30.10.1986
Sameinað þing: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

1. mál, fjárlög 1987

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Nú þykir mér týra á tíkarskottinu, eins og sagt er, þegar varaformaður fjvn. kemur hér og lýsir megnustu óánægju með marga liði og mörg efnisatriði fjárlaganna. Mér sýnist svo sannarlega að stjórnarflokkarnir þurfi að samræma eitt og annað áður en afgreiðslu þessara fjárlaga lýkur. Ég heyrði ekki betur en hv. 6. þm. Norðurl. e., Guðmundur Bjarnason, væri afar óánægður með ýmsa hluti í frv. og hann sagði raunar berum orðum og beint að framsóknarmenn mundu ekki samþykkja ákveðin atriði eins og t.d. að því er varðar Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Þetta sagði hann berum orðum og ég verð að segja að ég fagna þeirri yfirlýsingu hans. Hv. þm. , síðasti ræðumaður, var hins vegar ánægður með eitt atriði og það var það að frv. stefndi að efnahagslegu jafnvægi. Hann er sæll í sinni trú.

Ég held hins vegar að þetta sé ekki rétt, að þetta frv. stefni hreint ekki að efnahagslegu jafnvægi eins og hæstv. fjmrh. vill vera láta og eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði í upphafi ræðu sinnar og mun ég koma að því síðar í mínu máli. En við þessa 1. umr. fjárlagafrv. fyrir árið 1987 gefst tækifæri til að fara almennum orðum um stefnu þessarar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum, í hinum mikilsverðustu málum er varða alla þegna þjóðfélagsins og ekki aðeins afkomu þjóðarbúsins heldur og afkomu þegnanna, afkomu heimilanna í landinu.

Ég mun hér á eftir ræða um meginstefnu í fjárlagagerðinni að því er varðar tekjur ríkissjóðs og gjöld og ég mun benda á ýmis þau atriði sem við Alþýðuflokksmenn teljum að aflaga fari og þá með hverjum hætti og hvaða leiðum þar megi breyta og verði að breyta. Auðvitað eru fjölmörg einstök atriði, kannske smáatriði að sumra mati, sem er að finna í frv. og sem einhverjir teldu að sérstök ástæða væri til að gera að umtalsefni en það verður þó ekki gert í þessari lotu eða á þessu stigi nema að tiltölulega litlu og takmörkuðu leyti.

Í upphafi rökstuðnings og réttlætingar sem fylgir þessu frv. segir orðrétt, með leyfi forseta, að „fjárlagafrv. það, sem nú er lagt fram, einkennist um margt af almennu efnahagsástandi í landinu“. Vel má þetta rétt vera, en það ber hins vegar að hafa í huga og leggja á það ríka áherslu, enda skiptir það höfuðmáli, að þetta fjárlagafrv. boðar ekki neina nýja stefnu. Það markar enga nýja stefnu til framfara eða til þess að búa í haginn fyrir komandi ár og þá kjarasamninga sem í vændum eru og það mótar ekki efnahagshorfurnar eða efnahagsstefnuna að einu eða neinu leyti. Þessi staðreynd, og þetta er meginstaðreynd, ég vek sérstaka athygli á því, sem ekki verður mótmælt, hlýtur að vera mörgum stuðningsmanni ríkisstjórnarinnar og þá einkanlega stuðningsmönnum Sjálfstfl. bæði bitur vonbrigði og sár, ekki síst þar sem um er að ræða fyrsta fjárlagafrv. sem formaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., leggur fyrir Alþingi og undirbýr.

Hæstv. ráðherrann sker sig í engu úr frá fyrirrennurum sínum. Hér bólar ekki á neinu nýju. Þvert á móti hefur hann farið í fötin fyrirrennara sinna og gengur í þeirra spor. Það er ekkert breytt, það er ekkert nýtt. Jafnvel er það svo að þeim árangri sem hefur náðst í margumræddri viðureign við verðbólguna kann nú að vera stefnt í hættu, árangri sem í fyrsta lagi náðist vegna fórna almennings þegar kaupgetan var skert svo um munaði og heimilin í landinu fengu skell, árangri sem náðist vegna þess að raunsæi og skynsemi réðu ferðinni hjá þeim sem stýrðu samningastefnu verkalýðsfélaganna í síðustu kjarasamningum, árangri sem náðist vegna þess hve viðskiptakjör okkar bötnuðu feiknarlega mikið með lækkuðu olíuverði og hækkandi afurðaverði erlendis. Það hefur verið bent á að þessum árangri kunni nú að vera stefnt í hættu og ég hygg að þeir sem hafa gert það hafi stutt það rökum.

Annars var það svo að í ræðu sinni áðan virtist mér sem hæstv. fjmrh. þakkaði ríkisstjórninni allt það góða sem gerst hefði og þá sérstaklega kjarasamningana. Ég held hins vegar að þar hafi hann gengið heldur langt. Ég held að ef ríkisstjórninni er eitthvað að þakka í þessum efnum sé það að hún skuli ekki hafa eyðilagt þann árangur sem náðist vegna þess að þessi árangur er ekki vegna stefnu ríkisstjórnarinnar, hann er kannske frekar þrátt fyrir hana.

Það hafa margir bent á að þessum árangri kunni að vera stefnt í hættu nú með þessu fjárlagafrv. hæstv. ráðh. Ég nefni þar prófessor Þorvald Gylfason sem á ráðstefnu Félags viðskipta- og hagfræðinga lét svo ummælt að þegar allt væri skoðað, og hér vitna ég til frásagnar í Morgunblaðinu laugardaginn 18. þ.m., þá virtist sér auðséð að frv. til fjárlaga og lánsfjárlaga gætu valdið þenslu í þjóðarbúskapnum, þar með vaxandi verðbólgu og viðskiptahalla á næsta ári, ef ekki yrði gripið í taumana. Prófessor Þorvaldur tók í fyrirlestri sínum saman A- og B-hluta fjárlaganna og bætir raunar við því sem hann nefnir C-hluta, en þar eru ýmis hálfopinber fyrirtæki og sjóðir. Þegar hann gerir þetta dæmi upp í heild er niðurstaðan sú að eftir standi um 3500 millj. kr. sem hann nefnir þensluhalla í þessu ríkisbúskapardæmi. Hann telur sömuleiðis hætt við að þessi þensluhalli verði í rauninni miklu meiri því eins og við öll vitum hér hv. þm. lækka fjárlögin ekki í meðförum þingsins heldur hækka þau, mismikið að vísu en ævinlega nokkuð. Við bætist svo að fjárlög hafa tilhneigingu, þegar þau eru komin í framkvæmd, til að standast ekki. Það vantaði ekki t.d. að dæmið liti bærilega út í fyrra, en hin raunverulega útkoma sem nú blasir við er dregur að lokum árs og uppgjöri er vissulega allt önnur eins og við vitum.

