16.03.1987
Neðri deild: 66. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4326 í B-deild Alþingistíðinda. (4086)

168. mál, læknalög

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Hér er að næturlagi tekið til umræðu frv. sem í raun hefði átt að ræða miklu fyrr í vetur ef vanda hefði átt til vinnubragða. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. hefur sagt, að það hafa talsvert miklar breytingar verið gerðar á þessu frv. sem er reyndar tilraun til að færa læknalög í styttri og um margt hentugri búning. Það var búið að vinna frv. ég held 1983, en frv. er ekki lagt fram fyrr en núna, 1986 að haustlagi, þannig að það hefur reyndar legið í þrjú ár líklega í ráðuneytinu án þess að vera lagt fram. Síðan fær það mjög hraða umfjöllun í þinginu og er slæmt að það skuli ekki. . . (Heilbr.- og trmrh.: Það er búið að vera síðan í desember.) Já, en það fær samt mjög hraða umfjöllun í þinginu nú á síðustu dögum. Þessi deild fær ekki nema örfáa daga til að fjalla um það.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, en þó vil ég gera athugasemdir við nokkrar breytingar sem hafa verið gerðar á frv. og sem ég tel mjög varhugaverðar. Vil ég þá fyrst taka til að í gömlu læknalögunum frá 1969 og einnig í því frv. sem lagt var fram upphaflega í desember, 168. mál þingsins, stendur í 2. gr. og ég vitna fyrst, með leyfi forseta, ef ég fæ næði til þess, í 2. gr.: „Leyfi skv. 1. gr. [þ.e. rétt til þess að stunda lækningar hér á landi] skal veita þeim sem lokið hefur prófi frá læknadeild Háskóla Íslands svo og framhaldsnámi í sjúkrahúsi eftir reglum sem læknadeild setur“. Ég undirstrika: „reglum sem læknadeild setur og heilbrigðisráðherra staðfestir.“

Í frv. sem lagt var fram í Ed. í desember stendur, með leyfi forseta í 2. gr.: „Leyfi skv. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi frá læknadeild Háskóla Íslands svo og viðbótarnámi í sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum hér á landi samkvæmt reglum sem læknadeild Háskóla Íslands setur og heilbrigðisráðherra staðfestir.“

Eftir umfjöllun í Ed. hefur þessu verið snúið á þann veg og ég vitna, með leyfi forseta, í 2. gr.: „Leyfi skv. 1. gr. skal veita þeim sem lokið hefur prófi frá læknadeild Háskóla Íslands svo og viðbótarnámi í heilbrigðisstofnun hér á landi samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands.“

Þarna hefur hlutverkum verið snúið alveg við. Það er ekki lengur læknadeild Háskóla Íslands sem setur reglur um hvernig eigi að uppfylla skilyrði til að fá læknaleyfi heldur er það ráðherra sem setur þessar reglur að fengnum tillögum læknadeildar í stað þess að áður var það ráðherra sem staðfesti.

Þegar kemur að því að setja reglur um nám sérfræðinga er þessu alveg á sama veg farið, bæði í gömlu lögunum og í frv. sem lagt er fram í desember. Þá er það læknadeild Háskólans sem setur reglur um nám sérfræðinga, en ráðherra staðfestir.

Í frv. eins og það liggur fyrir núna er það ráðherra sem setur reglur í 5. gr., með leyfi forseta, um nám sérfræðinga að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands og getur enginn fengið leyfi til að kalla sig sérfræðing nema hann sanni fyrir læknadeild að hann hafi lokið slíku námi og landlæknir mæli með því.

Ég álít að hér sé um alvarlega breytingu að ræða, geysilega miðstýringu þar sem valdið er fært til ráðherra og ráðuneytisins þá væntanlega, þ.e. hópur embættismanna á að fara að ákveða hvaða skilyrðum þarf að fullnægja til þess að hægt sé að fá lækningaleyfi. Að sjálfsögðu stendur þarna „að fengnum tillögum læknadeildar“, en segjum nú svo að ráðherra þóknist ekki, og þá er ég að tala um einhvern ráðherra í framtíðinni, að hlíta þessum tillögum læknadeildar. Þá hefur ráðherra neitunarvald og þá þarf ráðherra ekki að hlíta þessum tillögum. Ég vildi biðja hæstv. ráðh. að staldra aðeins við meðan ég ræði þetta því að ég álít að sé mjög mikils vert að þessu verði breytt. (Heilbr.- og trmrh.: Ég heyri alveg í þm. þó ég gangi um gólf.) Já, ég hélt að ráðherra væri að fara. Mér sýndist hún vera farin að tygja sig til brottferðar.

Í fyrsta lagi, og þá vil ég taka fram bæði í sambandi við almenna læknanámið og þá sérstaklega í sambandi við veitingu sérfræðileyfis, er þróun læknisfræði mjög hröð og læknadeild er sá aðili sem helst er til þess fallinn að fylgjast með þessum breytingum og þeirri þróun sem verður í læknisfræði.

