30.10.1986
Sameinað þing: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

1. mál, fjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1987 sem lagt hefur verið fram á þskj. 1. Frv. fylgja að venju nokkur önnur frv. sem ætlað er að hafa áhrif bæði á tekjur og gjöld ríkissjóðs og mæla fyrir um lántökur.

Horfur í þjóðmálum eru í flestu tilliti bjartar um þessar mundir. Það hefur árað vel til lands og sjávar. Aflabrögð hafa yfirleitt verið góð og verð á erlendum mörkuðum farið hækkandi. Áföll á mörkuðum fyrir saltsíld og mjöl draga á hinn bóginn nokkuð úr ábatanum. Við slíkum óvæntum skakkaföllum þarf að sjálfsögðu að bregðast.

Afkoma í landbúnaði hefur á árinu sem er að líða verið með viðunandi hætti þó svo stjórnvöld og samtök bænda þurfi sameiginlega að takast á við offramleiðslu í þeirri atvinnugrein. Í því efni hefur verið reynt að varða veginn með nýrri löggjöf þannig að eðlilegt svigrúm gefist til aðlögunar að nýjum aðstæðum.

Afkoma iðnaðarins hefur í flestum greinum verið fremur hagstæð, en eins og ávallt ráða markaðsaðstæður erlendis miklu um afkomu útflutningsgreina. Þannig hafa Evrópumarkaðir verið mörgum útflytjendum mjög hagstæðir vegna gengisskráningar Evrópumynta meðan Ameríkumarkaðurinn hefur reynst erfiðari.

Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1987 eru allar líkur taldar á því að þjóðin njóti áframhaldandi hagvaxtar. Verði ekki stórfelldar breytingar á útflutningsmörkuðum okkar, haldist olíuverð lágt eins og undanfarið og haldi landsmenn skynsamlega á eigin málum ættu allar forsendur að vera okkur í hag. Nú er spáð 2,2% hagvexti fyrir árið 1987 á eftir 5% vexti 1986 og 3,1% vexti 1985. Landsmenn eru því að ná sér upp úr þeim öldudal sem efnahagurinn féll í árunum 1982-1983.

Skipting þjóðartekna er sígilt og viðvarandi úrlausnarefni á vettvangi stjórnmála. Því verður ekki á móti mælt að bæði einkaneysla og opinber neysla hafa vaxið talsvert á þessu ári. Þetta eru ekki óeðlileg viðbrögð eftir þrengingar undangenginna ára. Í þessu sambandi verða menn þó að gæta að því að draga ekki svo úr fjárfestingu í því skyni að örva neyslu að grundvellinum sé kippt undan verðmætasköpun komandi ára.

Talið er að einkaneysla aukist um 5% árið 1986 eftir 5% aukningu á síðasta ári. Samsvarandi hlutfallstölur sýna 3% hækkun samneyslu árið 1986 eftir 4,5% aukningu 1985.

Samkvæmt fyrirliggjandi þjóðhagsáætlun fyrir árið 1987 eru nú taldar líkur til þess að hagvöxtur geti orðið rúmlega 2% á því ári. Þessar tölur sýna að við getum áfram notið þess góðæris sem við nú búum við. Á hinn bóginn er ljóst að hagvöxturinn verður minni á næsta ári en á þessu og því síðasta. Óhjákvæmilegt er að stilla útgjaldaáformum þjóðarbúsins í hóf í samræmi við þessar aðstæður. Þetta á við um ríkið sjálft jafnt sem einstaklinga og atvinnufyrirtæki.

Ríkisstjórnin setti sér það pólitíska markmið í vor sem leið að minnka fjárlagahallann um því sem næst þriðjung. Það hefði verið bæði óraunhæft og óskynsamlegt að stíga í einu stærra skref að því marki að ná jöfnuði. Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir því að með þessu móti megi því sem næst ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd á næsta ári.

Óhjákvæmilegt var að standa gegn og hafna miklu af útgjaldaáformum einstakra ráðuneyta. Í meðferð Fjárlaga- og hagsýslustofnunar voru útgjaldatillögur ráðuneytanna þannig lækkaðar um meira en 5 milljarða kr.

Frá því á árinu 1983 hefur þróun í umsvifum opinberra aðila verið sú að samneysla og opinber fjárfesting hefur vaxið hægar en landsframleiðslan og hefur því stærri hluti af vexti hennar runnið til borgaranna og kemur fram í mikilli aukningu einkaneyslu á þessu tímabili.

Frá árinu 1983 til ársins í ár hefur verg landsframleiðsla vaxið um tæp 12%. Á sama tíma óx samneysla um 7,7%, opinber fjárfesting dróst saman um tæp 20%, en einkaneysla óx um 13,6%. Afkomustærðir ríkissjóðs árið 1986 og fjárlagatölur fyrir árið 1987 eru í samræmi við þessa þróun.

Talið er að verg landsframleiðsla muni vaxa um 29,5% milli áranna 1985 og 1986 miðað við verðlag hvors árs. Tekjur ríkissjóðs milli sömu ára munu, eftir því sem nú er áætlað, vaxa um 28,7% eða nokkru minna en landsframleiðslan og gjöld ríkissjóðs munu vaxa um 28% sem er enn nokkru lægra.

Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1987 er gert ráð fyrir að verg landsframleiðsla vaxi í krónum talið um 7,8% miðað við verðlag í árslok 1986, en miðað við sama tíma er í frv. til fjárlaga gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins vaxi um 1,6%, en tekjur þess um 8,1%.