„Fjármálastefna þessarar ríkisstjórnar er líkleg til að stuðla að vaxandi þenslu og verðbólgu á næsta ári ef ekki verður gripið í taumana“ er haft eftir prófessor Þorvaldi í lok þessarar frásagnar Morgunblaðsins s.l. laugardag.

En er hann einn um þessa skoðun? Hann er það ekki. Það veit þjóðin. Vinnuveitendasamband Íslands, hið forna vígi hæstv. fjmrh. þar sem hann var í eina tíð hæstráðandi til sjós og lands að því sagt er, hefur um þetta sitt að segja og hefur af því sprottið hin furðulegasta deila milli fyrrv. framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, sem nú er hæstv. fjmrh., og núv. framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins, deila sem þjóðin hefur fylgst með á síðum dagblaða og hlustað á í útvarpi og sjónvarpi.

Vinnuveitendasambandið segir: Skatttekjur ríkissjóðs munu að líkindum verða hærri að raungildi í ár en í fyrra. Fjárlagafrv. gengur út frá hækkun beinna skatta um nálega 3% og hækkun á raungildi óbeinna skatta um nálægt 2%. Vinnuveitendasambandið segir enn fremur: „Óneitanlega er teflt á tæpasta vað í áætlunum ríkisstjórnarinnar.“ Líka segir þar: „Hallinn á ríkissjóði á þessu ári verður ekki rakinn til tekjuafsals ríkissjóðs á fyrri hluta þessa árs. Hann verður“, segir framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, „einungis rakinn til útgjaldaauka sem virðist hafa orðið á árinu 1985, en enn virðist ekki hafa tekist að ná því samræmi milli tekna og útgjalda ríkissjóðs sem nauðsynlegt er.“

Það er hins vegar kapítuli út af fyrir sig að á sömu blaðsíðu Morgunblaðsins og er að finna þessi ummæli framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins er líka að finna sérstakt viðtal við hæstv. fjmrh. þar sem hann segir og meira að segja í fyrirsögn, með leyfi forseta: „Vinnuveitendasambandið dregur í land með staðhæfingar sínar.“ Ég fæ nú raunar ekki séð að Vinnuveitendasambandið hafi dregið í land í þessu máli með eitt eða neitt, en það er mál þeirra félaga, fyrrverandi og núverandi framkvæmdastjóra, að útkljá þessa deilu. En allt er þetta mál hið einkennilegasta svo að ekki sé meira sagt.

En víkjum aftur að forsendum fjárlagafrv. og þeirri stefnu sem menn segjast vera að móta og látið er liggja að að í frv. felist. Enn vitna ég til inngangsins og aðfaraorða í athugasemdum. Þar segir:

„Það mikilvægasta við niðurstöður þessa frv. er að þær samræmast því markmiði ríkisstjórnarinnar að ná sem næst jöfnuði í viðskiptum við útlönd á næsta ári.“

Um þetta má segja að ríkisfjármálin virðast alls ekki vera veigamikill þáttur í því að koma á eða viðhalda efnahagslegu jafnvægi í landinu, eins og ráðherra heldur fram. Það verður að líta á þessar athugasemdir í inngangi frv. sem eigin orð fjmrh. Það er hins vegar ljóst að ýmislegt í frv. er hreint ekki eins og hér er lýst. Margt í frv. er með losarabrag og lausgirt svo sem oft áður, lausatök á mörgum málum svo sem ég mun síðar víkja að. Þetta er ekki til þess fallið að skapa þá festu og það traust í stjórn efnahagsmála sem er forsenda þess að efnahagslegt jafnvægi geti ríkt í landinu.

Enn er rétt að vitna til áðurgreindra orðaskipta hæstv. fjmrh. og Vinnuveitendasambandsins sem heldur því sannarlega fram, svo sem ég hef áður talið mig gera grein fyrir, að ríkisfjármálin valdi þenslu og stofni efnahagslegu jafnvægi í hættu. Einhvers staðar segir: „Vinur er sá er til vamms segir.“ Það skyldi þó aldrei vera að í þessu tilviki væri Vinnuveitendasambandið sá vinur hæstv. fjmrh. sem til vamms segir.

Ég held að það verði ekki um það deilt að við þær aðstæður sem nú ríkja þarf að beita ríkisfjármálum í aðhaldsátt. Við höfum oftlega bent á það, Alþýðuflokksmenn, og gerum enn, en í frv. sem hér er um að ræða er ríkisfjármálunum ekki beitt í aðhaldsátt og því skal endurtekið að það kann að stefna í hættu þeim árangri sem náðst hefur og verður aldrei lögð of mikil áhersla á það.

Það er rétt að víkja aðeins að erlendum lántökum sem hæstv. ráðh. gerði að sérstöku umtalsefni í ræðu sinni áðan og gumaði raunar mjög af. Hann talaði um það sem meiri háttar áfanga í hinni blómlegu fjármálastjórn íslenska ríkisins og sína helstu skrautfjöður að nú skuli dregið úr erlendum skuldum umfram það sem áður hefur verið. Við Alþýðuflokksmenn höfum um langt árabil gagnrýnt hóflausa erlenda skuldasöfnun og bent á hvern vanda það mundi skapa og því miður hafa þau aðvörunarorð reynst rétt. Það var ekki tekið tillit til þeirra né hlustað á þau á sínum tíma. Það er ekki nýtt að við bendum á þetta. En nú notar hæstv. fjmrh. það sem helstu skrautfjöður í sinn fjármálahatt að dregið verði úr erlendum lántökum hins opinbera og erlendar skuldir ríkisins muni lækka á næsta ári. En ef skoðuð er tafla nr. 18 á bls. 345 í þeirri þykku bók sem liggur á borðum okkar þm., þar er fjallað um heildarlántökur innlendar og erlendar á næsta ári, er þar vissulega gert ráð fyrir að opinberir aðilar lækki nokkuð skuldir sínar á næsta ári eða um 380 millj. kr. Það er að vísu ekki há tala en það er tala samt. En er þetta öll sagan?

Aldeilis ekki. Það er nefnilega svo, hæstv. ráðh., að þegar betur er að gáð koma þarna á móti erlendar lántökur lánastofnana að upphæð 1510 millj. kr. sem er álíka há upphæð og ríkið hyggst fá að láni hjá bönkunum á næsta ári. Sé þetta mál hugsað eilítið lengra, hvert leiðir þá hugsunin og hvert leiða þá staðreyndirnar okkur? Annað af tvennu mun gerast, hæstv. ráðh.: Hæstv. ráðh. mun nota ríkissjóð Íslands til að ýta atvinnuvegunum út af innlenda lánamarkaðnum eða ýta bönkunum út í erlendar lántökur. Er þetta ekki rétt, hæstv. ráðh.? Ég hygg að annað af þessu tvennu muni gerast. Ráðherrann svarar því hér á eftir ef hann kemur auga á fleiri möguleika. En ég hygg að ef þessi mál eru metin raunsætt, hvað muni gerast þegar ríkissjóður tekur 1500 millj. að láni hjá bönkunum, muni annaðhvort atvinnuvegunum verða ýtt til hliðar eða bankarnir auka lántökur sínar erlendis. Það gefur auga leið. Ef hæstv. fjmrh. hefur einhverja þriðju töfraleiðina væri ánægjulegt að hann skýrði þingheimi frá því. (EKJ: Lækka bindiskylduna, maður.) Já, það kannske leysir sum vandamál, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, en ég efast um að það leysi öll vandamál eins og stundum er haldið fram.

