30.10.1986
Sameinað þing: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

1. mál, fjárlög 1987

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í umræðum um stefnuræðu forsrh. fyrir tveimur vikum vék ég að nokkrum atriðum í fjárlagafrv. sem þá var nýkomið í hendur okkar og svo gerðu raunar fleiri í þeirri umræðu. Er það síst að undra þar sem það er fyrst og fremst í fjárlögum sem stefna hverrar ríkisstjórnar birtist í reynd. Peningar eru því miður svo oft afl þeirra hluta sem gera skal og það nægir ekki að lýsa stefnunni með orðum. Það er framkvæmdin sem máli skiptir.

Þetta frv. til fjárlaga er nú til 1. umr. hér í þinginu, en utan þings hefur það fengið mikla umfjöllun, kannske meiri en oft áður. Sú umfjöllun minnir okkur rækilega á þá staðreynd að sínum augum lítur hver á silfrið eins og máltækið segir. Í þessu tilviki er það fjárlagasilfrið.

Deilur hæstv. fjmrh. og framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins hafa kannske vakið mesta athygli, sérstaklega harkaleg viðbrögð ráðherrans. Vitaskuld þykir honum óþægilegt þegar dregið er svo rækilega fram í dagsljósið hvernig stefna hans og ríkisstjórnarinnar hefur verið í reynd og verst er auðvitað að fá þessar einkunnir frá samherjunum í Vinnuveitendasambandinu. Stjórnarandstæðinga og verkalýðsleiðtoga má alltaf afgreiða með því að ekkert mark sé á þeim takandi, þeir þurfi hvort eð er alltaf að finna að öllu. En samherjana í VSÍ er ekki hægt að afgreiða á þann hátt. Þess vegna bregst hæstv. fjmrh. við hart og talar um barnaskap eða vísvitandi blekkingar. Auðvitað er alveg jafnrétt að bera hækkun skatttekna ríkissjóðs saman við hækkun framfærsluvísitölu eða byggingarvísitölu og að miða við þróun launatekna. Menn verða aðeins að hafa það á hreinu við hvað er miðað.

Ég er ansi hrædd um að almenningi þyki þessar deilur heldur fáfengilegar og koma sér harla lítið við. Það sem skiptir skattgreiðendur máli er að finna það hjá sjálfum sér að hagur þeirra hafi batnað og þeir vilja sjá þess glöggan vott að vel sé með fé þeirra farið.

Fyrir rúmri viku hélt starfsmannafélag Straumsvíkur hressilegan fund um skattamál með fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Ekki var á fundarmönnum þar að heyra að þeir hefðu orðið varir við hækkaðan kaupmátt atvinnutekna og ráðstöfunartekna heimilanna, eins og það er orðað, hvað þá að tekjuskattslækkunin margrómaða hefði komið þeim til góða. Hvorki talnarunur né hagfræðihugtök geta sannfært þá um að þeir séu betur settir nú en fyrir þremur árum. Þeim finnst eins og svo mörgum öðrum sem góðærið hafi farið fram hjá þeirra garði og skiptir þá engu máli hvort stuðst er við útlistanir Vinnuveitendasambandsins, hæstv. fjmrh. eða einhverra annarra. Þessir menn og annað almennt launafólk gerir þá kröfu til stjórnenda landsins að þeir reyni að reka þjóðarbúið af einhverju viti, af ábyrgð og sanngirni.

Vonbrigði þess eru margvísleg og er því þó hreint ekki alltaf kunnugt um allar þær raunir sem skattpening þess hendir, enda erfitt fyrir Pétur og Pál að fylgjast með því. Það er t.d. ekkert auðvelt að finna út úr því í hvað aukafjárveitingar hafa farið það sem af er þessu ári eða öllu heldur fyrstu níu mánuði ársins. Að vísu hefur það verið stefna hæstv. fjmrh. síðustu þrjú árin að semja og samþykkja raunhæf fjárlög og helst afnema aukafjárveitingar. Þær eru nú orðnar í ár einn milljarður og 600 millj. kr. svo erfiðlega gengur með þá merku stefnu.