Í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að draga úr halla ríkissjóðs í áföngum er vöxtur útgjalda áætlaður 2% minni en vöxtur tekna og er útgjaldavöxturinn minni en áætluð aukning landsframleiðslu. Við mat á hækkun útgjalda hjá ríkinu ber að hafa í huga að stærsti hluti útgjalda þess eru laun eða gjöld tengd launum svo sem framlög vegna tryggingamála og annars.

Síðustu tvö ár hefur kaupmáttur launa farið vaxandi og er nú hærri en áður hefur þekkst. Laun hafa þannig hækkað umfram almennar verðlagsbreytingar. Áhrif þessa á útgjöld ríkissjóðs eru augljóslega þau að miðað við sama umfang og umsvif vaxa þau hraðar en almennt verðlag og nær því sem svarar til launabreytinga á milli ára. Þessi staðreynd skýrir m.a. að hluta aukinn halla ríkissjóðs á þessu ári umfram það sem áætlað var við setningu laga nr. 3 1986 og miðað var við þegar kjarasamningar voru gerðir í byrjun ársins.

Launahækkanir eftir kjarasamninga hafa reynst meiri en í upphafi var áætlað. Leiddi það til þess að útgjöld ríkissjóðs hækkuðu til muna meir en ætlað hafði verið, auk þess sem gerðar voru viðbótarráðstafanir til að tryggja verðlagsmarkmið kjarasamninganna með niðurgreiðslu á áburðarverði og búvörum. Ríkisstjórnin taldi sig fremur bundna við verðlagsmarkmið kjarasamninganna en þær fjárhæðir sem um var samið við aðila vinnumarkaðarins í þeim tilgangi að halda niðri verðlagi.

Áhrif kjarasamninganna í ársbyrjun og aðgerða tengdra þeim á tekjur ríkissjóðs á árinu 1986 urðu einnig nokkuð aðrar en ætlað hafði verið. Tekjur ætta að reynast verulega meiri en spáð var þó ekki muni það eins miklu og í gjöldunum.

Tekjur ríkissjóðs eru að miklu leyti tengdar veltustærðum í efnahagslífinu. Eins og að framan greinir urðu launabreytingar á árinu meiri en í upphafi var ætlað. Kaupmáttur hefur vaxið og neyslan hefur aukist. Kemur það m.a. fram í aukinni veltu sem skilað hefur ríkissjóði auknum tekjum þó ekki nægi þær til að jafna að fullu þann útgjaldaauka sem rekja má til kjarasamninganna. Enn fremur hefur komið í ljós að við ákvörðun á álagningarkerfi beinna skatta á s.l. vetri var reiknað með lægri atvinnutekjum á árinu 1985 en reyndin varð og voru tekjur ríkissjóðs af þeim því vanmetnar.

Halli ríkissjóðs á þessu ári er að mestu leyti bein afleiðing af aðgerðum ríkisins vegna kjarasamninganna á s.l. vetri. Til viðbótar við fyrirsjáanlegan halla sem ákveðinn var bættist ófyrirséð útgjaldahækkun sem að stærstum hluta til má rekja til meiri launabólgu en gert var ráð fyrir í kjarasamningunum, en bróðurpartur útgjaldanna er svo sem rakið hefur verið beint tengdur launum. Eftir stendur halli fyrst og fremst vegna kjarasamninganna og viðbótarákvarðana sem þeim eru tengdar.

Þessar sömu ástæður eiga þátt í þeim halla sem áætlaður er á árinu 1987. Annars vegar er þar um að ræða varanlega lækkun ríkistekna vegna niðurfellingar aðflutningsgjalda og launaskatts og hins vegar útgjaldaauka, svo sem vegna greiðslu úr ríkissjóði á ígildi verðjöfnunargjalds á rafmagn, með yfirtöku á hluta afborgana og vaxta af skuldum orkufyrirtækja og vegna þess að ríkisútgjöld hækka vegna launatengsla meira en almennt verðlag.

Allar horfur eru taldar á því að ríkisútgjöld árið 1986 verði um 39,2 milljarðar kr., en það er um 6,4% hærri niðurstaða en fjárlög, sbr. lög nr. 3 1986, gerðu ráð fyrir. Jafnframt er talið að tekjur ríkissjóðs geti numið um 37 milljörðum, en það er um 4,7% hærri fjárhæð en í fjárlögum eins og þau voru afgreidd með breytingum í febrúar 1986. Rekstrarafkoma A-hluta ríkissjóðs verður því um 700 millj. kr. verri en að var stefnt. Þetta á sér ýmsar skýringar sem nú skulu tilgreindar.

Tekjur hækka um tæpar 1660 millj., þar af beinir skattar um 850 millj. kr., en álagning og þar með innheimta beinna skatta á árinu er áætluð hærri en áður var talið. Skýrist þetta fyrst og fremst af meiri hækkun atvinnutekna milli áranna 1984 og 1985 en reiknað var með. Að öðru leyti skýrist hækkun tekna ríkissjóðs aðallega af nokkru meiri tekjum af óbeinum sköttum. Verður þessi hækkun fyrst og fremst rakin til meiri veltu og viðskipta en ætlað hafði verið.

Á hinn bóginn skýrist verri afkoma ríkissjóðs af breytingu á gjaldahlið. Útgjöld eru alls talin hækka um tæpar 2350 millj. kr. Þyngst í þessari hækkun vega hærri launagreiðslur vegna áhrifa sérkjarasamninga og niðurstöðu kjaradóms. Alls er talið að launaútgjöld aukist um 640 millj. kr. umfram fjárlög. Þá hækka bætur lífeyristrygginga og útgjöld vegna sjúkratrygginga af sömu ástæðu um 500 millj. kr.

