16.03.1987
Neðri deild: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4326 í B-deild Alþingistíðinda. (4085)

168. mál, læknalög

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að meðferð þessa máls var ekki eins greið og einföld og frv. sem ég var að mæla fyrir. Gerðar voru á þessu frv., sem ég taldi að fyrir fram hefði náðst mjög góð samstaða um meðal fagmanna, miklar breytingar í Ed., e.t.v. ekki svo stórvægilegar efnislega sumar hverjar, en aðrar þó í nokkuð mikilvægum atriðum. Þess vegna er málið nú orðið töluvert breytt frá því er ég mælti fyrir því í hv. Ed., en það var hinn 6. des.

Ég vek athygli hv. nefndar á því að bera þyrfti saman breytingarnar og upphaflega frv. þannig að auðveldara sé fyrir nefndina að átta sig á því. Ég tel að hér séu nokkur grundvallaratriði sem þurfi að athuga vandlega, eins og t.d. þáttur læknadeildar Háskóla Íslands í mati á sérfræðileyfum og undirbúningi lækningaleyfa, og svo aftur á móti annað atriði, sem ég tel að sé mjög athyglisvert og e.t.v. ekki í samræmi við það sem gildir almennt í þjóðfélaginu, að hér hefur verið snúið við í raun og veru reglunni um afhendingu sjúkraskráa frá því sem var í upphaflega frv. Upphaflega frv. gerði ráð fyrir að meginreglan væri sú að sjúklingur gæti fengið afhenta sjúkraskrá um sig nema einhverjir ótvíræðir hagsmunir mæltu því gegn, en nú er þetta orðið svo að læknirinn afhendir sjúkraskrána aðeins ef hann telur það þjóna ótvíræðum hagsmunum sjúklings. Þetta er eitt af þeim atriðum sem mjög hafa verið til umræðu á ýmsum tímum og þarf sérstaklega að hyggja að.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki annað að segja sérstaklega um þetta frv. en það að hér var gerð tilraun til að færa til nútímahorfs eða taka mið af þróun mála í seinni tíð frá því sem var þegar núgildandi læknalög voru fyrst sett en það mun hafa verið 1932 og er nú orðinn æðilangur tími síðan. En svo kom í ljós við meðferð málsins að nokkur meiningarmunur var meðal hinna ýmsu fagmannahópa sem um þetta áttu að fjalla og því hefur frv. breyst á þann veg sem sést á þskj. 882.

Ég tel að það sé æskilegt að nefndin fái frv. til umfjöllunar og ég get út af fyrir sig skilið að tíminn verði takmarkaður til að afgreiða það, en það verði þó a.m.k. búið að vinna einhverja forvinnu og nefndin tekur þá afstöðu til þess eftir því sem henni sýnist réttast.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.