16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4267 í B-deild Alþingistíðinda. (3948)

346. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 1. minni hl. félmn. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 901 hef ég lagt fram nál. vegna þessa máls. Það er, eins og þm. sjá, ekki langt. Það er mikið mál sem hér er verið um að ræða og hefði átt að vera með þeim hætti, sem fyrir löngu er búið að gera ráð fyrir og nánast lofa, að hér væri verið að gera raunverulega breytingu að því er varðar tekjuskiptingu milli sveitarfélaga og ríkisins. Slíkt er ekki. Þetta er fylgifrv. við annað sem hér er á ferðinni og verður afgreitt trúlega eins og meiri hl. hefur gert ráð fyrir.

Ég sé ekki, herra forseti að ástæða sé til að fara mörgum orðum um þetta. Ég fagna því að vissu leyti að lækkuð var innheimtuprósentan, sem upphaflega var ætluð í frv., til ríkissjóðs. Ég er þeirrar skoðunar og hefði talið að það kæmi vel til greina að láta sveitarstjórnir ráða útsvarsprósentu, að þær beri ábyrgð á þeim gjöldum sem þær leggja á þegnana. Þó ég flytji ekki till. um slíkt held ég að það gæti vel komið til skoðunar í framhaldi af þessu að sveitarstjórnirnar bæru ábyrgð á því hver útsvarsprósentan er hverju sinni. Þetta getur verið mjög mismunandi milli sveitarfélaga eftir því hvernig þau eru sett og gæti þess vegna verið og er meira að segja þegar fyrir mjög breytilegt.