16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4297 í B-deild Alþingistíðinda. (4043)

391. mál, fæðingarorlof

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér eru flutt tvö frumvörp sem varða fæðingarorlof og ég vil leyfa mér til þess að flýta fyrir afgreiðslu mála að biðja um að fá að mæla fyrir báðum frumvörpunum samtímis.

Í apríl s.l. ár skipaði ég nefnd til að endurskoða núgildandi ákvæði um fæðingarorlof og fæðingarstyrk í lögum um almannatryggingar með endurbætur á fyrirkomulagi fyrir augum. Þetta var í raun og veru framkvæmd yfirlýsingar sem gerð var í sambandi við myndun þessarar ríkisstjórnar, en ætlunin var að vinna að samræmingu ákvæða um þessi efni. Í þessari nefnd voru þau Ingibjörg Rafnar héraðsdómslögmaður, sem var formaður nefndarinnar, Salome Þorkelsdóttir alþingisforseti, Jón Ásbergsson forstjóri, Jóhanna Sigurðardóttir alþm. og Steinunn Finnbogadóttir ljósmóðir.

Nefnd þessi vann mjög mikilsvert starf, aflaði gagna bæði hérlendis og erlendis og skilaði samhljóða tillögum á þessu ári. Þær eru nú fluttar í formi þessara frumvarpa. Jóhanna Sigurðardóttir gerði þó nokkrar athugasemdir við afgreiðsluna sem hún vafalaust gerir grein fyrir hér á eftir, en þær voru þó ekki stórvægilegri en svo að nefndin skilaði samhljóða nál.

Meginniðurstöðurnar voru þær, og í þeim eru fólgnar verulegar breytingar á fyrirkomulagi fæðingarorlofs eins og það er nú, að það er í fyrsta lagi skilið alfarið á milli reglnanna sem varða vinnurétt annars vegar og tryggingarétt hins vegar. Nefndinni þótti óeðlilegt að hafa ákvæði um vinnuréttinn í tryggingalögum og þess vegna er hér flutt frv. til l. um fæðingarorlof þar sem fæðingarorlofið er sjálft skilgreint. Það er í fyrsta sinn sem það er skilgreint í lögum og ekki vanþörf á, en fæðingarorlof merkir leyfi frá launuðum störfum vegna meðgöngu og fæðingar, m.ö.o.: leyfi til að vera fjarverandi frá þessum launuðu störfum.

Meginatriði frv. um fæðingarorlof eru þau að tekið er fram að konu sé heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag og að fæðingarorlof lengist frá því sem nú er um einn mánuð um næstu áramót og síðan um einn mánuð á ári upp í sex mánuði eins og gert er ráð fyrir í þessum frumvörpum.

Enn fremur er hér mjög mikilsvert ákvæði um að skylt sé þegar því verður við komið að færa barnshafandi konu til í starfi ef það er þess eðlis að heilsu hennar eða fósturs er af því hætta búin, enda verði ekki við komið breytingum á starfsháttum, en slík tilfærsla eigi þó ekki að hafa áhrif á launakjör konunnar.

Þetta eru aðalatriðin í því frv. sem varðar sjálfan réttinn til orlofsins, lengd orlofsins og skyldu til að vernda heilsu konu og fósturs í starfi hennar.

Ég vík þá að hinu frv. sem fjallar um greiðslurnar í orlofinu, en það er í frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar. Nefndin gerir grein fyrir því sem framtíðarmarkmiði að vissulega sé æskilegast að ekki sé ósamræmi í réttindum kvenna sem starfa hjá opinberum aðilum og hinna sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði að því er varðar þennan rétt. Hér er auðvitað um að ræða mismunun sem á sér langa sögu, allt frá því er opinberir starfsmenn fengu fæðingarorlofsrétt í þrjá mánuði með fullum launum, og það stóð í marga áratugi þangað til árið 1975. Þá bættust í þennan hóp einnig konur á hinum almenna vinnumarkaði.

Það má segja að það hafi verið fyrsta stóra skrefið í þá átt að jafna mun innbyrðis að þessu leyti milli kvenna sem vinna á hinum almenna vinnumarkaði og hjá hinu opinbera. Það hlýtur hins vegar að teljast æskilegt að allir launþegar njóti sömu réttinda með tilliti til opinberra greiðslna varðandi fæðingarorlof og þess vegna telja nefndarmenn að það beri í framtíðinni að stefna að því að það verði stofnaður sérstakur fæðingarorlofssjóður með svipuðu sniði og Atvinnuleysistryggingasjóður með stjórnarmönnum tilnefndum af Alþýðusambandi, Vinnuveitendasambandi, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, BHM og fulltrúum kjörnum af Alþingi. Hins vegar taldi nefndin og ég er þeirrar skoðunar að slíka breytingu sé ekki rétt að gera nema í samráði og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, bæði launþega og atvinnurekendur.

