29.10.1986
Neðri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

86. mál, stjórn fiskveiða

Flm. (Karvel Pálmason):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að heyra í hv. þm. Halldóri Blöndal aftur hér í þingsölum. Það hefur lítið heyrst til hans undanfarið. En spurningin er: Hvert er málið? Ég veit ekki betur - það verður þá leiðrétt ef ég fer með rangt mál - ég veit ekki betur en það sé nákvæmlega rétt það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var að segja hér áðan, að hv. þm. Halldór Blöndal hefur gert þá hluti sem hann er að ætla öðrum, að svipta ákveðin sjávarpláss afla vegna kvótakerfisins. Það er ekkert í þessu frv. sem segir að svipta eigi Akureyri eða einhverja byggð á Norðurlandi afla. Það er ekki stafur um það. Þetta frv. er fyrst og fremst um það að auka þátt þeirra byggðarlaga sem hafa átt og eiga í erfiðleikum vegna kvótamálsins. Svo koma hér upp menn eins og hv. þm. Halldór Blöndal og fullyrða með rangfærslum að hér sé verið að leggja til að minnka eða leggja niður útgerð á þessum eða hinum staðnum.

Hitt er svo annað mál, þegar við komum að skipainnflutningnum, það er alltaf verið að spyrja mig um stefnu formanns Alþfl. Það er eins og maður sé hér í vitnastúku til þess að svara fyrir formann síns flokks. Ég tek því mjög vel að til slíkra hluta sé ætlast af mér. Það er ekkert lítið á mann lagt og ekki til lítils ætlast. Og ég þakka traustið. Ég þakka traustið. Það er til máltæki, ef ég man rétt, sem er svona: Nauðsyn brýtur lög. Það er ekkert sem segir að endalaust eigi að halda sér við þá stefnu að í skipastólnum megi ekki fjölga. Það er ekkert sem segir það. Í því efni sem og mörgum öðrum geta aðstæður ráðið. Tímabíl geta ráðið því að það þurfi að gera slíkt.

En ég veit ekki af hverju menn eru að spyrja um þetta hér. Í þessu frv. er ekkert verið að ræða um innflutning á skipum eða stækkun skipastólsins. Menn eru hér að draga inn í umræðurnar allt annað en frv. gerir ráð fyrir. Ég ætti alveg eins að ganga hér í skrokk á einstaka hv. þm. með spurningum um afstöðu þessa eða hins í þeirra hópi. (Sjútvrh.: Formanns flokksins.) Á hæstv. sjútvrh. við formann Framsfl.? Við vitum nú um stefnu hans í þessum efnum, bæði með og á móti. Um hana þarf ekki að spyrja. Við vitum að vísu ekki eins gjörla um stefnu hæstv. fjmrh., formanns Sjálfstfl. En það væri kannske ástæða til þess að spyrja hv. þm. Halldór Blöndal um hana.

Ég ítreka það hér og vísa því algerlega á bug að í þessu frv. sé verið að tala um það að svipta staði möguleikum til sjávarútvegs eða útgerðar. Hér er einvörðungu verið að tala um að skilað sé aftur til þeirra staða því sem búið er að taka af þeim og því sem þeir hafa fyrst og fremst byggt sína lífsafkomu á og koma til með að gera, í náinni framtíð a.m.k. Aðrir hafa möguleika til annarra hluta og það á líka að nota þá.