16.03.1987
Neðri deild: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4312 í B-deild Alþingistíðinda. (4058)

320. mál, Vísindaráð og Rannsóknaráð ríkisins

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það má sannarlega fagna því að þessu máli skuli hafa verið hreyft. Þetta hefur legið í nefndum um tíu ára skeið og ekki verið full sátt um hvernig málið skyldi lagt fram. Ég gerði fsp. til hæstv. ráðh. um miðjan desember s.l. um það hvort hann hygðist leggja fram frv. um Vísindaráð og Rannsóknaráð og hann lofaði því strax og þing kæmi saman að nýju og stóð við það.

Það kom fram í ræðu hans í Ed. og vita þeir sem vita vilja að það hefur verið talsverður ágreiningur um málið, hvort því væri betur komið í einu ráði sameiginlega eða í tveimur ráðum eins og hér er lagt til. Það hefur verið lengi ljóst að staða og skipulag rannsóknastarfsemi innan stjórnkerfisins hérlendis hefur þarfnast endurskoðunar og breytinga og þessum skorti á heildarskipulagi hefur fylgt alvarlegur skortur á fjármögnun til rannsókna hérlendis. Það er kannske það sem er alvarlegast af öllu, þ.e. skorturinn á fjármagni, og sverfur mun verr að en skipulagsskorturinn. Við leggjum ekki nema 0,8% af þjóðartekjum okkar til þessara mála þó það hafi aðeins verið hækkað á síðustu árum. En hækkunin byggist þó ekki á því að hið opinbera hafi aukið framlög sín. Þvert á móti. Hækkunin stafar fyrst og fremst frá auknum framlögum atvinnulífsins til rannsókna. Íslensk stjórnvöld hafa ekki kært sig um að hækka þessi framlög þó að nágrannalönd okkar hafi hækkað sín framlög svo um munar og séu nú komin með allt að 2% af sínum þjóðartekjum í framlög til rannsókna eða miði að því alla vega í nánustu framtíð.

Þessi auknu útgjöld hjá nágrannaþjóðum okkar eru tengd bjartsýni og skilningi á þeim möguleikum sem felast í nýrri þekkingu og tækninýjungum, en á þeim sviðum vænta menn helstra framfara og breytinga á atvinnuháttum komandi ára. Jafnframt er sífellt fleirum að verða ljóst að vísindaleg þekkingarsköpun er álíka mikilvæg fyrir sjálfstæði þjóða og listsköpun, viðhald sérstakrar þjóðtungu og vökul tengsl við menningarrætur og þjóðarsögu. Jafnframt fer þeim einnig fjölgandi sem bera hag Háskóla Íslands fyrir brjósti sem vísindastofnunar en ekki fyrst og fremst sem embættismannaskóla. Það er því vel og í samræmi við tíðarandann að hér skuli loksins hafa séð dagsins ljós frv. til laga um skipan vísindarannsókna hér á landi.

En ég vildi aðeins nefna örfá atriði í umfjöllun um þetta mál án þess að lengja tímann sem fer til umræðu. Það er kannske í fyrsta lagi það sem ég hef við þetta frv. að athuga, auk þess sem ég held að því væri betur komið í einu ráði en tveimur, en mikill þrýstingur er þó á að fá þetta mál í gegn til að tryggja þó einhverja fjármögnun til Vísindasjóðs umfram það sem verið hefur, hver er sú skipting á fjármagni og það hlutverk sem fjárveitingavaldinu hefur verið fengið í hendur. Fjárveitingavaldinu er fengið í hendur að skipta fjármagni til rannsókna og vísindastarfsemi á hverjum tíma milli svokallaðra grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna. Að mínu mati væri mun eðlilegra að þeir sem hafa með vísinda- og rannsóknastarfsemi að gera skipti þessu fjármagni sjálfir því að þeir eru mun betur í stakk búnir en fjárveitingavaldið til að meta hvor geirinn þarf á meira fjármagni að halda hverju sinni. Einnig má nefna að skipting í grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir annars vegar er hæpin því í raun eru bara til rannsóknir og afrakstur þeirra og stundum getur þessi afrakstur orðið hagnýtur. En það er ekki ávallt vitað fyrir fram hvort rannsóknir geta nýst á hagnýtan hátt eða ei. Þess vegna vil ég meina að það sé mun skynsamlegra að eitthvert heildarfjármagn sé ákveðið og því sé varið til rannsókna, en síðan verður það rannsóknamanna sjálfra að ákveða sín á milli hvernig á að skipta þessu fé.

Í öðru lagi mundi ég vilja gera athugasemd þar sem fjallar um verkefni Vísindaráðs og Rannsóknaráðs. Vísindaráð er frumkvæðislausara en Rannsóknaráð, eins og því er fyrir komið í þessu frv., og væri til bóta að auka frumkvæðishlutverk Vísindaráðs frá því sem nú er.

Ég held að það sé ekki ástæða til að tefja málið á neinn hátt. Ég vil þó að lokum geta þess sem kemur fram síðast í frv. Þar er talað um samstarfsnefnd þessara ráða beggja, Vísindaráðs og Rannsóknaráðs, og geri ég mér vonir um að þessi samstarfsnefnd verði efld þannig og gerð svo kröftug að hún geti verkað sem framkvæmdaraðili fyrir bæði þessi ráð og er því þá betur komið á þann veg og sameinar þessi tvö ráð meir en kannske gert er ráð fyrir í frumvarpsgreinunum sjálfum sem varða ráðin beint. Ég hygg að það væri langfarsælasta lausnin.

Við umfjöllun í Ed. hefur komið fram sú brtt., ef ég man rétt að málið verði endurskoðað innan fimm ára. Ég held að það sé afar skynsamleg ráðstöfun vegna þess ágreinings sem hefur ríkt um málið þannig að það megi þá reyna hvernig fer með þessa skipulagsbreytingu og síðan breyta því ef mönnum líkar hún illa.