16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4250 í B-deild Alþingistíðinda. (3928)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta frv. voru felldar nokkrar brtt. sem þm. Alþfl. lögðu fram. M.a. voru felldar tillögur um að opna fyrir heimild til lánveitinga til kaupleiguíbúða. Ég harma að svo skuli fara að ekki skuli vera meiri hl. fyrir því hér á hv. Alþingi að opna fyrir lagaheimild til byggingar eða kaupa á kaupleiguíbúðum.

Ég minni á að það liggur fyrir og hefur komið fram í skýrslu á hv. Alþingi að á næstu 2-3 árum er þörf fyrir 2500-3000 félagslegar íbúðir. Ég minni á að eftirspurn eftir lánum úr Byggingarsjóði verkamanna er langt umfram þörf og ég minni einnig á að þeir sem verst eru settir geta ekki staðið undir útborgun til að mynda á íbúðum í verkamannabústöðum. Eins liggur fyrir að nokkur hópur fær ekki fyrirgreiðslu í almenna húsnæðiskerfinu af því að það fólk stendur ekki undir greiðslubyrði lána. Ég tel að það sem ég hef hér sagt sýni ljóslega fram á að það standa engin rök til að fresta því að taka á félagslega hluta húsnæðiskerfisins eins og stjórnarflokkarnir leggja til.

Ég vil einnig minna á í þessu sambandi að hér var um það að ræða að opna fyrir heimild fyrir sveitarstjórnir sem sveitarstjórnir gætu nýtt sér ef þeim svo sýndist, en í samstarfssamningi ýmissa sveitarstjórna og verkefnalista er að finna tillögur um að sveitarstjórnir hefji byggingu eða kaup á húsnæði með kaupleigufyrirkomulagi. Hefðu þessar tillögur verið samþykktar við 2. umr. um frv. hefði sveitarstjórnunum ekkert verið að vanbúnaði, sem það vildu, að hefja byggingu eða kaup á húsnæði með kaupleigufyrirkomulagi.

Ég tel hæpið af stjórnarflokkunum að bera það fyrir sig að það að opna fyrir lagaheimild fyrir kaupleiguíbúðir sé í andstöðu við verkalýðshreyfinguna. Ég minni á brtt. sem flutt var við 2. umr. af mér ásamt hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni og ég minni á það að ýmsir verkalýðsleiðtogar, m.a. forseti ASÍ, hafa lýst yfir stuðningi við kaupleiguíbúðir.

Í annan stað var við 2. umr. um þetta mál felld tillaga frá mér og Kjartani Jóhannssyni þess efnis að húsnæðismálastjórn hefði heimild til að setja reglur um að skerða eða hafna lánveitingu úr Byggingarsjóði ríkisins ef umsækjandi á íbúð sem talist getur fullnægjandi að dómi húsnæðismálastjórnar.

Við höfum viljað freista þess núna við 3. umr. málsins að endurflytja þessa till. í nokkuð breyttri mynd ef vera kynni að um hana gæti náðst samkomulag. Þessa till. flytja Kjartan Jóhannsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Guðmundur J. Guðmundsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Till. hljóðar nú svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er félmrh. að höfðu samráði við ASÍ, VSÍ og VMSS að setja reglur um að skerða eða hafna lánveitingu úr Byggingarsjóði ríkisins ef umsækjandi á íbúð sem talist getur fullnægjandi að dómi húsnæðismálastjórnar.“

Því verður varla trúað að það sé ekki meiri hl. fyrir því á hv. Alþingi að samþykkja slíka till.

Eins og húsnæðislöggjöfin er nú úr garði gerð heimilar hún lánveitingar til hópa sem eiga skuldlausar eignir og eru að minnka við sig húsnæði. Þessir hópar geta fengið 1200 þús. kr. lán með niðurgreiddum vöxtum úr húsnæðiskerfinu jafnvel þótt þeir þurfi ekki á því að halda til þess að eignast húsnæði. Það verður að segja að það er harla einkennilegt að þessir hópar skuli geta fengið lán og það sé til fjármagn í húsnæðiskerfinu til ráðstöfunar fyrir þessa hópa þegar fjármagn til þeirra sem byggðu á árunum 1980-1985 og eru að sligast undan greiðslubyrði lána, sérstakt fjármagn til þessara hópa, er þrotið.

