16.03.1987
Efri deild: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4235 í B-deild Alþingistíðinda. (3887)

427. mál, fjarskipti

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til fjarskiptalaga. Þetta frv. var samið af nefnd sem ég skipaði í maí í fyrra. Í þeirri nefnd voru Jón A. Skúlason, fyrrv. póst- og símamálastjóri, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Helgi Pétursson blaðafulltrúi, Jón Birgir Jónsson yfirverkfræðingur, Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri og Leifur Magnússon framkvæmdastjóri. Enn fremur starfaði Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóri í ráðuneytinu, með nefndinni. Nefndin lauk störfum í byrjun þessa mánaðar og afhenti mér það frv. til fjarskiptalaga sem ég legg fram til kynningar á þessu þingi.

Áður en lengra er haldið vil ég geta þess að í umræðum á Alþingi um frv. til útvarpslaga í febrúar 1985 greindi ég frá því að ég teldi að ýmis ákvæði fjarskiptalaganna þyrftu endurskoðunar við. Í skipunarbréfi nefndarmanna lagði ég áherslu á ákveðin atriði sem ég óskaði eftir að nefndin fjallaði um að fenginni reynslu af framkvæmd gildandi laga og með hliðsjón af nýjum útvarpslögum. Ég nefni í þessu sambandi atriði eins og að mörkuð yrði í lögunum stefna varðandi útvarpssendistöðvar og lagningu strengja fyrir útvarpsdreifingu, að endurskoðuð yrði skilgreining 1. gr. á notendabúnaði, einkum með tilliti til þráðlauss búnaðar og hugsanlegrar staðsetningar hluta hins opinbera fjarskiptakerfis í húsakynnum notenda og að skilgreint yrði orðasambandið „í atvinnuskyni“ í 2. gr. gildandi laga.

Enn fremur vil ég nefna atriði sem lúta að stefnumörkun í fjarskiptamálum eins og hvort gefa ætti innflutning frjálsan á öllum fjarskiptabúnaði en ekki eingöngu á notendabúnaði eins og gildandi lög heimila og hvort rétt væri að veita fleiri aðilum en Póst- og símamálastofnun heimild til viðurkenningar á notendabúnaði.

Í síðasta lagi óskaði ég álits nefndarinnar á því hvort breyta ætti ákvæðum 3. mgr. 9. gr. um undanþágu frá greiðslu afnotagjalda fyrir síma til handa elli- og örorkulífeyrisþegum.

Hér á eftir mun ég fjalla um einstaka kafla frv. og geta þeirra helstu breytinga sem í frv. felast. Frv. er skipt í 10 flokka og 24 greinar og er þetta sama uppbygging og á gildandi lögum. Í I. kafla eru orðaskýringar og er lagt til að gerð verði grundvallarbreyting á skýringu orðsins „fjarskiptavirki“ og undir það látin heyra samkvæmt tillögu nefndarinnar tíu tilgreind kerfi. Bent er á að fyrstu fimm kerfin gætu á komandi árum runnið saman í svokallað fjölnotakerfi. Varðandi notendakerfi er skýrt tekið fram að lagnir notanda tengjast við þann hluta fjarskiptavirkis ríkisins sem staðsett er innan húsrýmis viðkomandi notanda. Hér er átt við „húskassa“, „fjölsímaendabúnað“ eða „notendastig í sjálfvirkri símstöð“ og fer eftir því hvað telst hentugast og árangursríkast frá hagræðingarsjónarmiði.

Áður en ég læt lokið umfjöllun minni um 1. gr. frv. vil ég geta um það álit nefndarinnar að fjarskiptavirki sem eingöngu er ætlað til viðtöku á útvarpsefni, þ.e. hljóðvarps- og sjónvarpsefni, og eingöngu til eigin nota eiganda fjarskiptavirkisins fellur sem slíkt undir skilgreiningu frv. á notendakerfi. Í þessu sambandi vil ég undirstrika að sams konar leyndarskylda skal vera um þetta og segir í VI. kafla frv. varðandi efni sem ætlað er almenningi.

