16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4283 í B-deild Alþingistíðinda. (3995)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég óska eftir því sem formaður þeirrar nefndar sem hafði þetta mál til meðferðar að það verði ekki afgreitt frá deildinni fyrr en umbeðnar upplýsingar liggja fyrir. Kvöldið er rétt að byrja og við eigum eftir að vera hér drjúga stund. Jafnvel þó að Þjóðhagsstofnun takist ekki að koma til okkar upplýsingum í kvöld er svo sem ekki verið að stöðva framgang málsins þó að það yrði látið bíða síðari funda.

Þjóðhagsstofnun hefur ekki enn verið lögð niður, eins og reyndar sumir þm. hafa gert tillögu um, heldur er hún í fullri starfsemi og ég ber hið besta traust til þeirra starfsmanna sem þar vinna að þeir vinni hratt og örugglega. Ég er tilbúinn til þess að hafa samband við yfirmann stofnunarinnar, forsrh., þannig að hann hvetji sína menn í Þjóðhagsstofnun að vera nú snarir að koma frá sér þessum upplýsingum.

Ég legg á það áherslu að upplýsingar Þjóðhagsstofnunar eru ekkert leyndarmál fyrir ríkisstjórn. Þær eiga að vera aðgengilegar alþm. öllum, hvort sem þeir eru stuðningsmenn ríkisstjórnar eða ekki. Ég fer sem sagt fram á að þessu máli verði frestað þangað til upplýsingarnar liggja fyrir.

Umræðu frestað.