29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

86. mál, stjórn fiskveiða

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Í máli hæstv. sjútvrh. kom fram að sennilega væri þetta frv. við það miðað að aflakvóti yrði ekki skertur í neinu sjávarplássi á Vestfjörðum, og hefur það verið staðfest af einum flm. frv., hv. 5. þm. Vestf., að svo muni vera. Það er náttúrlega athyglisvert að þm. kjördæmis skuli leggja það til að hagur manna í öðrum kjördæmum skuli versna, en þeir einir njóta góðs af, og lýsir þeim hugsunarhætti sem (Gripið fram í: Frumvarpið fjallar ekki um skerðingu.) þeir hafa þegar hugsað er um landsmenn í heild (Gripið fram í: Hafi virðulegur þm. ekki . . .) og er fróðlegt ekki síst að veita því athygli að formaður Alþfl. skuli vera á þessu plaggi.

Nú veit ég að hv. 3. þm. Vestf., Karvel Pálmason, og ekki síður hv. 5. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, eru athugulir menn, að ég tali nú ekki um hv. 5. þm. Austurl., Hjörleif Guttormsson, sem ekki setja mælistiku niður án þess að gera sér grein fyrir afleiðingum hennar. Hér eru afleiðingar þess að þeirri mælistiku sé beitt. Hér er talað um það að þeir staðir, þar sem a.m.k. 35% vinnuafls starfi við fiskveiðar og fiskvinnslu, eigi að eiga tilkall til aflamarks og sóknarmarks frá skipum frá öðrum stöðum, þannig að afli þessara skipa vaxi a.m.k. um 25%, eða heimild þeirra til þessa afla vaxi a.m.k. um 25%. Nú vil ég biðja einhvern flm. að gera okkur grein fyrir því hér við 1. umr. til að flýta fyrir, um hversu mikla aflatilfærslu sé hér að ræða. Hvað gera þeir ráð fyrir að mikill afli færist á milli staða ef allir munu nýta sér þessa heimild?

Mér skilst samkvæmt þessu frv. að þeir geri áfram ráð fyrir því að skip, sem fái úthlutað aflakvóta, megi selja kvótann. Hér er því ekki um það að ræða hvort viðkomandi sjái sér mögulegt að veiða meira, heldur er spurningin um hitt hvort viðkomandi vilji fá 25% af sínum kvóta í hendur gefins, til þess kannske síðar, ef þeir geta ekki veitt kvótann, að selja á þá staði sem ekki njóta þessarar 25% aukningar sem hér er talað um. Mér finnst forvitnilegt ef þetta gæti komið fram. Ég vil biðja hæstv. forseta að fresta umræðunni svo að hv. flm. gefist svigrúm til að rifja upp þá staði, sem eiga að verða fyrir þungum búsifjum af völdum þessa frv., til þess að hv. flm. gefist tóm til að reikna út um hversu mikla aflatilfærslu sé að ræða. Því ég veit að þeir hljóta að eiga þetta heima hjá sér ef þeir eru ekki með þetta við höndina hér. Ég bjóst satt að segja við því að flm. mundu gera grein fyrir þessum staðreyndum málsins í sínum frumræðum, til þess að þm. gætu áttað sig á því um hvað frv. raunverulega fjallar.

Mig langar t.d. að spyrja hv. 1. flm.: Er hann búinn að athuga það, er það öldungis víst, að þó hann svipti þau skip, sem hér er talað um að svipta afla, öllum sínum afla, að það mundi duga til þess að auka aflann hjá hinum skipunum um 25%? Getur hann svarað þessu á stundinni? Eða heldur hann kannske að þessi skip eigi eftir 25% af sínum afla? Heldur hann að þessi skip eigi eftir 50% af sínum afla? Hver eru þessi stærðarhlutföll? Ég vil líka af gefnu tilefni spyrja um það, vegna þess að mér heyrðist á 1. flm. að hann væri reiðubúinn til þess að athuga það, hvort ekki væri rétt að fjölga fiskiskipum þannig að þeir staðir, þar sem ekki berst nægilegur afli á land til þess að um trygga atvinnu geti verið að ræða - slíkir staðir eru víðar en á Vestfjörðum - eigi að fá fiskiskip. Helst erlendis frá. Ég skildi hv. þm. svo. Af því tilefni vil ég spyrja hv. þm.: Telur hann að formaður Alþfl. sé sammála því að rétt sé að flytja inn togara og fiskiskip erlendis frá án þess að önnur séu flutt úr landi í staðinn eða sökkt eða með öðrum hætti fari úr útgerð? Það væri náttúrlega tímamótayfirlýsing ef Alþfl. mundi nú lýsa því yfir að fjárfesting í sjávarútvegi og í fiskiskipum væri ekki nægilega mikil og það væri af þeim sökum rétt að auka þá fjárfestingu með því að gefa t.d. innflutning á fiskiskipum frjálsan. Hver ætli stefna formanns Alþfl. sé í því máli?

Það var sérstaklega boðað, ef ég man rétt, af formanni Alþfl. í mikilli ræðu áður en flokksþingið var haldið að móta ætti nýja stefnu í atvinnumálum og sérstaklega, ef ég man, talað um framleiðsluatvinnuvegina í því samhengi. Hér sjáum við hver stefnan er gagnvart stærri stöðunum. Hugmyndin er sú, eins og kom fram hjá hæstv. sjútvrh., að leggja niður útgerð á Akureyri, svo ég taki mitt kjördæmi. Svo ég taki kjördæmi formanns Alþfl., leggja niður ... (ÓÞÞ: Um hvaða frv. er hv. ræðumaður að tala?) Ég er að tala um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 97/1985, um stjórn fiskveiða. (ÓÞÞ: Í hvaða grein er gert ráð fyrir að Akureyri verði lögð niður?) Ég hélt nú að . . . (ÓÞÞ: Í hvaða grein? Er ræðumaður læs?) Ræðumaður er læs. En ég heyri að hv. flm. gerir sér ekki grein fyrir afleiðingum síns frv., en það er sennilega af því að hann er ókunnugur fyrir norðan. En það væri nauðsynlegt að fá svör við þessum spurningum. (Gripið fram í: Þau koma.)