Á bls. 362-368 í frv. er listi yfir aukafjárveitingar frá upphafi árs til septemberloka og með nógu mikilli þolinmæði og flettingum fram og til baka má komast að ýmsu forvitnilegu. T.d. má finna á bls. 364 að veittar hafa verið 9 millj. 100 þús. kr. í iðnaðarrannsóknir en með lestri skýringa á bls. 367 upplýsist að þessar iðnaðarrannsóknir eru reyndar samningamakkið við Rio Tinto Zink. Það hefur sem sagt kostað okkur 9 millj. 100 þús. kr. á þessu ári eða svipaða upphæð og ætluð er til þróunarverkefna og iðnráðgjafa í landinu á næsta ári.

Við sjáum líka í þessum lista að Handknattleikssambandið hefur fengið 2,5 millj. í aukafjárveitingu vegna heimsmeistaramótsins, til viðbótar við sérstakt framlag á fjárlögum og til viðbótar við aukafjárveitingar á s.l. ári. Við sjáum að jarðabætur umfram fjárlagaáætlun hafa kostað okkur 35 millj. kr. Við sjáum að innréttingar á nýju húsnæði félmrn. og húsgögn í það hafa kostað ríkissjóð 11,4 millj. kr. Við sjáum að bókaútgáfan Skálholt hefur fengið tæpar 7 millj. kr. Eitt stykki ráðherrabíll hefur verið keyptur á rúmlega 1 millj. kr. og verður ekki séð hvort eldri bíll hefur verið látinn ganga upp í. Og svona mætti áfram telja.

Að sjálfsögðu eru margar aukafjárveitingar fyllilega réttlætanlegar og óhjákvæmilegar en oft orka þær tvímælis og reynslan undanfarin ár sýnir að allt talið um raunhæf fjárlög og litlar, helst engar aukafjárveitingar hefur reynst marklítið.

Við afgreiðslu fjárlaga í desember s.l. var allt kapp lagt á að sýna tekjuafgang og öllum er nú kunnugt hvernig þær tölur hafa sveiflast til. Samkvæmt því frv. sem hér er til umræðu er reiknað með hálfum öðrum milljarði í halla á næsta ári og er þá deginum ljósara að sá halli er vanáætlaður bæði hvað varðar launaliði og ýmsa aðra liði. Þrátt fyrir þetta allt saman sér ríkisstjórnin engin ráð til að afla tekna á móti eða auka tekjur sínar yfirleitt nema það eitt að leggja gjald á innfluttar olíuvörur. Er það réttlætt með því að ríkissjóður hafi í engu notið lækkunar olíuverðs á undanförnum mánuðum og sé nú röðin komin að honum að njóta góðærisins af þessum sökum. Slík fullyrðing er að sjálfsögðu röng. Ríkissjóður hefur sparað umtalsverðar fjárhæðir á lækkun olíu- og bensínverðs sem hefur skilað sér í lægri kostnaði við rekstur bíla á vegum ríkisins, rekstur flugvalla um allt land, skiparekstur ríkisins og fleira. Ríkissjóður hefur því sannarlega hagnast á olíuverðslækkuninni eins og aðrir aðilar.

Ég tel þessa álagningu varhugaverða, að ekki sé meira sagt, þar sem hér er ráðist að einni af mikilvægustu forsendunum fyrir því góðæri sem um er rætt, og sumir hafa reyndar orðið meira varir við en aðrir. Þetta er vitanlega ein meginástæðan, ásamt góðum sjávarafla og lækkun vaxta, fyrir því að mörg fyrirtæki í sjávarútvegi hafa verulega bætt sinn hag. Nú á að stefna þeim árangri í voða og virðast ráðherrar ekki sjá neitt rangt við það. Hins vegar mega þeir ekki heyra minnst á skattlagningu stóreigna, arðs af verðbréfum, né að íþyngja megi bönkum og verslunarfyrirtækjum sem mest og best hafa notið góðærisins og stefnu ríkisstjórnarinnar frá upphafi. Þeir halda að sjálfsögðu áfram að bruðla með fé í flugstöðvarbygginguna á Keflavíkurflugvelli og vafasamar fjárfestingar í húsbyggingum, innréttingum og öðrum framkvæmdum og þeir hafa gefist upp við að halda rekstrarútgjöldum ríkisins í skefjum.