Á fyrri hluta árs var ákveðið að greiða niður áburðarverð til bænda og var það liður í því að draga úr verðhækkun á búvörum. Útgjöld vegna þess námu um 170 millj. kr. Þá er að nefna að veitt var aukaframlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna að fjárhæð 258 millj. kr. og útsala á kindakjöti í ágúst og september leiddi til 81 millj. kr. aukaútgjalda.

Litlar breytingar eru taldar verða á lánahreyfingum ríkissjóðs frá því sem ætlað var skv. lögum nr. 3 1986. Veitt lán hækka um 44 millj. og er það vegna þess að ríkissjóður annast lántökur erlendis og endurlánar nokkrum aðilum utan A- og B-hluta ríkissjóðs. Ekki var miðað við slík lánaumsvif í fyrri áætlun.

Fjáröflun innanlands var áætluð 3575 millj. kr. Þar af var ráðgert að afla 2100 millj. kr. með sölu spariskírteina, 850 millj. kr. með verðbréfakaupum bankakerfisins og 625 millj. með skuldabréfakaupum lífeyrissjóða. Innlausn spariskírteina var áætluð 1720 millj. kr. og var því nettó fjáröflun með þessum hætti áætluð 380 millj. kr. á árinu 1986.

Þrátt fyrir lækkun vaxta innanlands og harða samkeppni um sparifé hefur sala spariskírteina numið 1977 millj. kr. í lok september og er það 576 millj. kr. umfram innlausn á sama tímabili. Nú hefur sölu nýrra skírteina á innlendum markaði verið hætt um tíma og geta aðeins þeir sem eiga innleysanleg skírteini skipt á nýjum bréfum á móti. Þá hafa verðbréfakaup lífeyrissjóða og bankakerfis haldist nokkurn veginn í takt við áætluð kaup þeirra á árinu. Að svo stöddu þykir því ekki ástæða til að endurskoða tölur fyrir innlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs á árinu 1986.

Áformað er að leita til Seðlabanka Íslands um fjármögnun á greiðsluhalla ríkissjóðs. Jafnframt er í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1987 leitað heimildar til langtímalántöku í þessu skyni. Lánsfjármál ríkissjóðs 1986 og 1987 hafa að öðru leyti verið skýrð sérstaklega í framsöguræðu fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1987.

Tekjuáætlun fjárlagafrv. er í öllum aðalatriðum byggð á því tekjuöflunarkerfi ríkisins sem verið hefur við lýði undanfarin ár. Langstærstur hluti ríkisteknanna, 31,3 milljarðar kr. eða rúm 78%, mun koma með óbeinum sköttum. Þar af er sölugjald um helmingur eða um 39% allra ríkistekna. Beinir skattar verða tæp 15% og arðgreiðslur og aðrar tekjur 7%.

Breytingar á óbeinum sköttum aðrar en verðlagsbreytingar frá því sem var áætlað í fjárlögum fyrir 1986 stafa af þátttöku ríkissjóðs í lausn kjarasamninga í upphafi árs 1986. Leiddi hún til verulegrar rýrnunar á tekjustofnum þessum á árinu 1986 og hefur hliðstæð áhrif á tekjuáætlunina fyrir 1987.

Eina breyting tekjuöflunar á þessu sviði sem fyrirhuguð er og tekjuáætlunin tekur mið af er álagning skatts á innflutt eldsneyti sem ætlað er að gefa um 600 millj. kr. á næsta ári. Þrátt fyrir verðhækkun af völdum þessarar skattlagningar verður verð á olíuvörum verulega lægra en við var miðað við gerð efnahagsráðstafana í tengslum við kjarasamninga í ársbyrjun.

Verðlækkun á bensíni á þessu ári hefur valdið ríkissjóði miklum tekjumissi, mun meiri en áætlað var í upphafi árs, og mun skatturinn aðeins jafna þann tekjumissi ríkissjóðs.

Áætlun fjárlagafrv. um beina skatta er miðuð við að skattbyrði lækki um 300 millj. kr. frá því sem hún er á árinu 1986. Tekjuáætlun af beinum sköttum einstaklinga í fjárlagafrv. er að svo stöddu miðuð við tekjustig í árslok 1986 og að tekjur 1987 að meðtalinni áætlaðri fjölgun framteljenda verði þá um 11,5% hærri en meðaltal ársins 1986.

Til að ná settu marki um tekjuöflun með beinum sköttum verður innan tíðar lagt fram frv. til l. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt. Auk þess að taka mið af áorðnum breytingum launa milli 1985 og 1986 og til ársloka 1986 verður í því frv. gert ráð fyrir jafnvægi milli launabreytinga og verðlagsþróunar á árinu 1987 og framangreindri lækkun tekjuskatts.

