03.11.1986
Efri deild: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

117. mál, Stofnfjársjóður fiskiskipa

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Stofnfjársjóð fiskiskipa, en frv. þetta er samið samkvæmt tillögum nefndar til að endurskoða sjóðakerfi sjávarútvegsins. Fullt samkomulag var í þeirri nefnd um efni frv. Þar áttu sæti fulltrúar sjómanna, útgerðarmanna, fiskvinnslu og fjögurra stærstu þingflokkanna á Alþingi.

Frv. er flutt til að laga ákvæði um Stofnfjársjóð að hinni nýju skipan um greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins sem tekin var upp s.l. vor með lögum nr. 24/1986, um greiðslumiðlun og skiptaverðmæti innan sjávarútvegsins. Megintilgangur þess er að auðvelda eigendum skipa, sem eru skuldlausir eða standa í skilum við Fiskveiðasjóð Íslands, að fá endurgreitt sem fyrst það fé sem berst gegnum greiðslumiðlunarkerfið inn á reikning þeirra við Stofnfjársjóð. Í mörgum greinum er frv. efnislega samhljóða núgildandi lögum um Stofnfjársjóð fiskiskipa frá 1976, með áorðnum breytingum.

Helstu nýmæli eru einkum þrjú, en þau eru eftirfarandi:

1. Hvíli ekki skuld á skipi hjá Fiskveiðasjóði er Stofnfjársjóði skylt að greiða til skipseiganda innstæðu á reikningi þess án þess að sérstaklega sé óskað eftir því. Í þessu felst m.a. að sé skip með öllu skuldlaust við Fiskveiðasjóð skuli Stofnfjársjóður ekki hlutast til um að greiða gjaldfallnar afborganir af stofnlánum skips hjá Ríkisábyrgðasjóði og Byggðastofnun. Þetta er önnur regla en gildir skv. frv. í þeim tilvikum sem skip er í skuld við Fiskveiðasjóð. Í þeim tilvikum er gert ráð fyrir að halda megi eftir innstæðu skips til greiðslu skuldar við Byggðasjóð og Ríkisábyrgðasjóð. Þetta er samkvæmt tillögum nefndarinnar, en draga má í efa að sjálfsögðu hvort sé rökrétt að gera það á þennan hátt. Það má taka til nánari athugunar í nefndinni. Komið hafa fram athugasemdir um það.

2. Sé skip með áhvílandi lán hjá Fiskveiðasjóði, Ríkisábyrgðasjóði eða Byggðastofnun, þó ekki í vanskilum, getur skipseigandi með sérstakri beiðni fengið endurgreitt fé af stofnfjársjóðsreikningi sínum. Fiskveiðasjóði er þá heimilt að halda eftir ákveðnum hluta fjárins til greiðslu á næsta gjalddaga eftir ákveðinni hlutfallsreglu miðað við tíma frá síðasta gjalddaga.

3. Innstæða á reikningi skips við Stofnfjársjóð skal njóta vaxta. Ávallt frá stofnun sjóðsins hefur verið ákvæði um að væri fé lengur en einn mánuð á reikningi skips skyldi greiða vexti. Í athugasemdum við 7. gr. segir að það hafi fyrst verið lögbundið með lögum nr. 24/1986. Þarna hefur líklega fallið niður lína við prentun því hið rétta er að það hefur verið venja um langan tíma hjá Fiskveiðasjóði að greiða vexti af innstæðu væri hún lengur en hálfan mánuð en ekki einn mánuð á reikningi skips.

Það var sú venja sem var lögfest með lögum nr. 24/1986 er gerð var sú breyting á lögum um Stofnfjársjóð að væri innstæða lengur en hálfan mánuð á reikningi skips skyldi færa til tekna vexti sem væru jafnháir hæstu lögleyfðu fasteignaveðlánavöxtum. Með þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir að vextir skuli ákveðnir með hliðsjón af þeim vöxtum sem teknir eru af skuldum sem á skipi hvíla. Þykir eðlilegt að hafa þennan hátt á því Fiskveiðasjóði reynist erfitt að ná sambærilegri ávöxtun og fasteignalánavextir gefa. Vissulega getur reynst erfitt að miða vexti af innstæðum nákvæmlega við þá vexti sem teknir eru af lánum einstakra skipa, en 7. gr. kveður á um að hliðsjón skuli höfð af þessum vöxtum og ætti það að veita nægilegt svigrúm til þeirrar ákvörðunar.

Ég vil að lokum benda á að það er ein prentvilla í athugasemdum við 7. gr. Þar stendur „með lögum nr. 24/1976“, en á að vera með lögum nr. 24/1986.

Ég vil að lokum, virðulegur forseti, leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.