16.03.1987
Efri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4230 í B-deild Alþingistíðinda. (3878)

405. mál, eftirlit með skipum

Frsm. samgn. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Samgn. Ed. hefur fjallað um þetta frv. sem er um eftirlit með skipum og gerir við það nokkrar brtt. Ef ég geri grein fyrir þeim er það í fyrsta lagi við 7. gr. frv. 2. mgr. orðist á þann veg sem sagt er á þingskjalinu: „Sama gildir um starfsmenn skipasmíðastöðva og verkstæða er þeir eru að starfi sínu, þó þannig að þeir skulu gera yfirmanni sínum viðvart. Skal hann þegar hafa samband við viðkomandi umdæmisstjóra Siglingamálastofnunar.“

Það sem átt er við þarna og talað er um að það sé forstöðumaðurinn eða forstjórinn sem á að taka á móti slíkum aðfinnslum en hann er oft ekki við, og þá er það næsti yfirmaður sem skal taka við þessu, þannig að ekki fari á milli mála að það komist rétta boðleið.

Við 15. gr. Þar kemur ein breyting. Í stað orðsins „eða“ í 2. mgr. komi: og. Þetta eina orð breytir þarna greininni þannig en 15. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Telji starfsmenn Siglingamálastofnunar eigi öruggt að skip sé í förum skal svipta skipið haffærisskírteini og tilkynna skipstjóra eða útgerðarmanni að skipið“ o.s.frv. Þarna er sagt að það skuli tilkynna þetta bæði skipstjóra og útgerðarmanni þannig að það fari ekki á milli mála að þetta hafi komist rétta boðleið og báðum þessum ábyrgðaraðilum fyrir viðkomandi skipi sé kunnugt um það hvernig ástatt er.

Við 17. gr. er einnig gerð breyting, þ.e. við F-liðinn þar sem er talað um fjarskiptatæki. Orðin „samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð“ falli niður og aðeins verður sagt þarna að öll skip skuli búin fullnægjandi fjarskiptabúnaði. Þetta er ótvíræðara og þarf ekkert að vitna í reglugerð um að þarna er ófrávíkjanleg regla sem skal farið eftir.

Við 29. gr. er einnig breyting. Það varðar siglingadóminn, þ.e. í 2. lið 29. gr. Þar er talað um dómarana við sjóprófin eða siglingadóminn: „Tveir skulu vera eða hafa verið starfandi yfirvélstjórar á skipi og annar þeirra á dísilskipi.“ Orðin „og annar þeirra á dísilskipi“ eru felld niður. Þeir skulu aðeins vera tveir sem hafi verið starfandi yfirvélstjórar á skipi.

Nefndin leggur til að þessar breytingar verði gerðar á frv. sem eru ekki mjög veigamiklar en kveða þó skýrar á en ella.

Það vannst ekki mikill tími til að gaumgæfa þetta frv. af hendi nefndarinnar það skal tekið fram. Til viðtals komu á hennar fund Ólafur Steinar Valdimarsson, ráðuneytisstjóri í samgrn., og Magnús Jóhannesson siglingamálastjóri og einnig var haft samband við Ragnhildi Hjaltadóttur deildarstjóra í morgun vegna þessa máls, en hún vann að því að semja þetta frv.

Einnig hafði ég samband núna um hádegið við lögfræðing LÍÚ og hann sagði mér, það er rétt að það komi fram við þessa umræðu, að þeir væru ekki alls kostar ánægðir með frv. Þeir vildu fá á því frekari skoðun en þeir settu sig alls ekki á móti því - það var LÍÚ og Farmannasambandið, þeir eiga sæti í siglingaráði sem kallað er sem fjallar um þessi mál - sem hér væri í frv. en vildu benda á að það þyrfti að endurskoða ýmsar greinar, einkum er varðar það sem siglingaráðið fjallar um, þ.e. siglingadóm og annað, það yrði gert næsta haust. Hann vildi ekki leggja til að málið yrði tafið hér, vildi að það færi áfram, en þeir höfðu þetta fram að færa. Þetta kom fram af þeirra hálfu.

Ég þarf ekki að orðlengja um þetta frekar. Þetta er mál sem þurfti að koma til endurskoðunar og það er að mínu mati allgott sem hér er komið. Þetta var töluvert mikið rætt í öryggismálanefnd sjómanna sem starfaði mikið s.l. sumar og haust og voru þessi mál þar mjög á dagskrá og var fjallað um að þyrfti að hraða því sem mest að gera þar breytingu á.

Virðulegi forseti. Öll nefndin leggur til að frv. verði samþykkt.