Það liggur einnig fyrir að nokkur hópur fær ekki fyrirgreiðslu úr almenna húsnæðislánakerfinu af því að hann getur ekki staðið undir greiðslubyrði lána og draga verður í efa að þessir hópar fái fyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði verkamanna þar sem félagslegi hluti íbúðakerfisins er fjárhagslega sveltur. Því er harla einkennilegt að það skuli vera til ráðstöfunar fjármagn fyrir hópa sem ekki þurfa á því að halda til húsnæðisöflunar. Það er talið að þessi hópur, sem á þenna rétt, geti verið um 15% af heildinni og geti tekið til sín 500 millj. af fjármagni húsnæðiskerfisins. Því er þess nú freistað við lokaafgreiðslu frv. úr hv. Nd. að reyna að ná meirihlutafylgi fyrir því að veita húsnæðismálastjórn slíka heimild til að skerða eða hafna lánveitingum úr Byggingarsjóði ríkisins í þeim tilvikum sem ég hef hér nefnt.

Herra forseti. Ég vil í lokin beina tveimur spurningum til hæstv. félmrh. Í umræðum um stöðu húsnæðismála í tengslum við skýrslu félmrh. um störf milliþinganefndar kom fram hjá hæstv. félmrh. að mjög fljótlega yrði Alþingi gerð grein fyrir eftirfarandi:

1. Stöðu húsnæðismála út frá þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram um mikla vanáætlun á fjármagnsþörf og útlánaáætlun.

2. Fram kom hjá hæstv. ráðh. að skýrsla yrði lögð fram fljótlega þar sem gerð yrði grein fyrir ástæðum synjunar lána hjá Byggingarsjóði ríkisins.

Nú er um þessi atriði spurt og spyr ég hæstv. félmrh.: Verða fyrir þinglok lagðar fram skýrslur um þetta efni eða Alþingi a.m.k. gerð grein fyrir stöðu mála? Ég tel að hér sé um mjög mikilvæg atriði að ræða. Það sé mjög brýnt að Alþingi geri sér grein fyrir stöðunni í húsnæðismálum og hvort þar sé um miklar vanáætlanir að ræða, bæði í fjármagns- og útlánaþörf. Ég trúi því ekki að það taki svo langan tíma að gera slíka úttekt að það geti ekki legið fyrir fyrir þinglok. Ég hygg að það séu 1-2 vikur síðan þessi skýrsla var hér til umræðu og hygg ég að það sé nægur tími til að gera þá úttekt sem hér hefur verið um beðið.

Ekki síður er nauðsynlegt og brýnt að Alþingi ljúki ekki svo störfum að fyrir liggi ástæður þess hvers vegna nokkrum hópi hefur verið synjað um lánafyrirgreiðslu hjá Byggingarsjóði ríkisins. Það er mikilvægt að Alþingi geri sér grein fyrir því til þess að hægt sé að bregðast við því og gera ráðstafanir í tíma. Vera má að það þurfi og sé þá nauðsynlegt að veita til að mynda meira fjármagni inn í Byggingarsjóð verkamanna ef fyrir liggur að um einhvern hóp sé að ræða, kannske stóran, sem ekki fær fyrirgreiðslu úr almenna kerfinu af því að það stendur ekki undir greiðslubyrði lána.

Ég trúi því ekki að verkalýðshreyfingin og kannske helst láglaunafélögin geti verið sátt við að þeirra félagsmenn fái ekki fyrirgreiðslu í almenna húsnæðislánakerfinu og ekki heldur hjá Byggingarsjóði verkamanna þó að þessi láglaunafélög láti stóran hlut af ráðstöfunarfé sinna lífeyrissjóða í húsnæðismálakerfið. Í mínum huga eru þessi tvö atriði sem ég nefndi, þ.e. að Alþingi fái skýrslu um stöðu húsnæðismála og það liggi fyrir ástæður synjunar hjá þessum hópum, svo stór að ég legg á það þunga áherslu að ráðherra gefi Alþingi svör við því hvort slík skýrsla verði gefin hér á Alþingi því að ég verð að draga í efa að ég fái annað tækifæri hér í ræðustól, ef stefnt er að þinglausnum í vikunni, til að inna ráðherra eftir svörum við þeim spurningum sem ég lagði fram fyrir nær tveimur vikum um stöðu þessara mála. Þess vegna ítreka ég ósk mína um að ráðherra svari nú því sem ég hef spurt um.