16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4280 í B-deild Alþingistíðinda. (3990)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég óskaði eftir því fyrr í dag að afgreiðslu þessara mála, staðgreiðslumálanna, yrði frestað þar til nýjar upplýsingar, sem eru væntanlegar frá Þjóðhagsstofnun um áhrif skattkerfisbreytingarinnar á mismunandi tekjuhópa, liggja fyrir. Ég endurtek þá ósk mína, herra forseti, og fer þess á leit að málinu verði frestað. Ég er ekki að fara fram á það til að tefja málið á neinn hátt heldur til þess að upplýsingar þær sem til eru liggi fyrir deildinni áður en það fer héðan út.