16.03.1987
Neðri deild: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4270 í B-deild Alþingistíðinda. (3952)

346. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þessari umræðu benda á að aðstæður sveitarfélaga í landinu í sambandi við tekjuöflun og tekjuöflunarmöguleika eru afar misjafnar. Ég hef verið hlynntur því að svigrúm og sjálfræði sveitarfélaganna til álagningar sé nokkuð rúmt. Ég lít talsvert öðrum augum á útsvarsálagningu en skattheimtu af ríkisins hálfu, þ. e. að möguleikar almennings til að hafa áhrif á kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum í sambandi við ákvörðun útsvars eru mun meiri eða hafa verið það eins og að þeim málum hefur verið staðið og mér finnst eðlilegt að viðhalda þarna ákveðnum sveigjanleika í sambandi við álagninguna. Ég teldi það fráleitt í sambandi við núverandi stöðu og þá miklu óvissu sem ríkir um það hvernig þessi álagning kemur út að fara að setja þak á útsvarsálagninguna eitthvað lægra en hér er verið að leggja til með 7,5% og það sé eðlilegt að skoða þau mál þá frekar eins og hér hefur verið sagt í framhaldi af álagningu í ljósi þess hvað út kemur. Ég vil sem sagt að það sé þarna ákveðið svigrúm sem sveitarfélögin hafi í sambandi við sína tekjuöflun og bendi á það að möguleikar almennings til aðhalds í þeim efnum eru meiri en þegar um skattheimtu af ríkisins hálfu er að ræða.

Í þessu samhengi verðum við að hafa í huga þá miklu skerðingu sem ríkið og núverandi ríkisstjórn og lið hennar hér á Alþingi hefur staðið fyrir í sambandi við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þar sem tekjur sveitarfélaganna hafa verið stórlega skertar aftur og aftur með skerðingu á Jöfnunarsjóði og munar það verulegum upphæðum eins og er að koma fram f sambandi við svör frá hæstv. félmrh. varðandi skerðingu gagnvart einstökum sveitarfélögum í einstökum kjördæmum. Er sannarlega eitt af verri verkum ríkisstjórnarinnar sú skerðing sem þar hefur gengið yfir í sambandi við Jöfnunarsjóðinn.

Það er svo önnur saga að það hefði verið ástæða til að endurskoða lög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og gera hann virkara jöfnunartæki en hann nú er. Á því væri veruleg þörf því eins og ég hef vikið að er aðstaða sveitarfélaganna til tekjuöflunar afar ólík í landinu og því mjög eðlilegt að það sé virkt tæki til tekjuöflunar. Þar þyrfti að endurskoða reglur um Jöfnunarsjóðinn fyrir utan að hætta þeirri óhæfu, sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir, að skerða þennan lögboðna tekjustofn sveitarfélaga með þeim hætti sem hún hefur gert.