Megindrættir væntanlegs frv. eru þeir að lækka skatthlutfall í öllum þrepum skattstigans, að hækka þrep skattstigans og að hækka persónuafslátt og barnabætur. Áhrif þessara breytinga verða þau að skattbyrði lækkar, jaðarskattur lækkar og skattleysismörk hækka. Miðað við að tekjustig breytist lítið frá því sem það verður í árslok 1986 verður unnt að lækka skatthlutföll úr 19,5%, 30,5% og 43,5% í 18, 28,5 og 38,5% og hækka neðra skattþrepið úr 272 þús. kr. í u.þ.b. 400 þús. kr. og efra þrepið úr 544 þús. kr. í u.þ.b. 800 þús. kr. Þetta ásamt hækkun persónufrádráttar og barnabóta um 20%, sem er nokkuð umfram áætlaðar launabreytingar milli 1986 og 1987, mun lækka skattbyrði af beinum sköttum til ríkisins úr u.þ.b. 4,9% í 4,6%, lækka jaðarskatta þannig að þeir yrðu mest um 47% að meðtöldu útsvari og sjúkratryggingagjaldi í stað tæpra 52% eins og nú er.

Skattleysismörk munu og hækka verulega. Má gera ráð fyrir að hjón með tvö börn og 70-80 þús. kr. á mánuði á árinu 1986 verði yfirleitt tekjuskattslaus á árinu 1987, en þau mörk eru þó háð tekjuskiptingu milli hjóna og einstökum frádráttarliðum. Enn fremur hefur útsvarsálagning, eignarskattur og reglur um nýtingu persónuafsláttar áhrif á skattleysismörk í heild.

Auk þeirra lagafrv. sem getið hefur verið, þ.e. um skatt af innfluttu eldsneyti og um tekjuskatt, hefur verið lagt fram frv. um framhald álagningar á grundvelli tímabundinna tekjustofna sem tekjuáætlun fjárlagafrv. miðast við. Er þar um að ræða tímabundið vörugjald, jöfnunargjald á hús og húshluta, skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og sérstaka fjáröflun til húsnæðismála.

Tekjuáætlun fjárlagafrv. er byggð á gildandi lögum um tekjur ríkissjóðs með þeim breytingum sem lýst hefur verið. Engu að síður er stefnt að umfangsmiklum breytingum á nær allri löggjöf um tekjur ríkissjóðs og gert ráð fyrir að hluti þeirra breytinga komi til framkvæmda á árinu 1987.

Í fyrsta lagi er stefnt að því að fá á yfirstandandi þingi afgreidd ný lög um tolla og tollskrá, svo og lög um vörugjald. Gert er ráð fyrir að lög þessi komi til framkvæmda á næsta ári. Við það er miðað að þessi nýskipan skili óbreyttum heildartekjum frá því sem nú er.

Í öðru lagi er stefnt að því að leggja fram frv. til laga um virðisaukaskatt. Er undirbúningi frv. að mestu lokið. Miðað verður við að þau lög gangi í gildi 1. janúar 1988 og lög um söluskatt falli úr gildi frá og með sama tíma.

Í þriðja lagi er hafinn undirbúningur að grundvallarendurskoðun laga um tekju- og eignarskatt þar sem stefnt verður að einföldun þess kerfis með fækkun skattþrepa og frávika, svo og ýmsum öðrum breytingum.

Í fjórða lagi er stefnt að flutningi frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Gjöld ríkissjóðs eru áætluð 41,6 milljarðar kr. á árinu 1987. Þetta er um 6,1% hærri fjárhæð en áætluð útkoma á árinu 1986. Vegna tilfærslu 13 sjúkrahúsa af svokölluðu daggjaldakerfi yfir á föst framlög úr ríkissjóði er samanburður einstakra gjaldategunda í frv. við áættaða útkomu þessa árs villandi eins og nánar er fjallað um í grg. með frv.

Til launa og reksturs ríkisstofnana að fráteknum sérstökum sértekjum stofnana er áformað að verja um 43% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Um 36% er varið í ýmiss konar neyslu og rekstrartilfærslur og um 12% renna til fjárfestingar. Afgangurinn, eða um 8,3%, fer til vaxtagreiðslna.

Skv. frv. fer hlutfall vaxtagreiðslna lækkandi, en það er áætlað 9,4% í ár. Eigi að síður er áhyggjuefni hversu stórum hluta ríkisútgjalda er varið til vaxtagreiðslna. Öllum má vera ljóst að slík þróun hlýtur að koma niður á fjárveitingum til ýmissa mikilvægra verkefna.

Ég ætla ekki að fjalla um útgjaldahlið frv. í mörgum orðum, enda eru henni gerð góð skil í grg. frv. Þó eru nokkur atriði sem ég vil beina athygli þm. að.

Á sviði mennta- og menningarmála má nefna aukningu á framlagi til byggingar grunnskóla úr 115 millj. kr. í fjárlögum 1986 í 185 millj. Um allt land eru skólar í byggingu og með þessari hækkun fjárveitingar standa vonir til að ljúka megi nokkrum byggingum og hnika öðrum áleiðis. Öflugir og góðir skólar um landið allt eru einn mikilvægasti þátturinn í því að skapa jafnvægi í byggð landsins.

Framlag til Kvikmyndasjóðs er aukið úr 16 millj. 1986 í 55 millj. Kvikmyndin er vaxandi listgrein og óumdeilt er að íslenskt myndmál verður snar þáttur í vexti og viðgangi íslenskrar menningar.

Framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs ísl. námsmanna er 865 millj., en jafnframt er sjóðnum veitt heimild til 750 millj. kr. lántöku. Ráðstöfunarfé sjóðsins verður þá alls 1615 millj. kr. sem er svipað og á árinu 1986. Nefnd skipuð fulltrúum stjórnarflokkanna hefur mótað tillögur um breytingar á lögum um sjóðinn, en ekki er að fullu ljóst hver áhrif þeirra verða á fjárþörf sjóðsins.

