15.10.1986
Efri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

19. mál, veiting ríkisborgararéttar

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar á þskj. 19. Í 1. gr. frv. eru talin upp nöfn átta manna sem sótt hafa um íslenskan ríkisborgararétt og að mati dómsmálaráðuneytisins uppfylla þau skilyrði sem Alþingi hefur sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar á undanförnum árum. Í 2. gr. eru sömu ákvæði um breytingar og gilt hafa síðustu árin.

Við afgreiðslu laga um veitingu ríkisborgararéttar vorið 1985 var samþykkt ákvæði þess efnis að þeir, sem fengið höfðu ríkisborgararétt með lögum áður en Alþingi hvarf frá þeirri skilyrðislausu kröfu um að taka upp íslenskt nafn, gætu fengið nafni sínu breytt þannig að það samræmist þeim reglum sem settar voru um þá sem ríkisborgararétt fengu með þeim lögum. Heimild þessi gilti til ársloka 1985. Allmargir kusu að nota heimildina eða 90 manns. Eftir að heimildin rann út hefur komið í ljós að þó nokkrir höfðu ekki heyrt um hana fyrr en um seinan þrátt fyrir auglýsingar ráðuneytisins. Er nú lagt til að þessi heimild verði tekin upp að nýju og gildi í nokkra mánuði eða til septemberloka á næsta ári.

Í sambandi við afgreiðslu nafnbreytingar samkvæmt heimildinni sem veitt var árið 1985 kom fram nokkur óánægja hjá börnum þeirra sem haldið hafa ættarnafni sökum þess að þau börn sem fædd eru fyrir töku ríkisfangsins hafa fengið að halda ættarnafni föðurins, en þau sem fædd eru eftir töku ríkisfangsins verða að kenna sig við íslenskt fornafn föðurins. Ekki er hér lögð til breyting á þessu fyrirkomulagi, en ég mun láta nefnd þeirri sem málið fær til meðferðar í té erindi þessara einstaklinga.

Þá liggja fyrir ráðuneytinu nokkrar umsóknir um ríkisborgararétt sem ekki uppfylla öll skilyrði sem sett hafa verið fyrir veitingu ríkisborgararéttar og verða þær sendar viðkomandi nefnd.

Ég legg til að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.