16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4309 í B-deild Alþingistíðinda. (4049)

392. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég get vísað til þess sem ég sagði um frv. sem ég mælti fyrir áðan. Ég mælti raunar fyrir þeim báðum í einu. En ég vil nota þetta tækifæri til að gefa upplýsingar sem ég lofaði að gefa hér og það varðar rétt þeirra sem hafa samkvæmt kjarasamningum heimild til að fá full laun á öðrum tíma en fæðingarorlofið gerði ráð fyrir. Það er algerlega ljóst eftir frv. um fæðingarorlof að sá réttur skerðist ekki. Sá tími sem er fram yfir þann tíma sem gert er ráð fyrir í frumvörpunum og þær upphæðir sem eru fram yfir þær upphæðir skerðast ekki. Það er alveg ljóst. Þannig gildir það um flugfreyjurnar að hafi þær heimild til að fá þriggja mánaða frí á fullum launum fyrir fæðingu breyta þessi lög, ef samþykkt verða, því ekki. Eins er það með þær konur sem eru opinberir starfsmenn og núna hafa þriggja mánaða orlof á fullum launum. Lögin mundu veita þeim fjórða mánuðinn með þeim greiðslum sem greinir í frv. Það þyrfti sérstaklega þá að semja um það sem þar væri fram yfir.

Það var einungis þetta. Ég held að það hafi ekki verið annað sem sérstaklega var spurt um í þessu sambandi. (JS: En andvana fæðingarnar?) Já, því var breytt í Ed. að því er varðar fæðingardagpeningana skv. till. sem Kolbrún Jónsdóttir bar fram, en síðan var útbýtt uppprentuðu skjali og á því voru tvær tillögur í viðbót og þær náðu ekki fram að ganga. Hin fyrri ekki vegna þess að menn töldu þetta tengjast allt saman af sjálfu sér, að ég tel, og hin síðari náði ekki fram að ganga vegna þess að dagskrártill. um þetta efni var samþykkt í sambandi við frv. sem hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir hafði flutt um rétt foreldra til að fá leyfi frá störfum vegna umönnunar barna. Sú dagskrártillaga varðaði einmitt það að setja nefnd til að hefja viðræður við aðila vinnumarkaðarins um það atriði. Sú dagskrártillaga var samþykkt og þar með í raun og veru afgreiðsla á þeim efnisþætti tillagnanna.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði eins og frv. um fæðingarorlof vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. og tel mig að öðru leyti hafa mælt fyrir þessu frv. í ræðunni um það mál.