Á sviði utanríkismála ber hæst fjárveitingu til skrifstofu fastanefndar Íslands hjá Evrópubandalaginu svo unnt sé að efla tengslin við þennan mikilvæga útflutningsmarkað okkar. Þá má einnig nefna stöður öryggisvarða í flugstöðinni í Keflavík, en ríkisstjórninni er það kappsmál að tryggja sem best öryggi allra þeirra fjölmörgu Íslendinga og útlendinga sem um flugstöðina fara.

Á sviði sjávarútvegsmála er áætlað að verja um 700 millj. kr. til endurgreiðslu á söluskatti í sjávarútvegi, en sambærileg fjárhæð í fjárlögum 1986 er 600 millj. kr. Þá er ráðgert að draga verulega úr starfsemi Ríkismats sjávarafurða með því að færa ferskfiskmat til atvinnugreinarinnar sjálfrar. Er þetta liður í stefnu ríkisstjórnarinnar að flytja verkefni frá ríkinu til einstaklinga og samtaka þeirra eftir því sem kostur er.

Á sviði iðnaðar og orkumála vil ég geta þess að fjárveiting til greiðslu olíustyrkja fellur niður, enda hefur þegar verið ákveðið að hætta greiðslu þessara styrkja á síðasta ársfjórðungi þessa árs vegna lækkana á verði olíu. Þá er framlag til niðurgreiðslu á raforku lækkað úr 220 millj. í fjárlögum 1986 í 145 millj. kr.

Þegar hefur verið minnst á hækkun fjárveitingar til byggingar grunnskóla, en ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að auka framlag til fleiri framkvæmdaflokka. Þannig er ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra aukið úr 76 millj. kr. í fjárlögum 1986 í 100 millj. kr., fjárveiting til hafnargerðar hækkar úr 74 millj. í 160 millj. kr. og fjárveiting til byggingar sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva hækkar úr 82 millj. kr. í 120 millj. kr.

Til húsbyggingarsjóðanna renna 1300 millj., en 1600 millj. kr. í fjárlögum 1986. Fjárveiting á árinu 1987 er í samræmi við reikninga sem fram komu í áliti nefndar sem samdi frv. til laga um breytingu á lögum um sjóðina í kjólfar kjarasamninganna í febrúar s.l. Fjármögnun húsnæðiskerfisins hefur verið breytt á þá lund að vægi ríkisframlagsins hefur minnkað, en á móti hefur sjóðunum verið tryggt stóraukið fjármagn úr lífeyrissjóðum landsmanna.

Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að lántökur ríkissjóðs á árinu 1987 nemi 4850 millj. kr. og þar af verði innlend lán 3150 millj., en erlend 1700 millj. kr. Af þessu lánsfé er gert ráð fyrir að 1370 millj. renni til B-hluta ríkissjóðs og rennur það fé að langmestu leyti til Lánasjóðs ísl. námsmanna og byggingar flugstöðvar í Keflavík sem ljúka mun á næsta ári.

Markverðast við lánsfjárfyrirætlanir næsta árs er það að í fyrsta sinn um langan tíma munu opinberir aðilar grynnka á erlendum skuldum. Meira verður endurgreitt af erlendum lánum en sem nemur nýjum lánum erlendis frá. Þannig verða tekin erlend lán að fjárhæð 2550 millj. kr., en afborganir eldri lána nema 2930 millj.

Það er vissulega mikilsverður áfangi að erlendri skuldasöfnun opinberra aðila skuli þar með hætt og í staðinn byrjað að vinda ofan af þeim skuldum sem safnað hefur verið mörg undangengin ár.

Það blasir nú við, nái þessar áætlanir fram að ganga, að heildarskuldir þjóðarinnar sem hlutfall af landsframleiðslu muni á næsta ári fara niður fyrir 50%, en þetta hlutfall var hæst í fyrra og náði þá rúmum 55%. Greiðslubyrði af erlendum lánum fer og lækkandi með lækkandi vöxtum erlendis og hagstæðari dreifingu hinna erlendu lána.

Heildarlántökur þjóðarbúsins í ár eru áætlaðar rúmlega 10 milljarðar kr., en verða skv. lánsfjáráætlun fyrir næsta ár tæplega 8,3 milljarðar. Þessar lántökur eru í fullu samræmi við það markmið ríkisstjórnarinnar að halli í viðskiptum við útlönd á næsta ári verði lítill sem enginn.

Í fjárlagafrv. er að vanda gert ráð fyrir skerðingu á framlögum til ýmissa þátta og er leitað heimilda til slíkra skerðinga í frv. til lánsfjárlaga þar sem þess gerist þörf. Stærsta atriðið í þessu sambandi er skerðing á hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í tekjum af söluskatti, en gert er ráð fyrir að þær tekjur sem ríkissjóður fær með þessum hætti umfram skerðingu síðasta árs renni til að kosta akstur skólabarna. Um þennan lið er það að segja að þessi háttur mun aðeins hafður á þar til komin er skýr niðurstaða varðandi framtíðarskipan á þessum kostnaði sem langeðlilegast er að sveitarfélögin sjálf standi undir eftir megni. Mjög brýnt er nú orðið að komast að niðurstöðu um þetta mál og fleira í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en í fjárlagafrv. er nú m.a. gert ráð fyrir helmingun á framlagi til dagvistunarmála, en fjármögnun þeirra framkvæmda er að flestra dómi mun betur komin hjá sveitarfélögunum sjálfum. Er vonast til að þau geti alveg tekið þennan þátt að sér frá og með árinu 1988.