Þetta er sú mynd sem við blasir í góðærinu og menn skulu ekki gleyma því að við erum ekki aðeins að vísa hallanum í ár til framtíðarlausnar heldur er hann til viðbótar við halla undanfarinna ára svo að nú er það dæmi komið í um 6 milljarða í mínus. Það er heldur ófögur mynd og ófagur vitnisburður um störf og stefnu núverandi ríkisstjórnar.

Það sem fyrst og fremst vekur athygli og stingur í augu við lestur athugasemda við 4. gr. fjárlagafrv. er sú hækkun sem víðast verður á yfirstjórn ráðuneyta og ríkisstofnana. Skýringarnar, sem gefnar eru, hljóða víða á þann veg að hækkunin sé „vegna aukinnar starfsemi og fjölgunar starfsmanna“. „Hækkunin skýrist af aukinni yfirvinnu“. Áætlað sé fyrir „aukningu yfirvinnu í samræmi við reynslu undanfarinna ára“. „Yfirvinna hefur reynst meiri en gert hefur verið ráð fyrir“. „Yfirvinna hefur verið vanáætluð undanfarin ár“ o.s.frv., o.s.frv. Í því tilviki sem síðasta tilvitnunin á við er um 141% hækkun yfirvinnu að ræða. Af þessu mætti draga þá áætlun að um mjög svo aukin umsvif væri að ræða í starfsemi ráðuneyta og ríkisstofnana. Og vissulega er um aukna starfsemi að ræða í sumum tilvikum og víða óhjákvæmilega, þótt önnur tilvik stingi í augu, t.d. stórkostleg útþensla í starfsemi ríkislögmanns, sem Alþingi var þó fullvissað um að væri eingöngu tilfærslumál, þegar lögin um embættið voru samþykkt árið 1985. En að drjúgum hluta er hér í raun og veru um viðurkenningu staðreynda að ræða, þeirra raunalegu staðreynda að sparnaðurinn sem átti að nást á þessu ári með aðhaldi í mannaráðningum og yfirvinnu ríkisstarfsmanna, svo og með lækkun ferða- og risnukostnaðar, náðist alls ekki og raunar er mér til efs að hæstv. fjmrh. og starfsmenn hans hafi trúað því sjálfir að svo yrði. Þessar áætlanir voru settar fram í fjárlagafrv. á síðasta ári og staðfestar í fjárlögum til þess eins, að mínu viti, að fá snyrtilegri niðurstöðutölur.

Við minnumst þess að í fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir 130 millj. kr. sparnaði með þessum hætti, þ.e. samdrætti í mannahaldi og minnkun yfirvinnu og enn fremur 120 millj. kr. niðurskurði á ferða- og risnukostnaði. Ég spurðist fyrir um framkvæmd þessara áætlana á þinginu í apríl s.l. og var augljóst af svörum hæstv. fjmrh. að grunur minn var réttur. Þessar áætlanir voru sýndarmennska til þess að fá fram hagstæðari útkomu. Þetta voru svo engan veginn einu brögðin sem beitt var til þess að fá hugnanlegri niðurstöðutölur. Það átti líka að spara 150 millj. kr. í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins, en engin svör fengust við spurningum um hvernig menn hygðust ná því marki. Var þó ríkt eftir því gengið, enda óttuðust margir að nú ætti að ganga í vasa sjúkra, öryrkja og aldraðra. Svörin fengust aldrei og að öllum líkindum hefur verið hætt við áform í þessa veru eftir samningana í febrúar og ráðstafanirnar í kjölfar þeirra. Að sjálfsögðu kemur ekki til mála að ná fram sparnaði í starfsemi Tryggingastofnunarinnar með hækkun þjónustugjalda en annað mál er hvort ekki mætti spara umtalsverðar upphæðir í lyfjakostnaði, sem er gríðarlega stór liður í útgjöldum ríkisins.

