16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4263 í B-deild Alþingistíðinda. (3934)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. félmn. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Það er kannske eðlilegt að umræður verði nokkrar við þessa 3. umr. þar sem mjög fáir hv. þingdeildarmenn voru við þegar 2. umr. fór fram.

Það frv. sem hér er til umræðu fjallar um fjögur atriði, þau atriði sem aðilar vinnumarkaðarins töldu sig geta náð samkomulagi um að breyta á þessu stigi málsins:

1. Að það beri að breyta ákvæði um tveggja ára lífeyrisgreiðslur þannig að það þurfi ekki 24 mánuði heldur 20.

2. Að breyta stærðarmörkum vegna erfiðleika sem hafa komið upp í því sambandi.

3. Að inn komi réttur fyrir fatlaða, öryrkja og stofnanir þeirra en það hefur fallið út úr lögunum.

4. Að setja bráðabirgðaákvæði um námsmenn.

Um þetta fjallar frv. Þegar fulltrúi Alþýðusambands Íslands var spurður um það á fundi nefndarinnar, hvort hann teldi ástæðu til þess að taka inn í frv. á þessu stigi kaupleiguíbúðir, svaraði hann því neitandi að áheyrandi öðrum sem voru mættir frá ASÍ á fundinum og sagði að það væri óheppilegt að það gerðist meðan reynslutími stæði. Aðspurður um reynslutíma sagði hann að reynslutími væri hæfilega ákveðinn tvö ár. Það mál er ekki til umræðu hér. Ég ætla ekki að orðlengja það frekar.

Varðandi þá till. sem hér hefur komið fram vil ég segja þetta: Það var gerð grundvallarbreyting á lögunum fyrir rúmu ári síðan og það var horfið frá þeim reglum sem í gildi voru og sú regla sem kom inn var þessi: Þeir lífeyrissjóðir sem greiða frá 20% og upp í 55% skapa rétt fyrir alla þá sem í lífeyrissjóðunum eru. Svo einföld var þessi regla. Þetta var stighækkandi eftir því hve lífeyrissjóðirnir greiddu mikið til húsnæðisstjórnarinnar með kaupum á skuldabréfum. Þetta er grundvallarregla. Um þetta var samið og á þetta var fallist í samstarfi við alla aðila. Nú sjá menn að þessi regla gerir það að verkum að ýmsir þeir sem að einhverra dómi þurfa ekki á þessum fjármunum að halda af niðurgreiddu fé geta fengið lán út úr Byggingarsjóði ríkisins.

Ég segi: Sú aðferð sem best hentar til þess að koma í veg fyrir misnot er auðvitað að jafna vextina til þessa fólks til þeirra vaxtakjara sem nú fást hjá lífeyrissjóðunum. Ég sé ekki hvers vegna við hér á hv. Alþingi, sem þegar höfum afsalað okkur talsverðum rétti með því að láta lífeyrissjóðakerfið standa undir stórum hluta af þessum peningum sem renna til Byggingarsjóðsins, eigum ekki að láta á það reyna, hvort aðilarnir sem eiga sæti í stjórn Húsnæðisstofnunar, en þar á meðal eru tveir menn kjörnir af Alþýðusambandi Íslands, eigi ekki að fá að finna út úr þessu máli með því að semja reglur um mismunandi vaxtakjör. Þetta þykir mér liggja í augum uppi.

Ég bendi á það að ef ráðherra færi að því sem hérna er verið að veita honum heimild til er hætta á því að lífeyrissjóðirnir neiti að semja við ríkið um kaup á skuldabréfum því að þetta eru undirstöðuatriði sem við erum að fjalla um. Og ég segi: Til hvers að vera að taka inn í frv. nýtt atriði þegar ljóst er að þetta er enn þá í mótun og talsmaður Alþýðusambands Íslands segir: Leyfið kerfinu að mótast á tveimur árum. Við skulum skafa af því skafankana sem hafa komið upp og að því loknu skulum við þá breyta kerfinu eins og eðlilegast er. Að taka þetta eina atriði út úr núna er óþarfi, því að það er hægt að beita öðrum aðferðum sem gera það að verkum að eftirspurn eftir þessu fjármagni hverfur eða þá að fólkið leitar til sinna lífeyrissjóða til þess að fá lán til að liðka fyrir húsnæðiskaupum sem geta verið í því fólgin að minnka við sig en þeir þurfi á fjármunum að halda um tímabundnar sakir, kannske ekki nema í 4-5 ár. (JS: Hver er þessi talsmaður ASÍ?) Hann heitir Ásmundur Hilmarsson og er sá maður sem hefur tekið mestan þátt í þessu og hefur sjálfsagt mest fengist við þessi mál af hálfu ASÍ. Þetta sagði hann svo að aðrir forustumenn Alþýðusambands Íslands hlýddu á á nefndarfundi um þessi mál. Þetta veit hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson og getur staðfest. Og ég segi: Svona tillöguflutningur er auðvitað ekkert nema sýndarmennska. Reynum nú að koma þessu máli í gegn. Það er beðið eftir þessum atriðum. Námsmenn bíða, fatlaðir bíða og það bíða ýmsir þeir sem hafa borgað í lífeyrissjóði í 20 mánuði á síðustu 24 mánuðum. Látum nú þetta frestast á meðan endurskoðun fer fram. Sýnum nú manndóm og keyrum þetta mál í gegnum þingið eins og það er núna að ósk aðila vinnumarkaðarins.

Ég þakka fyrir, herra forseti.