Í byrjun yfirstandandi árs voru gerðir kjarasamningar sem markað hafa tímamót í samningagerð hér á landi. Samningar þessir urðu að veruleika með einstæðri samvinnu aðila vinnumarkaðarins annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Þeir eru rökrétt framhald og afleiðing þeirrar stefnu í kjaramálum sem ríkisstjórnin mótaði við upphaf ferils síns. Með afnámi vísitölubindingar launa og ákvörðun um að draga úr erlendri skuldasöfnun og að framfylgja stöðugleikastefnu í gengismálum var aðilum vinnumarkaðarins ljóst að ekki þýddi að semja um annað kaup en það sem atvinnuvegirnir væru færir um að borga og að neyslu hér á landi yrði að sníða stakk eftir framleiðslugetu þjóðarbúsins. Árangur þessarar stefnu kom strax í ljós á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar, en birtist þó greinilegast í kjarasamningum yfirstandandi árs þegar samningsaðilar ásamt ríkisvaldinu tóku höndum saman um að leita leiða til raunverulegra lífskjarabóta um leið og styrktur yrði grundvöllur efnahagslífsins. Ríkissjóður tók að sér að standa undir hluta af kaupmáttaraukningunni með margþættum ráðstöfunum.

Frá janúar til október á þessu ári hefur vísitala framfærslukostnaðar hækkað um rétt 7%. Á sama tíma hafa meðallaun ríkisstarfsmanna í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja hækkað um 18,6%, um 21,8% hjá háskólamönnum og um 28% hjá kennurum í Bandalagi kennarafélaga. Kaupmáttur launa hjá ríkisstarfsmönnum hefur stórvaxið á þessu ári og er yfir 10% hærri í ár en hann var á síðasta ári hjá félögum í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Bandalagi háskólamanna og yfir 13% hærri hjá Bandalagi kennarafélaga. Öll teikn benda til þess að á almennum vinnumarkaði hafi laun þróast með svipuðum hætti og hjá ríkinu, en tölur um það efni liggja eigi fyrir enn sem komið er.

Kaupmáttur launa er orðinn hærri en hann hefur áður verið. Það er eftirtektarvert að þessi mikli árangur hefur náðst án vísitölubindingar launa og sú staðreynd blasir við að síðan sú binding var afnumin hefur stöðugleiki og vöxtur kaupmáttar verið meiri en í annan tíma. Hin mikla hækkun launa ríkisstarfsmanna á þessu ári hefur til viðbótar við önnur áhrif kjarasamninga og aðgerða er þeim tengdust haft mjög mikil áhrif á afkomu ríkissjóðs svo sem þegar hefur verið rakið.

Hækkun launakostnaðar hjá ríkisstofnunum leggst nokkuð jafnt á þær þar sem ekki var verulegur mismunur á launahækkunum til einstakra starfshópa. Þau frávik eru þó í þessu efni að kennarar, heilbrigðisstéttir og löggæslustéttir hækkuðu að þessu sinni nokkuð umfram aðra hópa. Kennarar í Kennarasambandi Íslands fengu í upphafi ársins sérstaka hækkun vegna aðlögunar að þeim launum sem starfsbræðrum þeirra höfðu verið dæmd af kjaradómi á árinu 1985. Þeir fengu sem og aðrir kennarar einnig nokkru meiri hækkun í samningum þessa árs en aðrar hliðstæðar stéttir.

Laun hjúkrunarfræðinga innan BSRB hækkuðu einnig meira en almennt var af sömu ástæðum og hjá kennurum. Sú hækkun leiddi m.a. til þess að aðrar heilbrigðisstéttir fengu í sinn hlut nokkru meiri launahækkun en almennt gerðist hjá öðrum starfshópum.

Samningar við löggæslustéttir voru og frábrugðnir öðrum samningum. Þeir fólu í sér meiri launahækkanir, en tóku jafnframt til atriða er varða skipulag og réttarstöðu. Af framangreindum ástæðum leggjast launahækkanir ríkisstarfsmanna þyngra á menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir og löggæslustofnanir en aðrar stofnanir ríkisins.

Einn veigamikill þáttur í kjarasáttmála þeim sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins gerðu með sér í byrjun þessa árs var að leitað yrði leiða til úrlausnar á greiðsluvanda húsbyggjenda og jafnframt að finna varanlega lausn á fjármögnun húsnæðislánakerfisins. Til lausnar á fjárhagsvanda þeirra húsbyggjenda sem byggðu eða keyptu húsnæði á árunum 1980 og síðar var ákveðið að ríkissjóður veitti viðbótarframlag á þessu ári er næmi 300 millj. kr. til viðbótar þeim 200 millj. sem ráð var fyrir gert í lánsfjárlögum.

Til þess að finna lausn til nokkurrar framtíðar á fjármögnun húsnæðiskerfisins var lögum um Byggingarsjóð ríkisins breytt þannig að lánveitingar úr sjóðnum yrðu bundnar því að lífeyrissjóður umsækjanda hefði gert samkomulag við Byggingarsjóð ríkisins um skuldabréfakaup. Fjmrn. hefur haft forustu af hálfu ríkisvaldsins um samninga við lífeyrissjóðina um skuldabréfakaup þeirra af Byggingarsjóði ríkisins. Með þeim samningum er búið að tryggja fjármögnun húsnæðiskerfisins eins og lög um Húsnæðisstofnun ríkisins gera ráð fyrir.