II. kafli frv. fjallar um rétt til reksturs fjarskipta. Lagt er til að veigamiklar breytingar verði gerðar á þessum kafla. Í fyrsta lagi vil ég nefna að enda þótt talið sé rétt að ríkið hafi eftirleiðis sem hingað til einkarétt á að eiga og reka á Íslandi og í íslenskri landhelgi og lofthelgi hvers konar fjarskiptavirki til almenningsnota er lagt til að ráðherra fjarskiptamála fái rúma heimild til að veita einstökum innlendum mönnum, félögum eða stofnunum undanþágu frá þessum einkarétti.

Í skýringu nefndarinnar við 2. gr. frv. segir m.a. að í 3. mgr. felist meginbreytingin á núgildandi lögum og sú afdrifaríkasta. Nefndin leggur til að fellt verði niður skilyrðið „þó ekki í atvinnuskyni að því er varðar fjarskiptin sem slík“.

Í þessu sambandi er rétt að benda á að á löggjafarþingi 1983-1984 þegar frv. til núgildandi laga var til umfjöllunar var við afgreiðslu þess tekið inn þetta skilyrta ákvæði. Nefndin taldi að það bæri að gefa ráðherra miklu meira frjálsræði og svigrúm til að koma til móts við aukna samkeppni á sviði fjarskipta jafnt sem á öðrum sviðum samskipta.

Ég vil varðandi þetta atriði taka fram að með þessu er farið inn á nýja braut sem er að mínu mati vandrötuð og viðkvæm gagnvart gjaldtöku og þeim grundvelli sem gjaldskrá og reglur fyrir símaþjónustu eru byggðar á í dag.

Önnur meginbreytingin á gildandi lögum felst í því að lagt er til að 1. mgr. 3. gr., um einkarétt ríkisins til að flytja til landsins, selja, leigja eða dreifa á annan hátt, smíða, gera við, breyta eða setja upp hvers konar fjarskiptavirki eða hluta þeirra, verði felld niður. Með þessu er lagt til að allur innflutningur og sala á hvers konar fjarskiptavirkjum verði frjáls. Rétt er að vekja athygli á því til þess að komast hjá misskilningi að óheimilt er eftir sem áður að tengja viðkomandi fjarskiptabúnað eða tæki við fjarskiptakerfi ríkisins nema að fenginni viðurkenningu á búnaðinum samkvæmt 3. gr. frv.

Eins og fram kemur í grg. frv. er það skoðun nefndarinnar að gefa eigi ráðherra kost á því að veita öðrum aðila en Póst- og símamálastofnun umboð til þess að viðurkenna fjarskiptabúnað til tengingar við fjarskiptavirki ríkisins. Með því er komið til móts við óskir samtaka eins og Verslunarráðs Íslands. Ákvæðum 3. gr. er breytt í samræmi við þetta. Ég vil í þessu sambandi leggja á það ríka áherslu að með þessari tillögu er ekki á nokkurn hátt verið að kasta rýrð á starf Póst- og símamálastofnunar varðandi viðurkenningu á notendabúnaði á undanförnum árum. Ég tel að stofnunin hafi sinnt því starfi vel og af heilindum. Þegar þess er gætt að við höfum hér á landi gengið lengra á frjálsræðisbraut í sambandi við innflutning á fjarskiptabúnaði, leyfi ég mér að segja, en nokkur önnur þjóð, er það með ólíkindum hve lítið hefur þrátt fyrir allt verið um ágreining varðandi þessar prófanir og viðurkenningar á fjarskiptabúnaði. Hafi verið um ágreining að ræða virðist hann hafa dvínað fljótlega eftir því sem innflytjendur kynntu sér betur þær reglur og fyrirmæli sem samgrn. setti stofnuninni strax þegar innflutningur notendabúnaðar var gefinn frjáls á árinu 1981 og sem ég síðan áréttaði í reglugerð á árinu 1985 um notendabúnað til tengingar við hið opinbera fjarskiptakerfi. Nú virðist sem allar prófanir gangi auðveldlega fyrir sig og án árekstra. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að ekki hefur enn komið til málskots sem gildandi lög veita heimild til og óbreytt er í þessu frv.

III. kafli frv. fjallar um skyldu til þess að hafa fjarskiptabúnað í farartækjum og er hann óbreyttur frá gildandi lögum.

Í IV. kafla eru ákvæði er varða stjórn, rekstur og eftirlit með fjarskiptum. Lagt er til að tvær breytingar verði gerðar á þeim kafla.