Í svari hæstv. fjmrh. við fsp. minni í Sþ. 15. apríl s.l. kom fram að starfshópur innan heilbr.- og trmrn. ynni að athugun á lyfjakostnaði og mótun tillagna til að ná þeim kostnaði niður og er ástæða til að spyrja hvað því starfi líður. Ég beini því þeirri fsp. til hæstv. ráðherra hvað líði vinnu og tillögugerð þess starfshóps sem skipaður var til að vinna þetta verk.

Þá minnumst við þess að rétt eina ferðina var Lánasjóði ísl. námsmanna skammtaður þröngur kostur á fjárlögum þessa árs og gat sú fjárhæð engan veginn staðist nema ætlunin væri að skera lánveitingar til námsmanna niður um 30%, sem reyndar var víst ætlunin, en góðu heilli var komið í veg fyrir.

Ég rifja þetta hér upp vegna þess að hæstv. fjmrh. og aðrir stjórnarliðar tala gjarnan um halla ríkissjóðs á þessu ári eins og eitthvert furðuverk, sem hafi komið þeim á óvart, og reyna að láta sem svo að þessi greiðsluhalli sé fyrst og fremst tilkominn vegna þeirra ráðstafana sem fylgdu í kjölfar samninganna í febrúar. Stór hluti þessa halla var í raun og veru fyrirsjáanlegur við afgreiðslu fjárlaga í desember s.l.

Fulltrúar þingflokka stjórnarandstöðunnar vöruðu eindregið við samþykkt þeirra laga eins og þau lágu þá fyrir. Það var mat okkar að samþykkt þeirra væri fullkomið ábyrgðarleysi og við lýstum okkur fús til samstarfs um algjöra endurskoðun þess dæmis. Við bentum á ýmsa enda sem óhnýttir voru og á nokkra þeirra hef ég nú minnt. Niðurstöðutölur þessara laga fengu engan veginn staðist og var það stutt margvíslegum rökum í umræðum hér í þingsölum. Á það vildu stjórnarliðar vitanlega ekki hlusta og svo mikil var nú vandvirknin að t.d. launaliður Ríkisspítalanna misreiknaðist um heilar 50 millj. kr. og er þá naumast að undra þótt sá grunur læðist að að ekki sé alltaf rétt reiknað, stundum vísvitandi, stundum óvart.

Eitt er það sem vekur athygli í skýringum vegna hækkunar á rekstrarkostnaði ráðuneyta og ríkisstofnana og það er að víða er talað um aukinn kostnað vegna tölvuvæðingar. Er þá ekki nóg með að vitanlega er stofnkostnaður töluverður, heldur virðist tölvuvæðingin ekki leiða til þeirrar hagræðingar í rekstri og sparnaðar í mannahaldi sem mátt hefði vænta. Nú má ekki skilja orð mín svo að ég sé andvíg því að ráðuneyti og ríkisstofnanir taki tölvutæknina í þjónustu sína, enda hljótum við að vonast til þess að hún verði til þess að létta störfin og bæta þjónustu við almenning. En ég hef grun um að almennt haldi menn að aukin tölvunotkun hljóti að leiða til aukinna afkasta og meiri framleiðni á hvern starfsmann. Sú virðist alls ekki raunin og áreiðanlega er oft um að kenna ónógum undirbúningi og því að tölvuvæðingin hefur verið gerð að markmiði í stað þess að hún hafi verið notuð til þess að ná settu markmiði.

Í 6. tölublaði tímaritsins Tölvumál, sem kom út í september s.l., er fjallað um þessi mál og m.a. skýrt frá bandarískri könnun sem leiddi það í ljós að framleiðni skrifstofumanna í Bandaríkjunum hefði ekkert aukist í tvo áratugi þrátt fyrir fjárfestingu bandarískra fyrirtækja í tölvum og tölvukerfum fyrir þúsundir milljarða króna. Og fátt bendir til að íslensk fyrirtæki geti státað af betri árangri, varla ríkisstofnanir heldur. Ýmsar ástæður eru tilgreindar sem séu þessa valdandi og m.a. sú að óarðbær vinna hafi aukist, m.a. ýmiss konar skýrslugerð. Niðurlag greinarinnar í Tölvumálum hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur tölvuvæðing hér á landi gengið yfir eins og um tískufyrirbæri væri að ræða. Umræða um tölvur, tölvutækni og upplýsingar hefur verið afar einhliða. Hún hefur einskorðast við lofsöng um hina nýja tækni og þá ótæmandi möguleika sem menn telja blasa við okkur á þessu sviði. Það er löngu tímabært að breyta umræðunni og horfast í augu við raunveruleikann. Ástæða er til að ætla að fjárfesting okkar í tölvum hafi ekki skilað meiri árangri en gerst hefur í Bandaríkjunum og hér hefur verið lýst. Á síðustu misserum hafa mörg fyrirtæki hér á landi orðið gjaldþrota. Flest þeirra hafa þó verið sæmilega tölvuvædd á okkar mælikvarða. Mörg önnur hafa lent í hinum mestu erfiðleikum með að laga rekstur sinn að breyttum efnahagsforsendum. Hröð og góð upplýsingamiðlun, stuttar boðleiðir og sveigjanleg stjórnun eru kostir tölvutækninnar eins og fyrr segir. Þeir hefðu átt að auðvelda fyrirtækjunum þá aðlögun sem var nauðsynleg þegar rekstrarforsendur breyttust. Einhver misbrestur hefur orðið á því. Allur dýrðaróður um dásemdir tölvutækninnar hefur því falskan tón þar til menn hafa lært að nota hana á réttan hátt. Tölvan er í raun oft einungis notuð eins og um nýmóðins leikfang sé að ræða sem forráðamenn fyrirtækja stilla upp á skrifstofum sínum meira til skrauts en gagns.“

Ég sé ástæðu til þess, herra forseti, að benda á þessa grein og beina því til forráðamanna ráðuneyta og ríkisstofnana að fara sér ekki óðslega í þessum efnum. Það kostar umtalsverða fjármuni að taka þessa tækni í þjónustu sína og ef menn gera það ekki með ákveðin markmið í huga er hér um hreina sóun að ræða.

Það eru reyndar fjölmargir aðrir liðir í ríkisbúskapnum sem áreiðanlega eru þjóðinni miklu dýrari en þeir þyrftu að vera. Vil ég t.d. nefna mannvirkjagerð af ýmsu tagi. Manni blöskrar oft vitleysan og sóunin sem veður uppi í byggingum hins opinbera og stundum er eins og um náttúrulögmál sé að ræða sem enginn þykist geta ráðið við. Er því ekki að neita að nöfn arkitekta vekja misjafnlega alúðleg viðbrögð meðal manna í fjvn. eftir að hafa ferðast um landið og séð minnismerkin sem sumir þeirra reisa sér á kostnað skattborgaranna og standa svo þversum í veginum fyrir endurbótum á hriplekum húsum eða stórskemmdum af því að ekki hefur mátt verja þau fyrir veðrun. Auk þess blöskrar manni ábyrgðarleysið í ráðuneytunum að hleypa fámennum sveitarfélögum af stað með framkvæmdir sem augljóslega eru þeim ofviða. Almennir húsbyggjendur hafa verið sakaðir um að hafa ekki áttað sig nógu fljótt á breyttum aðstæðum og haldið áfram að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir í þeirri trú að skuldirnar mundu eyðast af sjálfu sér, en það er engu líkara en sama villan hafi orðið innlyksa í ráðuneytunum. Á þessu sviði er mikið verk óunnið og mætti fara miklu betur með almenningsfé heldur en gert hefur verið, vanda betur til undirbúnings og sjá fyrir endann áður en hafist er handa.

Herra forseti. Liðirnir í 4. gr. frv. eru mjög margir og vissulega ástæða til að fjalla um þá flesta. Til þess er varla tími nú en ég ætla að fara nokkrum orðum um fáeina þeirra.

Er þá fyrst að nefna lið 803 undir menntmrn., dagvistarheimili, stofnkostnaður. Í athugasemdum á bls. 235 segir aðeins, með leyfi forseta: „Framlag er 20 millj. kr. en var 39,2 millj. kr. í fjárlögum 1986.“

Og ekki orð um það meira. Við fengum hins vegar staðfestingu á skoðunum hæstv. fjmrh. í ræðu hans hér áðan. Má ég bara rétt vekja athygli hv. þm. á einum lið til samanburðar, ef það mætti verða til að opna augu einhverra fyrir fáránleika þessa máls. Í lið 252 undir dóms- og kirkjumálaráðuneyti er Bifreiðaeftirlit ríkisins. Það fær í stofnkostnað 20 millj. 280 þús. kr., eða 280 þús. kr. meira en ættaðar eru sem framlag ríkisins til bygginga dagvistarheimila á öllu landinu, og af þessari upphæð eru tæpar 18 millj. kr. ætlaðar til innréttinga og tækjakaupa í einu húsi, þ.e. í leiguhúsnæði í Bíldshöfða 8.

Fleira mætti nefna til viðmiðunar, svo sem 95 millj. kr. stofnkostnað Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Er það ekki sísta dæmið um fáránleika þessarar forgangsröðunar.

Ég veit eiginlega ekki hvaða orð á að hafa um svona lagað. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Menn geta vitanlega haft þá skoðun að sveitarfélögin eigi að sjá um byggingar dagvistarheimila eins og hæstv. fjmrh. talaði um hér áðan. En slíkt fyrirkomulag kemst ekki á með því að skera fyrirvaralaust niður framlög á þennan hátt, á sama tíma og klipið er af tekjum sveitarfélaganna og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sviptur tekjum rétt eina ferðina, að þessu sinni rúmlega 300 millj. kr. Þessi liður á fjárlögum, þ.e. stofnkostnaður dagheimila, hefur verið sveltur í mörg ár þótt nú taki fyrst steininn úr. Þetta hefur nú gerst þrátt fyrir fyrirheit þáverandi ríkisstjórnar um markvissa uppbyggingu í dagvistarmálum, sem var liður í samningum við verkalýðshreyfinguna árið 1980. Var því þá heitið að þörf fyrir dagvistarþjónustu barna yrði fullnægt á næstu 10 árum og áætlun gerð um þá uppbyggingu og er þessi tala, 20 millj. kr., u.þ.b. 1/10 af þeirri upphæð sem þyrfti til þess að mæta þeirri þörf.

Kvennalistinn hefur ítrekað reynt að koma vitinu fyrir ríkisvaldið með tillögum um hækkað framlag þess til byggingar dagvistarheimila og m.a. lagði hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir fram frv. á 107. löggjafarþingi um átak í dagvistarmálum þar sem lagt var til að lögbinda framlag til þessara mála við tiltekið hlutfall af heildarútgjöldum fjárlaga. Þetta vildu hv. þm. í Ed. ekki samþykkja, þótt þeir hefðu vissulega fögur orð um nauðsyn úrbóta, og vísuðu frv. til ríkisstjórnarinnar í trausti þess að hún mundi sjá svo um að þessum málaflokki væri sómasamlega sinnt. Hún hefur nú sýnt það rækilega að hún var ekki traustsins verð í þessu frekar en ýmsu öðru.

Ræða hv. 6. þm. Norðurl. e. hér áðan sætti vissulega tíðindum og vakti vonir um að meiri hluti Alþingis mundi sannarlega standa vörð um ýmsa félagslega þætti þessa frv., svo sem eins og þennan lið sem ég hef nú gert að umtalsefni. Og því verður ekki trúað að meiri hluti Alþingis samþykki þennan fáránlega og ósanngjarna niðurskurð þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. fjmrh. hér áðan.