Samningar þeir sem gerðir hafa verið ná til loka ársins 1988. Í þeim eru tvö veigamikil atriði. Hið fyrra er að lífeyrissjóðirnir hafa lengt lánstímann verulega frá því sem verið hefur. Hið síðara að vextir af lánum lífeyrissjóðanna eru innan þeirra marka sem nauðsynleg voru talin ef ekki ætti að sliga hið nýja lánskerfi Húsnæðisstofnunarinnar strax í upphafi.

Í fjárlagafrv. fyrir árið 1987 er gert ráð fyrir framlagi ríkissjóðs sem nemur 1 milljarði kr. og er það 300 millj. kr. lægri fjárhæð en sjóðurinn fær í ár. Þegar þessar fjárhæðir eru bornar saman er rétt að hafa eftirfarandi í huga.

1. Með hinni nýju löggjöf var verið að breyta fjáröflun húsnæðislánakerfisins á þann veg að lífeyrissjóðirnir í landinu legðu fram stærri hluta af lánveitingu en verið hefur. Þannig er gert ráð fyrir að fjármagn frá lífeyrissjóðunum aukist frá árinu 1986 um meira en 100%.

2. Ríkissjóðsframlaginu er fyrst og fremst ætlað að brúa mismun af lánskjörum inn- og útlána. Á árinu 1987 er áætlað af hálfu Húsnæðisstofnunar að mismunur afborgana og vaxta af teknum og veittum lánum nemi um 340 millj. kr. Þannig leggur ríkissjóður á árinu 1987 660 millj. kr. til að bæta stöðu Húsnæðisstofnunar ríkisins sem hún mun m.a. nýta til að auka útlán sín á næsta ári.

3. Þá verður bæði að hafa í huga hvað er skynsamlegt og mögulegt, þ.e. hvað þjóðarbúskapurinn getur lagt til þessa málaflokks á hverjum tíma. Áætlað er að lánveitingar íbúðarlánasjóða muni aukast um 25% á næsta ári, en sjálfar íbúðabyggingarnar um 10%. Óráðlegt væri að stuðla að meiri þenslu á byggingarmarkaðnum en hér er stefnt að.

Skv. lögum frá árinu 1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara, er kveðið svo á að ríkisvaldið leiti eftir samningum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Stéttarsamband bænda um magn mjólkur og sauðfjárafurða sem framleiðendum verður tryggt fullt verð fyrir á samningstímanum. Í lögunum er enn fremur m.a. kveðið á um að hluta af heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar, sem áður gekk til útflutningsuppbóta, sé varið til búháttabreytinga. Með því er áformað að framleiðsla hinna hefðbundnu búvara aðlagi sig að innanlandsneyslu eins og lögin gera ráð fyrir.

Þegar litið er til framleiðslumagns og neysluþróunar innanlands á þeim vörutegundum sem verðábyrgð ríkisins nær til er ljóst að enn er um umframframleiðslu í landinu að ræða. Þá er og ljóst að verð það sem fæst fyrir vöruna á erlendum mörkuðum er það lágt og hún er í svo mikilli samkeppni við offramleiðslu búvara í þeim löndum sem við höfum flutt út landbúnaðarvörur til að ekki er neinn fjárhagslegur grundvöllur fyrir þeim útflutningi. Því er mikilvægt að búháttabreyting í hefðbundnum landbúnaði komist á, þannig að þeir aðilar sem starfa við þessa atvinnugrein búi við sömu lífsafkomu og aðrar stéttir í landinu.

Á valdatíma þessarar ríkisstjórnar hefur í nokkrum mæli verið farið inn á þá braut að selja ríkisfyrirtæki og hlut ríkissjóðs í atvinnufyrirtækjum. Ekki er nokkur vafi á því að hér hefur verið farið inn á rétta braut, enda tæpast um það deilt í alvöru lengur að það er ekki í samræmi við heppilegustu verkaskiptingu ríkis og einkaaðila að ríkisvaldið sé að vasast í almennum atvinnurekstri og síst í beinni samkeppni við einkaaðila.

Á sínum tíma börðust afturhaldsöflin hér á Alþingi harkalega gegn því að ríkið seldi niðursuðuverksmiðjuna Siglósíld aðilum sem vildu hætta sínum eigin fjármunum í þeim rekstri og Landssmiðjuna sem starfsmenn hennar vildu kaupa. Þessu tókst þó að koma fram og óhætt er að fullyrða að það hafi verið mikið gæfuspor fyrir bæði þessi fyrirtæki, starfsmenn þeirra og viðskiptamenn, enda hafa þau blómstrað vel síðan.

Ríkið hefur einnig selt hlutabréfaeign sína í nokkrum hlutafélögum, eins og Iðnaðarbankanum, Flugleiðum og Eimskip, og hefur ekki annað komið fram um þau viðskipti en þau hafi verið til góðs. Þá hefur ríkið ásamt Framkvæmdasjóði selt meirihlutaeign sína í Norðurstjörnunni í Hafnarfirði og Umferðarmiðstöðin í Reykjavík hefur verið seld hagsmunaaðilum. Þá hefur verið unnið að því að losa ríkið undan viðvarandi skuldbindingum vegna Þörungavinnslunnar og graskögglaverksmiðjanna.