Í fyrsta lagi er lagt til að tekið verði upp ákvæði um að ráðherra setji almennar reglur um verðlagningu söluvöru sem stofnunin lætur notendum í té og ákvæði um að stofnunin gefi út verðskrá sem liggi frammi á öllum afgreiðslustöðum hennar. Með þessu er komið til móts við þá aðila sem á undanförnum árum hafa gagnrýnt stofnunina fyrir að hafa ekki birt á aðgengilegan hátt verð á söluvöru sinni, vinnu við uppsetningu, flutning og viðgerðir á fjarskiptabúnaði.

Í öðru lagi er lagt til að í 3. mgr. 9. gr. gildandi laga verði fellt brott ákvæði þetta: veiti ráðherra heimild til að ákveða að felld skuli niður afnotagjöld af símum elli- og örorkulífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar. Nefndin sem samdi frv. komst að þeirri niðurstöðu að það samrýmdist ekki hlutverki og rekstri fjarskiptastofnunar að veita einstökum þjóðfélagsþegnum styrki eða greiða niður framfærslukostnað þeirra. Jafnframt var það mat nefndarinnar að óeðlilegt væri að hinn almenni símnotandi beri kostnað af slíkum niðurgreiðslum með greiðslu afnotagjalda. Nefndin telur réttara að allir skattþegnar landsins beri þennan kostnað og hann yrði greiddur í gegnum almannatryggingakerfið.

Áður en ég segi skilið við þennan kafla langar mig til þess að fara nokkrum orðum um ákvæði 7. gr. frv. Hún er óbreytt frá gildandi lögum. Í henni eru ákvæði um að Póst- og símamálastofnunin hafi eftirlit með fjarskiptum þeirra aðila sem með öðrum lögum annast fjarskipti á tilteknum sviðum. Það var mat fjarskiptanefndarinnar að hin svokölluðu kaplakerfi falli undir þessa grein að því er varðar tæknilega eiginleika þegar öllum ákvæðum útvarpslaga hafi að öðru leyti verið framfylgt, m.a. heimildum útvarpsréttarnefndar. Mér skilst að ákveðið hafi verið að endurskoða útvarpslögin og sérstakri nefnd falið það verkefni. Með hliðsjón af því að þetta frv. til fjarskiptalaga verður að öllum líkindum ásamt nýju útvarpslagafrv. til umfjöllunar á næsta Alþingi tel ég mikilvægt að þessir lagabálkar verði samræmdir að því er þennan þátt fjarskiptamála varðar.

V. kafli fjallar um uppsetningu og vernd fjarskiptavirkja og eru ekki gerðar neinar efnisbreytingar á honum. Sama má segja um VI-X. kafla að nefndin taldi ekki ástæðu til verulegra efnisbreytinga en þeir fjalla um leynd og vernd fjarskipta, stöðvun fjarskipta, fjarskiptavirki á hættutímum, milliríkjasamninga og viðurlög við brotum á lögunum.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég til áherslu draga fram nokkur atriði sem sum hver hafa að vísu komið fram áður í máli mínu en sem ég tel rétt og nauðsynlegt að undirstrika.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að framfarir á sviði fjarskiptatækninnar eru nú afar örar. Við verðum vör við þessa þróun í daglegum störfum okkar, jafnt sem á heimilum okkar. Á upplýsingaöld gegna fjarskiptavirki verulega stóru hlutverki. Upplýsingum er dreift um gagnaflutningsnet og minni ég í því sambandi á almenna gagnaflutningsnetið sem Póst- og símamálastofnun tók í notkun í byrjun síðasta árs. Varðandi þessa öru þróun nægir að líta til þeirrar fjölmiðlabyltingar sem nú gengur yfir þjóðina og enginn sér fyrir endann á.

Í öðru lagi nefni ég að þetta frv. er á margan hátt stefnumarkandi og er að mörgu leyti barn síns tíma. Með því er stigið stórt skref í frjálsræðisátt. Innflutningur og sala á hvers konar fjarskiptabúnaði verður gefinn frjáls ef þetta frv. verður að lögum og ráðherra, sem með fjarskiptamál fer, fær í hendur rúmar heimildir til að veita innlendum aðilum leyfi til að eiga og reka hvers konar fjarskiptavirki þrátt fyrir einkarétt ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.