Næst vil ég nefna Lánasjóð ísl. námsmanna sem fær í frv. 865 millj. kr. beint framlag úr ríkissjóði en auk þess heimild til 750 millj. kr. lántöku. Þar sem málefni Lánasjóðsins hafa margsinnis verið rædd ítarlega hér í þingsölum og útlit fyrir að fleiri tilefni séu fram undan ætla ég ekki að fara mörgum orðum um þennan lið, en hv. þm. hlýtur að vera það ljóst að með þessu er verið að leggja slíkar vaxtabyrðar á sjóðinn að engu tali tekur. Núverandi ríkisstjórn hefur alla sína tíð grafið undan sjóðnum og unnið slíkt skemmdarverk á fjárhagsgrundvelli hans að illmögulegt verður að rétta hann af. Vaxtagreiðslur sjóðsins skipta orðið hundruðum milljóna árlega og eru sívaxandi orsök þess hve sjóðnum gengur hægt að ná því marki að standa undir sér sjálfur að 84-85% eins og stefnt var að í upphafi.

Þá skulum við aðeins líta á hvernig ríkisstjórnin ætlar að standa við loforð sín gagnvart byggingarsjóðunum. Í samkomulaginu sem gert var í tengslum við samninga aðila vinnumarkaðarins í febrúar s.l. lofaði ríkisstjórnin að auka framlag ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna á þessu ári um 200 millj. kr., þ.e. úr 300 millj. kr. í 500 millj. kr. Við þetta mun ekki enn hafa verið staðið. En tækifæri gefst til að fjalla um það síðar þegar hæstv. félmrh. svarar fsp. minni varðandi það mál. Og í frv. því sem hér er til umræðu er framlag ríkis eftir sem áður miðað við 300 millj. kr. til Byggingarsjóðs verkamanna. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef verður ekki einu sinni hægt að standa við þegar veittar heimildir, hvað þá að veita nýjar og hvað þá að hægt verði að veita nokkrum sköpuðum hlut í uppbyggingu leiguíbúða eins og lögð hefur verið áhersla á af verkalýðshreyfingunni.

Þetta eru nú efndirnar. Auk þess eru undarlegar reikningskúnstir viðhafðar hvað varðar framlag sveitarfélaga, sem áætlað er að leggi fram 140 millj. kr. til verkamannabústaðakerfisins, en samkvæmt lögum og reglum á framlag sveitarfélaganna að vera 10% af heildarlánveitingum og ætti því samkvæmt niðurstöðutölum í töflu 21 á bls. 347 að reikna með 80 millj. kr. framlagi sveitarfélaganna í stað 140 eins og þar stendur.

Hvað beint framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins varðar, þá lækkar það nú úr 1300 millj. kr. í ár í 1000 millj. kr. skv. frv. Að sjálfsögðu er það rétt að heildarráðstöfunarfé sjóðsins hækkar, en vandinn er langt frá því úr sögunni. Ríkisvaldið er einfaldlega að ýta honum á undan sér eins og í fleiri greinum. Nú þegar liggja fyrir um 3000 óafgreiddar umsóknir hjá byggingarsjóðnum og má reikna með að helmingur umsækjenda sé að sækja um til byggingar í fyrsta sinn. Má því áætta að a.m.k. 2 milljarða þurfi til að mæta aðeins þeim umsóknum og er þá algjörlega eftir að fullnægja þörfinni fyrir áframhaldandi lán til þeirra sem þegar eru komnir af stað og inn í kerfið, svo og þeirra sem eru að skipta eða stækka við sig. Þetta þýðir einfaldlega langar biðraðir við dyr Húsnæðisstofnunar ríkisins eins og margir óttuðust þegar nýju lögin voru til afgreiðslu hér í vor.