Hér hefur því vissulega verulegur árangur náðst. En áfram verður að halda á þessari braut því víða liggja fjármunir ríkissjóðs bundnir í starfsemi þar sem þeir þjóna ekki lengur upphaflegum tilgangi sínum og væru betur komnir í hinni eiginlegu ríkisstarfsemi. Ríkið á enn verulega hlutdeild í ýmsum atvinnurekstri, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, sem það ætti að losa sig við og gefa einkaaðilum færi á að spreyta sig á. Fullkomið álitaefni er hvort ríkið á að binda fé í raftækjaverksmiðju, útgerðarfyrirtæki og fiskvinnslu, skipasmíðastöð, graskögglaverksmiðjum og síldarbræðslum og svo mætti lengi telja. Smám saman þarf að færa þennan rekstur í hendur einkaaðila.

En stóra spurningin í þessu efni snýr hins vegar e.t.v. ekki að einstökum fyrirtækjum eins og þeim sem ég hef hér gert að umtalsefni heldur almennt að þeirri skiptingu verkefna milli ríkis og einkaaðila sem ég vék að í upphafi. Það má vel vera að við séum flest hver svo vanaföst að við getum ekki gert okkur í hugarlund hvernig ýmis starfsemi, sem við erum vön að ríkið sjái um, líti út í höndum einkaaðila. En það er hættulegt að festast í viðjum vanans í þessu efni og neita að horfast í augu við að breytingar eru stundum ekki bara heppilegar af hagkvæmnisástæðum heldur einnig oft gagnlegar út frá öðrum sjónarmiðum. Nýhafinn rekstur einkaútvarps- og sjónvarpsstöðva við hliðina á Ríkisútvarpinu er gott dæmi um jákvæðar breytingar sem fáir hefðu trúað fyrir nokkrum árum að verða mundu að veruleika svo snemma og sem mættu mikilli andstöðu afturhaldsaflanna hér á hinu háa Alþingi.

Aðild ríkissjóðs að atvinnurekstri hér á landi átti sér ýmsar og oft gildar sögulegar ástæður. Oft var hér um fyrirtæki að ræða sem einkaaðilum var á þeim tíma um megn að koma á fót og reka. Þá gat verið eðlilegt að ríkið hlypi undir bagga þegar um nauðsynlega starfsemi var að ræða. Nú hafa aðstæður aftur á móti gerbreyst þannig að einkaaðilar geta ráðið við langflest verkefni á sviði atvinnulífsins eins og dæmin sanna allt umhverfis okkur.

Reynslan af forgöngu ríkisins í atvinnurekstri virðist jafnframt hafa farið versnandi hin síðari ár. Má í því sambandi benda á hrikalegan hallarekstur saltverksmiðjunnar, þörungavinnslunnar og graskögglaverksmiðja og nú síðast steinullarverksmiðjunnar. Hitt er þó ekki síður mikilvægt að á sama tíma og einkaaðilum hefur vaxið fiskur um hrygg í atvinnumálum hafa stórvaxandi verkefni hlaðist á ríkissjóð, einkum á sviði félagsmála, heilbrigðismála og menntamála. Þess vegna tel ég rétt að ríkissjóður dragi sig út úr almennum atvinnurekstri þar sem það er hægt, en einbeiti kröftum sínum að þeim miklu verkefnum sem hann hefur tekist á hendur á öðrum sviðum. Í því felst að stöðvaður verði fjáraustur í taprekstur og losað fjármagn með sölu arðbærra ríkisfyrirtækja eða hluta ríkisins í fyrirtækjum.

Herra forseti. Ég hef kosið að draga fram í þessari ræðu þau atriði og þær meginlínur sem mestu máli skipta í ríkisbúskapnum og hugsanlega er pólitískur ágreiningur um. Fjárlög eru ekki einn saman talnabálkur. Þau eru miklu fremur umgjörð mannlífs og menningar í landinu, en umfram allt eru þau hluti af þjóðarbúskapnum og hafa að því leyti mikil áhrif á framvindu efnahagsmála. Það mikilvægasta við fjárlagafrv. er þetta:

Það skilar okkur verulega áleiðis að hallalausum ríkisrekstri þótt því marki verði ekki náð á næsta ári. Það tryggir jafnframt heldur minni þátt hins opinbera í þjóðarbúskapnum og veitir öðrum þar með meira svigrúm. Jafnframt markar það þau mikilsverðu þáttaskil að opinberir aðilar eru nú í fyrsta skipti í áraraðir að grynnka á erlendum skuldum. Þjóðhagsstofnun gerir einnig ráð fyrir að jöfnuður eða því sem næst geti náðst í viðskiptum við önnur lönd á næsta ári. Með minnkandi halla er þannig stefnt að áframhaldandi jafnvægi í efnahagsmálum.

Þetta frv. er ekki dæmigert fyrir fjárlagafrumvörp sem lögð eru fram á síðasta vetri fyrir kosningar. Í því eru engin ábyrgðarlaus yfirboð, hvorki útgjalda né teknamegin. Ég ætla að láta stjórnarandstöðunni eftir að mæla fyrir ábyrgðarleysi sínu. Það er létt verk en ekki að sama skapi merkilegt að æsa upp nýjar útgjaldakröfur og kalla á skattalækkanir sem ekki er möguleiki á að hrinda í framkvæmd við núverandi aðstæður. En stjórnmálamenn og ríkisstjórnir verða á endanum dæmd af verkum sínum. Þessi ríkisstjórn hefur á ferli sínum gætt aðhalds án þess að reiða öxina til höggs og þetta frv. endurspeglar þau sjónarmið.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjvn.