03.11.1986
Efri deild: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

116. mál, verkfall félagsmanna í Skipstjórafélagi Íslands

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. til laga um stöðvun verkfalls félagsmanna í Skipstjórafélagi Íslands svo og félagsmanna í Sjómannafélagi Íslands sem vinna á farskipum er til staðfestingar á bráðabirgðalögum um sama efni sem gefin voru út 9. maí í vor. Ástæðan til þess að bráðabirgðalögin voru sett var sú að Skipstjórafélag Íslands hafði beitt vinnustöðvun fyrir félagsmenn sína á skipum farskipaútgerða 29. og 30. apríl, 5., 6. og 7. maí. Jafnframt stóð þá yfir ótímabundin vinnustöðvun Sjómannafélags Reykjavíkur vegna félagsmanna á farskipum frá og með 30. apríl. Allar sáttatilraunir höfðu reynst árangurslausar og engar líkur voru taldar á því að deilurnar leystust í bráð.

Verkfall hafði þá þegar valdið röskun á flutningum til og frá landinu og skapað erfiðleika í helstu útflutningsgreinum landsmanna og var óttast að varanlega yrði spillt árangri í markaðs- og sölustarfsemi íslenskra fyrirtækja bæði vestan hafs og austan.

Í grg. með bráðabirgðalögunum segir enn fremur m.a.: „S.l. vetur náði ríkisstjórnin víðtæku samkomulagi við Alþýðusamband Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna. Ríkisstjórnin telur það skyldu sína að gera það sem í hennar valdi stendur til að halda þetta samkomulag og tryggja þannig framgang þeirrar meginstefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar sem í samkomulaginu felst.“

Í maílok var svo skipaður þriggja manna gerðardómur skv. lögunum, en dómendur voru tilnefndir af Hæstarétti. Í dómnum voru Friðgeir Björnsson borgardómari, sem jafnframt var formaður, Atli Hauksson löggiltur endurskoðandi og Skúli Pálsson hæstaréttarlögmaður.

Úrskurður gerðardóms var kveðinn upp 9. ágúst og gildir til n.k. áramóta nema nýir samningar hafi áður verið gerðir á milli aðla.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.