Herra forseti. Eins og ég sagði hér fyrr í ræðu minni væri sannarlega ástæða til að fjalla nánar um fjölmarga liði í þessu frv. Það væri t.d. ástæða til að ræða framlög ríkisins til þróunaraðstoðar sem er óravegu frá því markmiði sem stefnt var að í samþykkt Alþingis fyrir hálfu öðru ári. Það væri svo sannarlega líka ástæða til að fjalla ítarlega um frammistöðu stjórnvalda í uppbyggingu Háskólans, svelti Námsgagnastofnunar, atlöguna að Ríkisútvarpinu, en hvað þá stofnun varðar er nú smám saman að koma í ljós allt það sem við Kvennalistakonur óttuðumst að fylgja mundi í kjölfar nýju útvarpslaganna. Tillögum okkar á sínum tíma til eflingar Ríkisútvarpinu voru valdar hinar háðulegustu athugasemdir, en það er nú sem sagt að koma í ljós að ótti okkar við afleiðingar nýju útvarpslaganna reyndist réttur.

Það væri ástæða til að fjalla um svelti Þjóðleikhússins og aumlegt framlag ríkissjóðs til menningarmála almennt að frátöldum Kvikmyndasjóði sem þó fær nú ekki fullt framlag lögum samkvæmt. Hann er þó ólíkt betur settur en ýmsir aðrir sjóðir sem sviptir eru lögboðnum framlögum. Vil ég þar sérstaklega nefna Framkvæmdasjóð fatlaðra, sem fær aðeins 52 millj. kr. af þeim 102 millj. sem honum bæri lögum samkvæmt, þrátt fyrir gífurlega þörf í þeim málaflokki.

Enn fremur vil ég nefna ferðamálin, sem fá aðeins 15 millj. kr. af lögboðnu framlagi sem ætti að vera 46 millj. 218 þús. kr. Er bersýnilegt að uppbygging í ferðaþjónustu fær þar litla stoð og lítinn skilning stjórnvalda.

Og loks bera að nefna Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem er skorinn niður um rúmar 300 millj. kr. á sama tíma og skera á niður framlög til skólaaksturs, sérkennslu, reksturs mötuneyta í grunnskólum, til uppbyggingar dagvistarheimila o.s.frv., o.s.frv. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar gagnvart landsbyggðinni og það vakti töluverða athygli hér áðan, ræða hv. 6. þm. Norðurl. e., að svo virðist sem annar stjórnarflokkanna hafi ekki vitað um allt sem hér hefur birst í þessu frv. en það er þá kannske þeim mun meiri von til þess að þeir muni standa gegn því með okkur hinum.

Það væri líka ástæða til þess að ræða stefnuna í heilbrigðis- og tryggingamálum, þar sem enn er allt of lítil áhersla lögð á forvarnarstarfið, en aukin áhersla í því efni mundi skila sér margfalt aftur í sparnaði við dýra viðgerðarþjónustu á sjúkrahúsum og í lyfjakostnaði. En hér mun ég nú láta staðar numið í þessari upptalningu.

Herra forseti. „Horfur eru bjartar“, sagði hæstv. fjmrh. í upphafsorðum sínum hér í dag og vísar þar með til þjóðhagsáætlunar sem sannarlega er með óvenjulega björtu yfirbragði að þessu sinni. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að spámenn ríkisstjórnarinnar eru alla jafna varkárir og forðast að gera of mikið úr vísbendingum um bættan hag. Óvarlegt er þó að treysta því að þeir séu jafnlélegir spámenn og fyrir tæpu ári þegar þeir spáðu miklu minni hagvexti og lakari viðskiptakjörum en raunin hefur orðið. En óhætt er þó að gera því skóna að þeir séu a.m.k. ekki of jákvæðir nú frekar en endranær og því hægt að reikna með því sem þeirra bjargföstu skoðun að enn fari aðstæður batnandi í íslenskum þjóðarbúskap. Því er þeim mun meiri ástæða til að undrast það og andmæla því að ríkisstjórnin skuli ekki sjá efni til þess að auka kaupmátt launa svo nokkru nemi á næsta ári. Þeim mun meiri ástæða er til að vekja enn og aftur athygli á hrikalegum hallarekstri á A-hluta ríkissjóðs og þungbærum vaxtagjöldum sem væru þó enn þungbærari ef ekki nyti við þeirrar vaxtalækkunar sem orðið hefur á erlendum lánum. Enn mega þeir sem landið erfa horfa fram á þungbæra skuldadaga.