Ég vitna enn á ný til þeirrar ráðstefnu sem Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hélt á dögunum þar sem margir urðu til þess að halda því fram að ríkissjóður Íslands sé og muni áfram verða þensluvaldur í hagkerfinu. Það er þýðingarlaust fyrir hæstv. ráðh. að ætla sér að afgreiða þær röksemdir sem fram voru settar á ráðstefnu hagfræðinga og viðskiptafræðinga eins og honum hættir stundum til að gera, t.d. í útvarpi og sjónvarpi um málflutning þeirra sem honum eru ósammála, með því að segja að þetta séu bara blekkingar eða ósannindi eða rakalaus þvættingur. Ég held að hæstv. ráðh. geti ekki leyft sér slíkan málflutning. Hann er honum ekki samboðinn og hann er heldur ekki boðlegur í eyru skynsams og hugsandi fólks. Það vill fá röksemdir, ekki sleggjudóma um rakalausar fullyrðingar og ósannindi.

Rök og staðreyndir hníga að því að fjárlagahallinn á þessu ári verði frekar meiri en minni en 2200 millj. kr. Þess vegna hlýtur það að vera krafa okkar, og þá kröfu set ég fram fyrir hönd þingflokks Alþfl., að fjmrh. skýri það nú fyrir þingheimi, vegna þess að hann gerði það ekki í ræðu sinni áðan og það er ekki gert í þessu fyrsta frv. hans, hvernig fjárlagafrv. ársins 1987 á að stuðla að betra jafnvægi í efnahagsmálum, hvernig þetta frv. á að stuðla að því að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur og að hæstv. ráðh. rökstyðji að þetta sé ekki þenslufrumvarp sem stefni stöðugleika efnahagslífsins og atvinnulífsins í hættu. Sannleikurinn er sá og það væri sæmst að viðurkenna refjalaust að þetta frv. stuðlar ekki að betra jafnvægi í efnahagsmálum og því hef ég leitt rök að. Þar að auki er þetta frv. að mjög mörgu leyti opið, óljóst, þokukennt, ófrágengið og endasleppt í veigamiklum málum og mun ég nánar víkja að því hér á eftir.

Varðandi tekjuhlið frv. ber allt að sama brunni. Það er athyglisvert, réttara væri kannske að segja að það væri ámælisvert, að tekjuhlið þessa fjárlagafrv., hæstv. fjmrh., er í mjög veigamiklum atriðum byggð á lagabreytingum sem á þessu stigi eru aðeins ráðgerðar og sem þingheimur veit ekkert um á þessu stigi máls, sem Alþingi hefur ekki haft nokkra minnstu möguleika til að kynna sér, hvorki í frumvarpsformi né á annan hátt. Hér er sannarlega auðvelt að nefna dæmi. Ég átti von á því að hæstv. fjmrh. skýrði þessi mál eitthvað frekar í framsöguræðu sinni með frv., þau frv. sem tekjuhlið fjárlagafrv. á að hvíla á. Hann gerði það ekki. Skýringin hlýtur að vera sú að þessi frv. eru ekki til, hæstv. ráðh.

Við skulum nefna dæmi: Það er reiknað með því að það verði lagt gjald á innfluttar olíuvörur er skili 600 millj. kr. á næsta ári. Nú hefur olíuverð lækkað og almenningur nýtur hagsbóta af því. „Neyttu nú meðan á nefinu stendur“, sagði í þjóðsögunni, og þá reiðir fjmrh. til höggs og skattleggur bensín og olíuvörur eða tilkynnir að hann ætli að gera það. (ÓÞÞ: Hvert var framhaldið í þjóðsögunni?) Vill ekki hv. þm. Ólafur Þórðarson greina frá því þegar hann kemur í ræðustól. Hann gæti sagt margt vitlausara, held ég. - En hæstv. fjmrh. notar það að almenningur nýtur hagsbóta af lækkun olíuverðs til að auka skatttekjur ríkissjóðs. Þar kemur stóri bróðir, Sjálfstfl., til skjalanna þegar bensín og olíuvörur lækka og eykur skattheimtuna. Á þessari stundu er ekkert vitað um gjaldstofn þessa nýja gjalds eða hvaða verðlagsáhrif það hefur í för með sér. Sé það ætlun ríkisstjórnarinnar að afla ríkissjóði svo mikilla tekna sem hér er talað um hlýtur það að vera lágmarkskrafa - og ég endurtek að það hlýtur að vera lágmarkskrafa - að ráðherra geri þinginu ítarlega grein fyrir þessum áformum. Hann ætti raunar að vera búinn að því. Ég sé ekki að hann hyggist gera það við þessa umræðu fjárlaga. Þó má vera að hann geri það í lokasvarræðu sinni. Auðvitað á þingið kröfu á því að fá upplýsingar um þessa tekjuöflun.

Í öðru lagi er talað um að tekjuskattur verði lækkaður um 300 millj. kr. Það er ekkert um það vitað frá hvaða stigi þessi lækkun verður reiknuð né með hvaða hætti hún verður framkvæmd. Um það er ekkert vitað og það er ósköp eðlilegt að fólk sé tortryggið á yfirlýsingar hæstv. fjmrh. eftir skattaævintýri hans og þeirra ríkisstjórnarfélaganna frá því í sumar sem er svo sem óþarft að rifja upp. Það er öllum í fersku minni þegar tekjuskatturinn hækkaði upp úr öllu valdi þrátt fyrir hin gefnu loforð. Menn muna þetta mætavel.

Í þriðja lagi má nefna það til sögunnar í sambandi við tekjuhlið þessa frv. að rætt er um breytingu á tollskrá og álagningu vörugjalds sem væntanlega mun hafa margvísleg áhrif á næsta ári. Um þetta er ekkert vitað, um þetta hefur ekkert verið sýnt. Við rennum blint í sjóinn og enn ber allt að sama brunni. Tekjuáætlun fjárlaganna hvílir á frv. sem við höfum ekki séð. Þetta er allt meira og minna út í loftið.

