16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4268 í B-deild Alþingistíðinda. (3950)

346. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er a.m.k. rétt til getið að því er mig varðar að ég mun ekki styðja till. hv. 7. þm. Reykv. En það var ekki þess vegna sem ég kom í stólinn heldur af hinni ástæðunni að ég hef fréttir af því að fyrir liggi hjá Þjóðhagsstofnun núna úttekt á áhrifum skattakerfisins í heild á einstaka tekjuhópa. Staðgreiðslufrumvörpin eru farin í gegnum 2. umr., 3. umr. er eftir, og hér erum við að fjalla um hluta af þessu staðgreiðslumáli sem er frv. um tekjustofna sveitarfélaga. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að óska eftir því hér og nú við hæstv. félmrh. og fjmrh., sem eru húsbændur þessara frv. sem við erum að afgreiða, að við fáum þær upplýsingar um áhrif skattkerfisbreytinganna á mismunandi tekjuhópa sem þegar liggja fyrir af hálfu Þjóðhagsstofnunar.

Auðvitað er það svo, bæði varðandi tekjustofna sveitarfélaga og ríkisins, að menn eru að róa út í nokkra óvissu. Það er alveg augljóst mál að það verður að taka þessi mál til endurskoðunar og athugunar þegar álagningunni er lokið í sumar. Um það er samkomulag. Það er einnig samkomulag um að það verði til nefnd á vegum þingflokkanna sem fari yfir þessi mál. En allt um það er óhjákvæmilegt engu að síður að upplýsingar sem opinberar stofnanir hafa tekið saman um mál af þessum toga verði lagðar fram áður en málið fer út úr þessari deild. Ég óska eftir því við hæstv. forsrh. og félmrh. að þeir hlutist til um að við fáum þessi gögn í hendur.

Í annan stað varðandi sveitarfélögin vil ég segja að það er auðvitað hárrétt hjá hv. 7. þm. Reykv. að ef það væri svo að sveitarfélögin mundu leggja á eftir þessu nýja kerfi 7% er það hækkun. Raunútsvar hjá sveitarfélögunum á síðasta ári var yfirleitt innan við 7%. Það er einnig ljóst að ef sveitarfélögin nýttu sér 7 5% væru þau að hækka. Það er alveg klárt mál. Hins vegar hafa verið í lögunum heimildir um hærri tölur en sveitarfélögin hafa notað. Mér finnst ekki óeðlilegt að hafa inni 7,5% sem þak í þessu efni og bendi reyndar á að menn hafa verið uppi með kröfur um það að hálfu sveitarfélaganna að sveitarfélögin hafi algert frelsi í þessu efni og geti farið upp í hvað sem er.

Ég hygg að það sé hins vegar kjarni þessa máls að þegar samið var um skattkerfisbreytinguna þá sögðu menn sem svo: Skattbyrðin á að vera óbreytt. Hún á ekki að hækka. Hún á ekki að þyngjast. Ég held að til þess að sjá það dæmi verðum við að fá útreikninga Þjóðhagsstofnunar, sem eru tilbúnir samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér, strax í dag og áður en málið fer út úr hv. deild.