16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4310 í B-deild Alþingistíðinda. (4051)

363. mál, póst- og símamál

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til að deildaskipting og mörkun verkefna einstakra deilda Póst- og símamálastofnunar verði numin úr lögum um stjórn og starfrækslu stofnunarinnar, en verði í þess stað ákveðin með reglugerð.

Með samþykkt frv. þessa verður skipulag Póst- og símamálastofnunar ákvarðað með sama hætti og skipulag annarra stofnana ráðuneytisins og stuðlar það að auknum sveigjanleika og meiri virkni í störfum þeirra. Á þetta ekki síst við um Póst- og símamálastofnun þar sem tækninýjungar eru jafnmiklar og raun ber vitni. Það er því grundvallaratriði fyrir starfsemi og þróun stofnunarinnar að geta aðlagast breyttum viðhorfum hverju sinni.

Þetta frv. fékk afgreiðslu í Ed. og voru gerðar á því nokkrar breytingar að ósk stofnunarinnar sjálfrar. Þær breytingar voru allar gerðar í fullu samráði við samgrn. og með samhljóða áliti samgn. hv. Ed.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.