Í fjórða og fimmta lagi minni ég á að að því er snýr að tekjuhlið þessa frv. hefur verið rætt um virðisaukaskatt og staðgreiðslukerfi skatta. Um hvorugt þessara mála verður með sanni sagt að þau séu ný. Ætli það sé ekki í 15. skipti sem þessir gömlu kunningjar fylgja í ummælum ráðherra með fjárlagafrv. Þetta eru vissulega góð mál eða geta vissulega verið góð mál, en það veldur hver á heldur. Það er sannarlega til lítils að nefna þessi mál enn einu sinni, eins og ég sagði, sjálfsagt 15. árið í röð. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir að hæstv. fjmrh. tók ekki sterkar til orða en svo þegar hann var að tala um staðgreiðslukerfið að hann sagði „að stefnt væri að því“. Ekki var það sterk eða meiningarmikil yfirlýsing.

Í frv. vantar alla heildarstefnu í skattamálum. Hún er ekki til. Þó er ljóst að gert er ráð fyrir lítt eða ekki breyttu hlutfalli skatta af þjóðarframleiðslu á næsta ári eða hækkuðu hlutfalli kannske eins og Vinnuveitendasambandið heldur fram. Þetta er athyglisvert með tilliti til margítrekaðra yfirlýsinga sjálfstæðismanna um skattalækkunarstefnu Sjálfstfl., sbr. t.d., og er sá hv. þm. nú illa fjarri góðu gamni, 2. þm. Reykn. Gunnar G. Schram, endurteknar greinar hans í Morgunblaðinu sem allar fjalla um sama efni, allar fjalla um skattalækkanir sem engar hafa orðið. Mundi kannske einhver segja að sá hv. þm. hefði senn sagt og skrifað nóg í þeim efnum með hliðsjón af efndum flokksbræðra hans í ríkisstjórn.

Þá mun ég, herra forseti, víkja fáeinum orðum að gjaldahlið frv. Ég ætla ekki að vera margorður um gjaldahliðina, sagði hæstv. fjmrh. áðan. Ég veit ekki hvort ég get lofað alveg því sama. Það er eitt og annað sem mig langar til að nefna þar almennum orðum.

Það kemur fram í frv. fjmrh. að það er reiknað með 1,7% aukningu útgjalda ríkisins til samneyslu, en um 6% aukningu til opinberra framkvæmda. Á sama tíma kemur það fram að það sé skoðun ríkisstjórnarinnar að hæfileg aukning einkaneyslu sé u.þ.b. 1 1/2%. Hér kemur beinlínis fram að ríkið ætlar sér stærri hlut og meiri en heimilunum og fyrirtækjum úr þjóðartekjum næsta árs. Þetta getur auðvitað verið réttlætanlegt, en þetta þarfnast hins vegar skýringar, hæstv. fjmrh., og þá skýringu hef ég hvergi fundið í þessu þykka frv. Ég sakna hennar og spyr: Hvar er þessa skýringu að finna?

Þetta frv. er því miður ekki það aðhaldsfrv. sem þyrfti til að viðhalda og bæta þann árangur sem náðst hefur. Þetta er því miður heldur ekki frv. þar sem verkefnum er raðað í forgangsröð þannig að hægt sé að segja að brýnustu verkefnin sitji í fyrirrúmi. Enn er hér lagt til að verja hundruðum milljóna til að styrkja útflutning landbúnaðarvara og niðurgreiða landbúnaðarvörur á innanlandsmarkaði. Málefni landbúnaðarins eru enn sem fyrr í óefni vegna þess að það er ekki tekið á vandanum. Bændur og neytendur bera þar skarðan hlut frá borði meðan milliliðirnir hafa allt sitt á hreinu. Um það blasa dæmin við.

Og það vantar sannarlega ekki að það er margt í gjaldahlið þessa frv. sem svífur óljóst og er í þoku og það ber þess ýmis merki þetta frv., þrátt fyrir það sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að það eru kosningar í vændum. Auðvitað ber fjárlagafrv. þess merki. Því neitar enginn sem það les.

Það er hægt að nefna óteljandi dæmi um hluti sem vantar í þetta frv., atriði sem munu gera það að verkum að þetta frv. hækkar mjög verulega frá því sem nú er, atriði sem ríkisstjórnin hefur ekki viljað taka á enn sem komið er. Hækka framlög til grunnskóla, sagði hæstv. ráðh., til grunnskólabygginga. Það er rétt. Þau voru skorin niður við trog gjörsamlega í fyrra og hækka nokkuð núna. Það er ástæðulaust að gera lítið úr því. Þetta er allt rétt. Hins vegar er til lítils að byggja grunnskóla ef svo illa er búið launalega að kennurum að það fæst ekki fólk til að kenna. Það er til lítils, hæstv. ráðh., og það heyrðu menn á haustdögum þegar hver bekkurinn á fætur öðrum í höfuðborginni varð að sitja heima vegna þess að það fékkst ekki fólk til að kenna. Síðan hefur sjálfsagt verið fólk ráðið þar sem enga reynslu hefur haft af því að kenna, en það er dýrt spaug þegar til lengdar lætur, hæstv. ráðh.

Eitt dæmi um óleystan vanda í frv., og ég ætla að nefna nokkur önnur, er Áburðarverksmiðja ríkisins. Þar eru menn árum saman búnir að velta vandanum á undan sér vegna þess að framleiðsla fyrirtækisins hefur aldrei verið seld á því verði sem kostar að framleiða hana. Áburðurinn hefur aldrei verið seldur á því verði sem hann kostar. Nú er gert ráð fyrir að áburður hækki um 30%. Þess vegna er rétt að spyrja hæstv. fjmrh. og kannske landbrh. hæstv. líka: Á landbúnaðurinn að taka á sig þessa hækkun eða ætlar ríkissjóður að greiða hana niður eins og venjulega hefur verið gert? Ef ríkissjóður ætlar að greiða þessa hækkun niður sér þess engan stað í frv. Og það eru ekki smáar upphæðir sem þarna er um að tefla.