Hins vegar voru menn sammála um að það þyldi ekki bið að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi annars vegar með tilliti til þess fyrst og fremst að lengja fæðingarorlofstímann og hins vegar með það fyrir augum að auka rétt heimavinnandi mæðra. Þess vegna gerir nefndin tillögur um í frumvörpunum að það sé alveg skýr greinarmunur annars vegar á þeim greiðslum sem allar mæður fá og verða fjármagnaðar af ríkinu og svo aftur á móti greiðslum til þeirra sem eru útivinnandi og fá fæðingardagpeninga sem eru fjármagnaðir alfarið af atvinnurekendum. Til þess að þetta megi gerast er það svo að óbreyttu fyrirkomulagi að sú fjármögnun verður af hluta atvinnurekenda í lífeyristryggingum.

Það var ekki ætlun mín að hafa langt mál til að mæla fyrir þessum frv. Þetta eru aðalatriðin. Festur er í lög rétturinn til að fá leyfi frá hinu launaða starfi í fjóra mánuði sem lengist í áföngum upp í sex mánuði, að færa til barnshafandi konu í starfi til þess að vernda heilsu hennar og fóstursins og hins vegar að fæðingarstyrkur að upphæð 15 þús. kr. verður greiddur öllum fæðandi konum og til viðbótar fæðingardagpeningar til þeirra sem vinna utan heimilis. Fjármögnun þessara tveggja greiðslna er ekki með sama hætti þannig að það er ljóst að önnur bótategundin greiðist alfarið af ríkissjóði og hin alfarið af atvinnurekendum.

Ég vil geta þess að með frv. er stigið skref sem þýðir að greiðslur til heimavinnandi mæðra hækka um 50%. Niðurstaða þessa frv. er sú samkvæmt athugun sem gerð hefur verið alveg nýlega á stöðu þessara mála á öllum Norðurlöndum svo og á Bretlandi að samkvæmt frv. verður réttur heimavinnandi mæðra betri en í nokkru af þeim löndum sem við gjarnan höfum miðað okkur við. Alls staðar er í þessum löndum skilið með svipuðum hætti alveg greinilega á milli þessara tveggja tegunda greiðslna, annars vegar þeirra greiðslna sem fara til að „dekka“ tekjutap úti á vinnumarkaðnum og hins vegar til að greiða fæðingarstyrk til heimavinnandi kvenna og þá sums staðar, eins og verður í okkar landi, til allra kvenna.

Ég held, herra forseti, að mér nægi að öðru leyti að vísa til framsöguræðu sem prentuð er í þingtíðindum og flutt var í Ed. og bendi á kostnaðarútreikninga sem fylgja frv. og eru mjög ítarlegir. Ég vil hins vegar taka fram að hv. Ed. gerði breytingu á viðmiðuninni í frv., þ.e. við hve mikla atvinnuþátttöku eigi að miða til þess að réttur skapist til greiðslna í fæðingarorlofi. Niðurstaða hv. Ed. var sú að viðmiðun eigi að vera óbreytt frá því sem nú er, þ.e. 1032 dagar, í stað 1700 eins og í frv. var í upphafi og miðaðist við núgildandi lög um atvinnuleysistryggingar. Sú viðmiðun sem var niðurstaða hv. Ed. var í núgildandi lögum og úr lögum um atvinnuleysistryggingar eins og þau voru 1980.

Ég vil geta þess einnig að í dag komu fulltrúar frá Bandalagi kvenna í Reykjavík og afhentu mér bréf þar sem greint var frá eftirfarandi ályktun sem gerð var 8. mars og hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Bandalags kvenna í Reykjavík lýsir eindreginni ánægju sinni með fram komið stjfrv. um breytingu á lögum um fæðingarorlof.“

Í framhaldi af þessu sendi hagsmunanefnd heimavinnandi húsmæðra í Bandalagi kvenna í Reykjavík kveðjur og þakkir fyrir undirbúning og frágang frv. um breytingu á fæðingarorlofi sem þær töldu að allar íslenskar konur hlytu að fagna.

Ég vil einnig geta þess að það var mikill stuðningur við málið í hv. Ed. Með því greiddu allir atkvæði í dag að viðhöfðu nafnakalli nema þm. Kvennalistans sem sat hjá og það gilti um greiðslurnar, en ég má segja að samhljóða hafi menn greitt atkvæði með frv. um fæðingarorlof. Og fulltrúar allra flokka í þeirri hv. deild lýstu því yfir fyrir sína hönd og flokka sinna að það væri eindreginn stuðningur við að koma þessu máli fram nú. Að vísu hafði einn hv. þm. fyrirvara sem leiddi til þess að hann sat hjá að lokum.

Ég þakka, herra forseti, fyrir að þetta mál var tekið svo skjótt fyrir á þessum fundi og leyfi mér að líta svo á að í því felist áhugi á að greiða fyrir þessu máti sem ég tel að sé afar skýrt og vel unnið og spari þess vegna hv. þingnefnd mikla vinnu. Ég tel að með því að samþykkja þetta nú gefist tími til að undirbúa gildistöku þess, sem verður um næstu áramót, og vænti þess að það eigi eftir að hafa mikla þýðingu.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.