16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4272 í B-deild Alþingistíðinda. (3958)

119. mál, umferðarlög

Frsm. allshn. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á frv. svo sem það er komið frá Ed. til þessarar deildar fyrr á þessum degi og jafnframt vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á till. allshn. við 32. gr. frv., en hún lýtur að ljósatíma og ljósanotkun, þá hefur reynst nauðsynlegt að flytja brtt. á þskj. 943 sem allshn. flytur og skýrir sig raunar sjálf. 1. mgr. 32. gr. orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

Við akstur bifreiðar og bifhjóls skulu lögboðin ljós jafnan vera tendruð.

Hér er bætt inn „bifhjóls“, en síðan er nauðsynlegt að skýrt komi fram að því er önnur ökutæki varðar hvernig málum er háttað og því er 2. mgr. svohljóðandi:

„Við akstur annarra ökutækja skulu lögboðin ljós vera tendruð í rökkri, myrkri eða ljósaskiptum og þegar birta er ófullnægjandi vegna veðurs eða af öðrum ástæðum, hvort heldur er til að ökumaður sjái nægilega fram á veginn eða til að aðrir vegfarendur sjái ökutækið. Ökutæki sem eigi skal búið ljósum skal þá auðkennt samkvæmt reglum sem dómsmálaráðherra setur.“

Meginákvæðið tekur aðeins til bifreiðar og bifhjóls og því er framhaldið, þ.e. 2. mgr., nauðsynlegt í þessu efni.

Í öðru lagi flytur allshn. brtt. á þskj. 960. Sú brtt. varðar það að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða í niðurlag frv., svohljóðandi: Lög þessi skal endurskoða fyrir árslok 1991.

Fulltrúar allshn. Ed. og Nd. hafa ræðst við varðandi þær mjög mörgu brtt. sem samþykktar voru í þessari deild fyrr í dag. Það er ljóst að ef gerðar verða brtt. á þeim brtt. sem hér voru samþykktar, annaðhvort þeim breytt eða þær felldar í Ed., er framgangi þessa máls stefnt í nokkra tvísýnu. Í ljósi þess hefur sú ósk komið fram að inn í frv. komi bráðabirgðaákvæði um endurskoðun þessara laga eftir tiltekinn tíma, eftir þrjú ár. Mönnum sýnist að það sé eðlileg og sanngjörn ósk. Þá er hægt að líta á málin í ljósi fenginnar reynslu og koma fram þeim breytingum sem menn þá vilja þó svo ekki eigi sér stað frekari breytingar á frv. það sem eftir er þessa þingtíma.