Annað dæmi: Póst- og símamálastofnun er ætlað að skila 200 millj. kr. í ríkissjóð á þessu ári. En hvað segir um þá stofnun á bls. 304 í fjárlagafrv., með leyfi forseta:

„Fjárhagsstaða fyrirtækisins er því erfið um þessar mundir. Það hefur hvorki getað staðið í skilum með arðgreiðslur til ríkissjóðs né flýtigreiðslur af lánum hjá ríkissjóði, samtals 288 millj. kr. Til viðbótar þessu stefnir í verulegan greiðsluhalla hjá fyrirtækinu í árslok 1986.“

Í þessu fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að Póstur og sími skili 200 millj. í ríkissjóð á árinu 1987. En ekki bara það. Á næsta ári er gert ráð fyrir að Póstur og sími inni af höndum eins og venjulega margvíslega þjónustu í sambandi við alþjóðaflugþjónustuna á Íslandi, þ.e. þjónustu við Atlantshafsflugið sem fer hér um háloftin. Það er áætlað að þessi þjónusta kosti 110 millj. kr. Ríkissjóður, hæstv. fjmrh., innheimtir þennan kostnað hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni og hann er sjálfsagt borgaður í beinhörðum gjaldeyri, grænum dollurum, 110 millj. kr. Þetta innheimtir ríkissjóður hjá ICAO. En hvað gerir ríkissjóður? Endurgreiðir hann Pósti og síma þessa upphæð fyrir þá þjónustu sem stofnunin hefur innt af hendi? Nei. Og hvað þýðir það, hæstv. fjmrh.? Það þýðir að íslenskir símnotendur verða látnir greiða kostnaðinn við Alþjóðaflugþjónustuna. Þessum 110 millj. kr. verður jafnað niður á íslenska símnotendur. Hvað er það há upphæð sem er gert ráð fyrir að Póstur og sími leggi til ríkissjóðs á næsta ári? Það er hærri upphæð en öll afnotagjöld af símum á Íslandi. Hafa menn gert sér þetta ljóst? Það er ekki sagt berum orðum í frv. að þetta eigi að vera svona, en þetta stendur í frv. samt.

Það er ekki reiknað með neinni gjaldskrárhækkun hjá Pósti og síma. Það er ekki sagt hvernig fjármagna skuli útgjöld. Það er fyrirsjáanlegt að það verður að skera niður margvíslegar framkvæmdir. En ég held, hæstv. fjmrh., nema hann hafi fundið þriðju töfraleiðina í þessu máli, að það sé ekki nema tvennt til. Annaðhvort verður að hækka verðið á þjónustunni eða það verður að taka lán til að standa undir henni. Það er fróðlegt að heyra hvort hæstv. fjmrh. ætlar að svara því á eftir hvort íslenskum símnotendum sé ætlað að greiða þessar 110 millj. sem ríkissjóður tekur til sín vegna þeirrar þjónustu sem ICAO, Alþjóðaflugmálastofnunin, greiðir fyrir.

Hæstv. ráðh. verður að skýra betur en hann hefur gert horfur um verðskrá og fjárhag margvíslegra opinberra fyrirtækja. Er þetta raunsæi eins og gengið er frá Póst- og símamálastofnun í fjárlagafrv. hæstv. ráðh.? Það er ekki raunsæi. Þetta er bara rugl, hæstv. ráðh. Því miður. Eru hérna farnar einhverjar nýjar leiðir? Síður en svo.

Þriðja dæmið sem mætti nefna: Samkvæmt nýjum útvarpslögum á Ríkisútvarpið að hafa tekjur af aðflutningsgjöldum. Það var ákveðið fyrir skömmu á hinu háa Alþingi til að treysta stöðu Ríkisútvarpsins að það hefði tekjur af aðflutningsgjöldum útvarps- og sjónvarpstækja. Mér skilst að þetta gjald geti numið allt að því 120 millj. kr. á þessu ári, þ.e. að það hafi numið einum 64 millj. kr. á fyrri helmingi þessa árs. Þetta fé er auðvitað forsenda þess að það sé hægt að búa útvarpshúsið nýja tækjum og það er líka forsenda þess að það verði hægt að leggja fé fyrir til að reisa nýja langbylgjustöð sem er meiri háttar og dýrt verkefni sem blasir við Ríkisútvarpinu áður en langt um líður. Vonandi lafa þessi gömlu möstur hér á Vatnsenda enn um hríð, gæfan verði okkur, guð og gott veður svo hliðholl að þau lafi og hangi uppi. Hrynji þau er langbylgjukerfið úr sögunni og það verður ekki lagfært í einni svipan. Þess vegna verður að reisa nýja langbylgjustöð eins og búið er að tala um.

En hvað gerist í þessu fjárlagafrv.? Ríkisútvarpið er svipt þessum tekjustofni. Talsmaður Framsfl. hefur þegar lýst því yfir við þessa umræðu og fulltrúi hans í fjvn. að Framsfl. muni ekki samþykkja þetta.

Það verður fróðlegt að sjá þegar þar að kemur. E.t.v. verður hæstv. ráðh. að láta í minni pokann fyrir samstarfsflokki sínum.

En hvernig er frá þessu máli gengið í frv.? Hvernig er málið afgreitt? Þar segir, með leyfi forseta: „Fjármál Ríkisútvarpsins, þar með framkvæmdasjóðs, þarfnast nánari umfjöllunar fyrir afgreiðslu fjárlaga.“ Sem sagt: Málið er óljóst, óklárt og engin ákvörðun önnur en að skera niður þessar tekjur.

Mér finnst þetta ekki burðugt. Þetta er enn eitt þokudæmið. Þetta er enn eitt vandamálið sem skotið hefur verið á frest. Þetta frv. er hreint ekki eins fullkomið og hæstv. ráðh. hefur látið hér liggja að. Þjóðin er búin að fá að kynnast því - ja, ég undanskil Framsfl. núna eftir ummæli hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar áðan - og sérstaklega fólkið sem býr úti á landi hvern hug Sjálfstfl. ber til þeirrar menningarstofnunar og þeirrar miklu öryggisstofnunar sem Ríkisútvarpið er.

Fjmrh. hefur, svo að ég segi ekki meira en hann hefur sagt, lýst því yfir að hann vilji íhuga og það komi til greina að íhuga sölu á annarri útvarpsdagskránni, en hann hefur ekki enn þá skýrt hvað hann vill selja nákvæmlega. Það er kominn tími til að hann geri það. Ætlar hann að selja húsnæðið í nýja útvarpshúsinu? Ætlar hann að selja nafnið Rás 2? Ætlar hann að selja dreifikerfið sem að hluta til er notað til að flytja sjónvarpsefni um landið? Ætlar hann að selja þekkingu og kunnáttu starfsfólksins'? Það er kominn tími til þess að hæstv. ráðh. skýri fyrir þjóðinni hvað hann á við þegar hann er að tala um þetta.

Fólk sem býr úti um land og nýtur þjónustu Ríkisútvarpsins og þeirra tveggja dagskráa sem það sendir í hljóðvarpi og þeirrar þriðju í sjónvarpi á kröfu á því að hæstv. ráðh. sé ekki með svona ummæli út í loftið heldur segi skýrt og skorinort hvað hann á við. Við vitum það öll að útvarp, afþreyingarútvarp eins og Rás 2 er, verður aldrei rekið af einkaaðilum á landsbyggðinni af því að þeir geta ekki grætt á því. Það verður gert hérna í Reykjavík. Það verður gert hérna við Faxaflóann. Það verður aldrei gert á minni stöðum úti á landi vegna þess að það er enginn grundvöllur fyrir því. Einkaaðilar eru í þessu til að græða peninga, hæstv. ráðh. Þeir eru ekki í því til að þjóna landsbyggðinni. Ég held að landsbyggðarfólk eigi að íhuga vel þá stefnubreytingu sem hefur orðið hjá Sjálfstfl. í þessu mikils verða máli. Ég segi alveg eins og er að ég gef nákvæmlega ekkert fyrir yfirlýsingar hæstv. ráðh. sem koma hér og segja að þeir vilji Ríkisútvarpinu allt gott meðan þessar yfirlýsingar formanns Sjálfstfl. standa óhaggaðar, meðan fjárlagafrv. er eins og það er og meðan hæstv. ráðh. fullyrðir að öll ríkisstjórnin standi að þessu fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir.

