16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4306 í B-deild Alþingistíðinda. (4045)

391. mál, fæðingarorlof

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv. Það hefur verið mikið baráttumál í gegnum tíðina að rýmka þau réttindi sem konur hafa haft o minnka það misrétti sem í lögunum hefur falist. Ég held að a.m.k. sjö sinnum hafi komið fram frv. á tíu ára tímabili til að reyna að stíga skref í þá átt að fá aukin réttindi konum til handa í þessu efni. Ef ég man rétt hefur það verið annað hvert ár frá 1976. Þórarinn Þórarinsson og ég fluttum tvívegis frv. sem var skref í áttina því að þetta hefur ekki tekist nema með skrefum. Ef ég man rétt flutti forsrh. í Ed. frv. um þetta líklega á þinginu 1979. Á 105. löggjafarþinginu var flutt um þetta frv., sem núv. hæstv. félmrh. var 1. flm. að og við fleiri framsóknarmenn stóðum að því frv., og á 107. löggjafarþinginu fluttum við, ég og hv. þm. Ólafur Þórðarson, frv. um skref í þessu, þ.e. fjórða mánuðinn, og ef ég man rétt hafa Kvennalistakonur a.m.k. tvívegis flutt frv. um þetta efni - eða þrisvar er nú hvíslað hér á bekk.

Hitt er annað mál að frv. sem hér liggur fyrir er alls ekki lokasigur í þessu efni. Það er enn þá misrétti sem í því felst. En þetta er mikilvægt og það er mikilvægt að það skuli t.d. nást meiri réttindi fyrir heimavinnandi húsmæður sem er þó hvergi nærri að mínu mati nægjanlegt, hvað sem má segja um þau réttindi sem eru á Norðurlöndum fyrir heimavinnandi konur. Ég skil vel að það sé erfitt og það hefur reynst erfitt áður að ná sex mánaða fæðingarorlofi í einu skrefi, en með þessu frv. er stefnt að því að konur fái það árið 1990.

Ég held að það hafi komið fram hjá síðasta ræðumanni ýmis atriði sem þyrfti að laga, en ef það tekst ekki tel ég þó að það sé mikill ávinningur í því að fá frv. samþykkt eins og það er, ef ekki næst samkomulag um breytingar, því að það er hægt á næsta þingi að reyna að sníða af því ýmsa hnökra sem virðast vera á því. En ég legg áherslu á að þetta nái fram að ganga á þessu þingi.