessu svæði skuli bæði vald og fjárhagsleg ábyrgð sveitarfélagsins að því er varðar heilsugæsluna efld til muna og heilsugæslan rekin mikið til sjálfstætt á vegum sveitarfélagsins samkvæmt þessu frv., ef að lögum yrði.

Í stuttu máli má segja að það sé á þann veg að fjármögnunin gerist með þeim hætti að fúlga sé fengin sveitarfélaginu til rekstrar heilsugæslu og það sé að stærstum hluta lagt í vald sveitarfélagsins með hvaða hætti það gerist. Þannig er opnuð heimild í þessu frv. til þess að semja við einkaaðila eða félög um heilsugæsluþjónustuna og enn fremur eru ákvæði um yfirstjórnina að sveitarstjórn geti, ef hún óskar, ákveðið að sérstök stjórn í umboði ráðherra og sveitarfélags annist alla stjórn heilbrigðisþjónustu utan spítala. Í þeirri stjórn skuli bæði vera fulltrúi ríkisins og að öðru leyti fjórir fulltrúar kosnir af sveitarstjórn. En hins vegar fylgir þessu frv. örlítið frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar, þar sem gert er ráð fyrir að ef sveitarstjórn óski, þá sé unnt að sameina þessa stjórn heilsugæslu og stjórn sjúkrasamlags. Eins og orðalag þess frv. er, þá er það svo að það sé unnt að fela stjórn heilsugæslu stjórn sjúkrasamlags. En í raun og veru er hugsunin sú að hægt sé að framkvæma þetta með þeim hætti að fela stjórn sjúkrasamlagsins stjórn heilsugæslu. Og það má segja að það sé ekki spurning um efni heldur spurning um það í hvaða röð hlutirnir eru nefndir.

Þetta eru meginatriðin í þessu frv., valdið og ábyrgð hjá sveitarfélaginu, hið faglega eftirlit að sjálfsögðu eins og annars er gert ráð fyrir með skipan heilbrigðisstarfsliðsins, og megintilgangurinn er sá að fólkið á höfuðborgarsvæðinu njóti jafngóðrar heilsugæsluþjónustu og annars staðar er.

Ég vil benda hv. þingnefnd á þegar hún sendir þetta frv. til umsagnar að ég tel að e.t.v. þurfi að fjalla sérstaklega um það hvort kveða þurfi skýrar á um það hvernig sérfræðiþjónustu ætti að reka í samstarfi við heilsugæsluna. Það er alls ekki hugsunin, ekki frá mínu sjónarmiði séð, að draga úr þeirri þjónustu sem hin besta þekking, bæði almenn og sérþekking, getur veitt, heldur þvert á móti að gera þessi verkefni skýrari og greiðari.

Þetta er eitt af þeim frumvörpum sem varða hið mikla mál sem oft hefur verið rætt, og áratugum saman kannske, um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og þar með kostnaðarskiptingu. Auðveldast þykir að koma breytingu á slíku við á þéttbýlissvæðinu, en ég geng út frá því ef til kæmi að fleiri sveitarfélög óskuðu eftir sams konar fyrirkomulagi þá væri það að sjálfsögðu rétt að greiða fyrir því og opna heimild til þess.

Ég hygg, frú forseti, að ekki sé ástæða til að hafa fleiri orð um þetta að svo stöddu. Frv. er efnislega óbreytt eins og það kom frá nefndinni sem samdi það. En það er auðvitað ekki óeðlilegt að þegar fjallað er um grundvallaratriði eins og þetta að þá vilji Alþingi og umsagnaraðilar gefa sér góðan tíma og því fer ég fram á það að þessu máli verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. heilbr.- og trn. Ég þykist vita að það sé ekki unnt að vísa því til 2. umr. á þessu þingi, eða ég treysti mér ekki til að gera tillögu um það, þannig að ég geri mér grein fyrir því að til þess er ekki tími.