Ég hef áður minnt á það líka hversu ljóst það er hvern hug Sjálfstfl. hefur í þessu máli. Það var enginn ágreiningur um það hér að það bæri að afnema einokun Ríkisútvarpsins og þegar hæstv. ráðh. reynir að afflytja málflutning okkar Alþýðuflokksmanna í umræðum um útvarpslögin er það ekki mjög heiðarlegur málflutningur af hans hálfu, verð ég að segja, og hefur satt að segja komið mér svolítið á óvart. Við bentum á ýmsa vankanta á þessum málum og ýmsar hættur sem í leyni leyndust og ýmislegt af því sem við töluðum um hefur reynst vera rétt.

Hve umhugað Sjálfstfl. er að styðja þennan rekstur kemur best í ljós af því hvernig hæstv. ráðh. hefur veitt nýrri sjónvarpsstöð t.d. heimild til að flytja inn tollfrjálst svokallaða afruglara, en fyrir því var engin heimild í fjárlögum. Fyrir því er engin heimild í fjárlögum yfirstandandi árs. Það eru alveg hreinar línur. Hæstv. ráðh. átti um tvennt að velja. Hann gat gefið út brbl. til að gera þetta og hann gat óskað heimildar Alþingis. Hann gerði hvorugt. Hann kaus að bera fyrir sig orðalag í fjárlögunum, sem ég hygg að enginn lögfræðingur mundi treysta sér til, að nota og kalla þessa afruglara sem hluta af dreifikerfi útvarps. Það er aldeilis með ólíkindum og hér held ég að ráðherra hafi gerst offari. Hann hafði ekki heimild til að gera þetta að mínu mati, en hann gerði það samt. Hann hafði tvær aðrar leiðir, sem voru fullkomlega réttmætar, að gefa út brbl. eða leita heimildar Alþingis. Hann gerði hvorugt. Þetta finnst mér ekki til fyrirmyndar. Og ég veit ekki betur en sami hæstv. fjmrh. hafi beitt sér fyrir því í fyrra að felld var till. frá þm. úr fimm flokkum um að fella niður aðflutningsgjöld af nýjum upptökubíl sjónvarpsins, að fella niður þessi gjöld. Ég veit ekki betur en hæstv. ráðh. hafi beitt sér fyrir því að öll gjöld af tækjum til nýju sjónvarpsstöðvarinnar hafi verið felld niður. Felld var till. í fyrra um að fella gjöld niður af upptökubíl sjónvarpsins. Hún var felld við afgreiðslu fjárlaga. Sjálfsagt verður þetta fellt niður núna vegna þess að annað er auðvitað ekki hægt. En mér skilst, og hæstv. fjmrh. leiðréttir það fari ég með rangt mál, að hann hafi fellt niður aðflutningsgjöld af öllum tækjum til nýju sjónvarpsstöðvarinnar. Ég er ekki að leggja mat á hvort það var rétt eða rangt. Það hefði ekki veríð óeðlilegt að þessi stöð sæti við sama borð og Ríkisútvarpið sem hefur borgað tolla og aðflutningsgjöld t.d. af þessum sjónvarpsbíl. En þetta sýnir stefnu Sjálfstfl. gagnvart þessari menningarstofnun. Auðvitað eiga menn að fá að reka útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar skv. þessum nýju lögum, um það er enginn ágreiningur, en það er hins vegar ágreiningur um hvort ríkið og ríkissjóður eigi að leggja sig í framkróka um að lyfta þessu en þrýsta útvarpinu niður. Hér er um að ræða grundvallaratriði að því er lífsskoðun manna varðar, hæstv. ráðh. Ég held að hæstv. ráðh. hafi ekki umboð til að afsala ríkissjóði tekjum í þeim mæli sem hann hefur gert að því er þetta varðar. Ég held að hann þurfi að leita heimildar Alþingis til þess. Hann hefur ekki gert það.

Ég gæti sagt ýmislegt fleira um þessi mál, en ítreka það og legg áherslu á að hér er Sjálfstfl. að vega að landsbyggðinni. Það er verið að vega að því menningartæki sem Ríkisútvarpið er og því öryggistæki og auðvitað endar þetta allt með því að fólkið úti á landsbyggðinni verður látið greiða hærri afnotagjöld til að halda uppi stöðvum hér í þéttbýlinu. Þannig mun þetta enda, því miður.

En það er fleira sem er sleppt í þessu frv. Ég sé ekki að það sé minnst á hitaveiturnar, t.d. á Akureyri, Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, sem eiga við gífurlega fjárhagsörðugleika að etja. Þessar hitaveitur voru byggðar á sínum tíma m.a. fyrir hvatningu ríkisvaldsins. Öllum lánum, sem tekin voru til þeirra, var breytt í dollara sem reyndist mjög óhagstætt. Það þarf að rétta þessi fyrirtæki við með einhverjum hætti. Það er alveg ljóst. Það getur ekki gengið svo lengur að fólk sem býr á þessu svæðum borgi margfalt hærri orkugjöld en íbúar annars staðar á landinu.

Fleira langar mig til að minnast á sem vantar í frv. Frystihúsin, vandamálafrystihúsin sem stundum eru svo nefnd, þurfa einhverja fyrirgreiðslu ef ekki á að láta þau deyja drottni sínum og atvinnulíf á ýmsum stöðum þar með. Hvað á að gera í þeim efnum, hæstv. ráðh.? Og það er enn fleira. Innlendan skipasmíðaiðnað mætti nefna hér til sögunnar. Hvað verður þar? Það er ekkert sagt um það, ekki orð. Á að leggja þann iðnað niður? Ég leyfi mér, herra forseti, að vitna til ályktunar frá aðalfundi Félags dráttarbrauta og skipasmiðja sem okkur þm. barst í dag. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Þetta óskiljanlega stefnuleysi og flumbrugangur í uppbyggingu flotans hefur haft skelfilegar afleiðingar fyrir skipasmíðaiðnaðinn og að sjálfsögðu einnig bitnað illa á útgerðinni og öllu efnahagslífi þjóðarinnar. Undanfarin þrjú ár hefur nánast engin nýsmíði fiskiskipa verið stunduð hér á landi og bannað hefur verið að flytja inn fiskiskip. Endurnýjun fiskiskipastólsins hefur síðustu árin nánast öll verið í formi endurbóta á gömlum fiskiskipum.“

Hvað ætlar ríkisstjórnin, hæstv. ráðh., að gera varðandi innlenda skipasmíðaiðnaðinn?

