16.03.1987
Neðri deild: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4317 í B-deild Alþingistíðinda. (4072)

420. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta mál. Ég held að það sé rétt að rifja upp sögu þessa máls þó ég skuli ekki tefja tímann mikið með því. Ég vil aðeins segja að eins og allir hv. þm. vita var þessi vandi áður hjá sveitarfélögunum í landinu hverju fyrir sig. Þau urðu að sjá um þennan þátt í sambandi við framfærslumálin. Niðurstaðan varð sú að það hófust miklar deilur á milli sveitarfélaganna í landinu um barnsmeðlögin og greiðslu þeirra og þetta var orðið svo mikið vandamál að það lá við að í fjölda byggðarlaga vildu menn ekki taka þátt í að vera í sveitarstjórn vegna þessa máls. Niðurstaðan varð sú að það voru sett lög um Innheimtustofnun sveitarfélaga sem tók þetta mál föstum tökum með Tryggingastofnun ríkisins. Síðan hefur orðið sú breyting á þessu máli í gegnum þessa stofnun og með hennar tilkomu að vandinn hefur verið tekinn af Tryggingastofnun ríkisins, þ.e. ríkið hefur losnað við að standa undir ógreiddum barnsmeðlögum, sem hafa farið sívaxandi ár frá ári, og þessi vandi hefur verið færður yfir á sveitarfélögin í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hér rífast menn fund eftir fund um skerðingu á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en gá ekki að því að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verður að greiða til Tryggingastofnunar ríkisins til þess að ríkið þurfi ekki að bera halla af þessari innheimtu, fleiri hundruð milljónir á hverju einasta ári. Það er hlutinn af vanda Jöfnunarsjóðs, hvað hann hefur rýrnað.

Ég ætla ekki að fara í umræður um þetta við hv. þm. sem þekkir svo vel Tryggingastofnun ríkisins. Hún er laus núna við þennan vanda vegna þess að það er komið yfir á sveitarfélögin eins og ég skýrði frá, en það sem var um að ræða á s.l. ári var að sveitarfélögin óskuðu eftir að þessi stofnun fengi heimild til að haga innheimtunni eins og aðrar stofnanir, þ.e. að meðlagsgreiðendur í stórum stíl, sem höfðu efni á að greiða meðlög, gætu ekki dregið það fram á gamlársdag að greiða meðlög sem þeir áttu að greiða mánaðarlega og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga varð að standa skil á til Tryggingastofnunar eða ríkisins jafnóðum mánaðarlega. Þeir urðu nú að gera svo vel og greiða dráttarvexti fyrir þessi meðlög ef þeir ekki vildu standa í skilum. Þetta hafði þær afleiðingar, frv. sem hv. þm. er að tala um, að innheimtan jókst alveg gífurlega þannig að það hefur þurft að taka minna af Jöfnunarsjóði mánaðarlega en annars hefði orðið.

Hins vegar hefur komið í ljós að margir greiðendur barnsmeðlaga eiga við þá félagslega erfiðleika að stríða og skulda stofnuninni stórfé að þessi dráttarvaxtataka íþyngdi þeim svo gífurlega að það var fullkomin ástæða til að líta á þann félagslega þátt. Þess vegna var þetta litla frv. um dráttarvextina sett í lög á síðasta þingi. Það má vel vera að það sé kannske of mikið veikleikamerki, en alla vega finnst mér það eðlilegt að þegar þessi félagslegi vandi er svo mikill hjá nokkuð stórum hóp manna sé a.m.k. byrjað á því að reyna að létta það aðeins með því að heimila stofnuninni að líta á þennan félagslega vanda og annaðhvort fella hann niður eða gera þá samninga við viðkomandi aðila um að það setji ekki fjárhag þeirra á hvolf. Ég get bætt því við að það er núna hafin endurskoðun á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga til að kanna hvort er ekki orðið breytt viðhorf í þjóðfélaginu, m.a. að konur greiði meðlög, og það er fullkomin ástæða til að taka þetta mál núna upp miðað við að laga það að nútíma aðstæðum og taka þá félagslega þáttinn meira til greina en áður hefur verið gert, því það er ekki sama hvort menn eru að greiða með einu eða tveimur börnum eða kannske allt upp í tíu börnum eins og mörg dæmi eru til. Þetta er stórt vandamál. Ef menn kíkja í tölurnar er engar smáupphæðir hér um að ræða.

En það sem ég vildi leggja áherslu á svo að það verði ekki misskilningur er að það er núna búið að losa ríkið, búið að losa Tryggingastofnunina undan þessum vanda sem áður var stórar upphæðir hjá Tryggingastofnun ríkisins, svo skipti hundruðum milljóna. Nú er búið að hleypa því öllu í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þannig að sveitarfélögin verða að greiða þetta beint og óbeint. Það kemur niður á því framlagi sem þau fá úr Jöfnunarsjóði og er hluti af þeirri skerðingu sem margir hv. þm. eru að býsnast yfir að skuli vera lögð á sveitarfélögin.