Við getum nefnt fleira. Hæstv. ráðh. vék að Lánasjóði ísl. námsmanna. Tölurnar þar eru óbreyttar. Hvað þýðir það? Það þýðir skerðingu til námsmanna að öllu óbreyttu. Þessar tölur hljóta að hækka í meðförum þingsins. Það hefur engin stefna verið mótuð í þessum málum enn. Óljós fjárþörf lánasjóðsins, sagði hæstv. ráðh. í ræðu sinni áðan.

Þetta sem ég hef nú nefnt, herra forseti, eru bara nokkur dæmi um hversu gloppótt og götótt þetta fjárlagafrv. í rauninni er og hve óljósa mynd það gefur og hversu margt vantar í það.

Ég ætla að víkja aðeins að skattamálum. Við Alþýðuflokksmenn höfum gagnrýnt núverandi skattkerfi. Það er ekki aðeins flókið heldur er það orðið ónýtt. Það vita allir um söluskattskerfið, hversu hriplekt og handónýtt það er orðið fyrir löngu. Á flokksþingi Alþfl., sem haldið var fyrstu helgi októbermánaðar, var gerð ályktun um að taka beri upp virðisaukaskatt, en að sú breyting hafi ekki í för með sér hækkun á framfærslukostnaði heimilanna. Það er auðvitað meginatriði. Við erum þeirrar skoðunar að það eigi að einfalda þetta skattkerfi okkar mjög verulega og langar mig til að víkja að því frekar nokkrum orðum. Það er löngu, löngu orðið tímabært, og raunar hefur hjá ræðumönnum hér í dag verið minnst á það, að taka til við heildarendurskoðun skattkerfisins. Það verður að segja þeim ójöfnuði sem ríkir stríð á hendur og það ástand að efnaðasti hluti þjóðarinnar skuli bæði á löglegan og ólöglegan hátt geta komist hjá því að greiða skatta er auðvitað gersamlega óþolandi. Verkefni okkar hlýtur að vera að einfalda skattkerfið og við erum tilbúnir með tillögur um það sem lagðar munu verða fram á sínum tíma. Við viljum einfalda skattkerfið og gera það auðskilið. Það á að afnema ívilnanir og undanþágur. Þetta kerfi verður að vera þannig að framkvæmd þess og eftirlit verði sem auðveldast svo skattundandráttur verði sem torveldastur. Mikilvægast er auðvitað að þetta kerfi mismuni ekki þegnunum, launamönnum, atvinnurekendum, atvinnustéttum eða rekstrarformum.

Eitt af stærri götunum að því er varðar framtaldar tekjur í þessu skattkerfi okkar eru vaxtatekjurnar og hér er ekki bara átt við skattfrelsi ákveðinnar tegundar sparifjár, sem menn telja almennt ekki fram, heldur tekjurnar af verðbréfaviðskiptum sem eru ekki litlar og færast mjög í vöxt eins og öllum er kunnugt. Mjög lítill hluti þessara tekna, leyfi ég mér að fullyrða, kemur fram á skattframtölum. Eina leiðin til að koma því fram að það sé greiddur skattur af þessum fjármunum er að leyfa ekki að þetta sé dregið frá skatti. Það er líka öruggasta leiðin til að tryggja að ríkissjóður hafi tekjur af þessum fjármagnsviðskiptum og hefur í för með sér minni eftirspurn eftir fjármagni og lægri vexti.

Það er alveg ljóst að okkar mati að það dugar ekkert annað en alger umbylting á skattkerfinu ef almenningur á að fá trú á þessu kerfi. Við vitum það öll. Almenningur hefur enga trú á íslensku skattkerfi. Hann veit hvernig það er, hversu ranglátt, hriplekt og gersamlega hrunið það er.

Við erum þeirrar skoðunar að nýtt skattkerfi verði að uppfylla m.a. eftirtalin atriði:

Það verði ekki lagður tekjuskattur á nauðsynlegan framfærslulífeyri og þeir tekjuhærri greiði hlutfallslega hærri skatt en þeir tekjulægri. Allar tekjur verði skattlagðar, en aðeins skattlagðar einu sinni og eins nálægt upprunanum og mögulegt er og allar tekjur verði skattlagðar með sömu prósentutölu. Enn fremur að skattframtal verði svo einfalt og auðskilið að menn geti talið sjálfir fram og þurfi ekki að kaupa til þess dýra aðstoð.

Við höfum haft frumkvæði um að taka á skattsvikamálum. Fjmrh. birti skýrslu eftir samþykkt tillagna okkar, mjög athyglisverða, sem sýnir hvernig ástandið er í þessu máli.

Ég minntist áðan á virðisaukaskattinn og vara við því að þegar hann verður tekinn upp hafi stjórnvöld ríkt aðhald þegar prósentan verði lækkuð og sjái um að hún verði í rauninni lækkuð nægilega mikið og freistingin ekki notuð til að auka skattheimtuna verulega. Við erum þeirrar skoðunar að virðisaukaskatturinn geti bætt úr megingöllum söluskattskerfisins. Það hafa komið fram margvíslegar mótbárur gegn virðisaukaskatti. Það neikvæða mætti segja er að hann krefst mikillar vinnu, ekki aðeins af atvinnurekstrinum heldur líka af hinu opinbera. Hins vegar er það umhugsunarefni að meðan athafnamenn fara í ferðalög til útlanda til að kynna sér hvernig þessi skattur er lagður á, hvernig hann kemur út, er ekki hugsað fyrir því að alþm. hafi tækifæri til að kynna sér þessa skattheimtu sem þeir eiga að fara að samþykkja. Þeirri hugmynd hefur í raun og veru verið hreyft, að ég held, að fjárhags- og viðskiptanefndir beggja deilda ættu að fara til nágrannalandanna og kynna sér hvernig þessi virðisaukaskattur er í framkvæmd, kynna sér hvort þetta er eins mikil skriffinnska. Ég held að þm. beri skylda til þess, ekki að gleypa bara það sem þeim er rétt hrátt ofan úr fjmrn. Ég held að þetta sé mjög brýnt mál.

Við afgreiðslu fjárlaganna í fyrra lögðum við Alþýðuflokksmenn fram fjölmargar tillögur. Að hverju beindust þær? Þær beindust m.a. að því að draga úr erlendri skuldasöfnun. Þær beindust að því að hrista upp í þessu staðnaða kerfi. Þær beindust að því að auka sjálfstæði ýmissa stofnana ríkisins, láta þær standa undir sér með því að láta þá sem greiða fyrir þjónustuna greiða það sem þjónustan kostar. Þessar tillögur okkar beindust enn fremur að því að vinna gegn síþenslu og sjálfvirkni þessa kerfis á ótal sviðum og þær beindust m.a. gegn velferðarkerfi fyrirtækjanna sem Sjálfstfl. hefur verið afar duglegur að koma upp og sem m.a. er fjallað um í grein eftir dr. Finn Geirsson um fjárlagafrv. 1986. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar hér er komið sögu er eftir að gera grein fyrir tæplega 11 milljörðum kr. eða þriðjungi af fyrirhuguðum ríkisútgjöldum. Mest af þessu fé er ráðstafað af atvinnuvegaráðuneytunum til að styrkja hina og þessa hópa. Þetta gerist í formi beinna framlaga, niðurgreiðslna á vöruverði og lánum, ríkisábyrgð á lánum sem skuldari stendur ekki undir og vaxta af erlendum lánum vegna fjárfestinga sem oft hafa að skila nægilegum arði til að standa sjálfar undir þeim.“

Í tillögum okkar voru að ýmsu leyti farnar nýjar leiðir. Kannske að skera svolítið af bákninu. „Báknið burt“, sögðu einhverjir menn einhvern tíma, en ég sé ekki betur en þeir sem eru í ríkisstjórninni núna segi aðallega: Báknið „kjurt“. A.m.k. vottar lítið fyrir öðru. Ég get tekið undir eitt og annað af því sem hæstv. ráðh. sagði um ríkið. Af hverju á ríkið t.d. að reka graskögglaverksmiðju? Ég sé það ekki. En ég get hins vegar ekki tekið undir með honum þegar hann talar um að það beri að selja þau ríkisfyrirtæki sem skila hagnaði. Af hverju má ríkið ekki græða peninga á slíkum rekstri? Þetta er þessi margfrægi sósíalismi myrkrahöfðingjans, andskotans, sem Sjálfstfl. hefur tileinkað sér svo rækilega að það ber að þjóðnýta tapið, en gróðann skulu einstaklingarnir fá að hirða þegar um hann er að ræða.

Við munum flytja ýmsar brtt. við þetta frv. í sama anda og við gerðum áður, þ.e. tillögur sem miða að raunverulegum breytingum. Okkur er ljóst að tillögur um að leggja niður stofnanir eða flytja til starfsemi þurfa meiri aðdraganda en þá tvo mánuði sem nú eru til áramóta. Við leggjum þess vegna áherslu á að fjárlagavinnan sé unnin miklu lengra fram í tímann og reynt að gera áætlanir í víðara samhengi. Eins og lagaskylda býður er að finna reyndar í fjárlagafrv. kafla um horfur í ríkisfjármálum 1988-1990, en hann er heldur rýr og magur, verður að segjast eins og er, ekkert nýtt, engar breytingar því að ekki verður hæstv. fjmrh. sakaður um sérstaka nýjungagirni í þessu frv. a.m.k. Þetta frv. gæti svo sem verið frá hvaða fyrirrennara hans sem væri, svona næstum því. Það vottar hvergi fyrir nýjum hugmyndum. En þessi kafli frv. eða athugasemdanna, sem fjallar um þau ár sem fram undan eru, gæti verið allt öðruvísi, hæstv. fjmrh., ef það vottaði fyrir nýjum hugsunum þarna. Það mætti t.d. hugsa sér að taka einstaka og mikilvæga þætti ríkisfjármálanna og gera þeim skil svo sem hægt er nokkur ár fram í tímann og þá með það að sjónarmiði að gera ríkisreksturinn hagkvæmari og bæta þjónustuna við þegna íslenska ríkisins. Það mætti t.d. hugsa sér að líta þannig á í þessu sambandi skattakerfið, eins og ég hef vikið að, fyrirtæki hins opinbera, opinber þjónustufyrirtæki sem þjóna atvinnuvegunum, landbúnaðarkerfið, og þá á ég ekki síst við fjármálaþætti kerfisins, fármögnun almannatrygginga og sjúkratryggingar.

Herra forseti. Ég mun senn ljúka máli mínu. Það eru margir sem hafa bent á að þetta fjárlagafrv. kunni að vera hættulegt þenslufrv. sem stefni árangri í hættu. Þetta frv. er mjög ófullkomið. Það vantar ótal margt í það eins og ég þykist hafa bent á. Það er gloppótt og götótt að því er varðar gjaldahliðina. Niðurstöðutölur frv. tekna- og gjaldamegin eins og það liggur nú fyrir eru hrein markleysa og þær eiga eftir að taka miklum breytingum. Ég minni á að íslenskur almenningur hefur misst trúna á skattkerfinu. Það er ranglátt og það er ónothæft. Ég hef gert grein fyrir afstöðu okkar til þess í sambandi við nýtt, réttlátara og einfaldara skattkerfi. Það hlýtur að vera meginverkefni næstu ríkisstjórnar að beita sér fyrir slíkum umbótum og við Alþýðuflokksmenn höfum ákveðnar, raunhæfar tillögur að gera í þeim efnum. Þetta er kannske það mál sem kosið verður um næst. Svo segir mér hugur um. Það er að umbylta skattkerfinu og auka réttlætið í þessu þjóðfélagi.

En þó að þetta frv. sé þenslufrv. og kannske hættulegt og allt annars eðlis en hæstv. fjmrh. lætur í veðri vaka er þetta líka íhaldsfrv. vegna þess að það vottar ekki fyrir neinum nýjum hugmyndum. Enda þótt hæstv. fjmrh. sé ungur maður ber frv. þess ekki merki nema síður sé. Þar er ekkert nýtt að finna. Hverjar eru t.d. hugmyndir Sjálfstfl. um breytingar á skattkerfinu? Þær er ekki að finna í þessu frv. Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessa umræðu frekar. Ég þykist hafa bent á ýmsa ágalla þessa frv. án þess að fara um of niður í einstök smáatriði. Það væri vissulega fróðlegt að gera að umtalsefni hér ýmsar aukafjárveitingar á þeim langa lista sem fylgir frv., það munu væntanlega aðrir gera það á eftir, og þær fullyrðingar hæstv. ráðh. að það séu kjarasamningarnir sem skapað hafa greiðsluhallann. Áttu aukafjárveitingarnar engan þátt í því, alls engan? Því er vísað á bug að kjarasamningarnir hafi verið meginástæða þess að það er greiðsluhalli á ríkissjóði. Það er bara yfirskinsástæða sem hæstv. fjmrh. lætur sér sæma að slá fram í þessum umræðum.

Ég hef, herra forseti, freistað þess að ræða um meginefni þessa frv. að svo miklu leyti sem það er til staðar, en ég legg áherslu á að þetta frv. er allt öðruvísi og það er allt annars eðlis og innihald þess er í rauninni allt annað en hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni í dag og ég þykist hafa leitt rök að því máli mínu.