Í öðru lagi hefur nýlega verið gefin út reglugerð, í júlí 1986. Þar eru ákvæði sem segja til um að læknadeild eigi að skipuleggja framhaldsmenntun hér á landi. Þau kveða mjög skýrt á um það. Læknadeild hefur hingað til skv. S. gr. læknalaga haft það hlutverk að setja reglur um nám sérfræðinga. Þessu á nú að breyta þannig að læknadeild á einungis tillögurétt til breytinga á reglum um nám sérfræðings. Ég álít að þessi breyting skjóti skökku við það að læknadeild hefur nýlega verið falið að skipuleggja framhaldsmenntun lækna. Þetta gengur beint á þá reglugerð sem nýlega hefur verið gefin út.

Þeir sem þróa reglur um sérfræðinám þurfa að vera með fingurna á púlsinum varðandi þróun læknisfræðinnar. Ég álít að þessi breyting sé í hæsta máta óeðlileg og ég get ekki séð hvernig hópur embættismanna í ráðuneyti getur fylgst svo vel með í ýmsum sérgreinum að hann sé þess umkominn að meta hvaða kröfur er rétt að gera til að gefa sérfræðileyfi. Ég álít þetta vera mjög ranga þróun og ég vildi bera fram fsp.: Hver kom með brtt. í umfjöllun Ed. á þann veg að þessu var breytt því að þetta var ekki í frv. upphaflega? Þetta er breyting sem hefur komið við umfjöllun í deildinni. Ég hygg að þetta hafi ekki komið frá læknadeild. Ég veit ekki til þess að það hafi komið frá landlækni. Það kann að hafa komið frá læknafélögunum. Ég veit það ekki. Ég vildi mjög gjarnan fá að vita það vegna þess að ég álít að þessi þróun, þessi tilhneiging til miðstýringar sé afar slæm og eigi alls ekki heima í þessu frv.

Það var gagnrýni á frv. eins og það var lagt fram í byrjun að læknadeild væri gert of lágt undir höfði þegar lækningaleyfi væri veitt. Það hefur verið lagfært í þessari síðari umfjöllun þannig að nú skal leita álits landlæknis og nefndar sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn og er það vel að þarna skuli vera tímabundin skipun í nefndina. Það hefur verið aukið við einum fulltrúa frá læknadeild Háskólans og ég held að það sé til bóta og sömuleiðis að það skuli vera ákvæði um varamenn sem ég álít líka vera til bóta.

Margar greinarnar eru reyndar óbreyttar. Ég ætla að fletta í gegnum frv. Í sambandi við það sem hæstv. ráðh. minntist á sjálf um afhendingu sjúkragagna langar mig til þess að spyrja þar sem hún vitnaði til einmitt að lækni sé skylt að afhenda sjúkraskrá alla eða hluta sjúklingi eða forráðamanni ef það þjónar ótvíræðum hagsmunum sjúklings. Hver á að meta þetta? Hver á að meta hvort það þjónar hagsmunum sjúklings? Það kemur ekki fram í þeim breytingum sem gerðar hafa verið í Ed. vegna þess að það fylgir engin grg. eða umsögn um sérstakar greinar. Því vil ég bera fram þessa fsp.

Sömuleiðis var mikil gagnrýni á þá grein sem áður var 27. gr., hygg ég, en hún hljóðaði á þessa leið í frv. eins og það var lagt fram: „Lækningaleyfi fellur niður þegar leyfishafi er fullra 75 ára gamall. Ráðherra er heimilt að fenginni umsókn viðkomandi og meðmælum nefndar skv. 3. mgr. 2. gr. að framlengja leyfi eitt ár í senn.“

Þetta þótti afar harkaleg meðferð á mönnum sem e.t.v. væru við fulla heilsu og gætu sinnt sínu starfi áfram og sérstaklega að starfsheiti skyldi tekið af mönnum á þennan hátt. Það hefur tekið breytingum í umfjöllun Ed. og hljóðar nú svo: „Lækni er óheimilt að reka lækningastofu eftir 75 ára aldur.“ Þetta er sem sé bundið við það að reka lækningastofu en ekki að læknir sé sviptur starfsheiti sínu og öllu leyfi til þess t.d. að vísa lyfseðlum á fjölskyldu sína eða kunningja. Ég álít að þessi breyting sé málamiðlun sem sé sannarlega til bóta, en hins vegar megi ræða betur í nefnd hvernig standa eigi að því að vernda sjúklinga og neytendur gagnvart mönnum sem þjást af elliglöpum en hins vegar að varðveita sjálfsvirðingu og starfsgetu manna sem eru færir til að sinna sínu starfi þó að þeir hafi náð þessum aldri.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. að öðru leyti. Mér finnst afar slæmt að það skuli fá svo litinn tíma til umfjöllunar í seinni deild, ekki síst vegna þess að á því hafa verið gerðar, að mínu mati, veigamiklar breytingar sem ég álít vera til baga. Ég álit að þarna sé á ferðinni geysileg miðstýring sem geti ekki þjónað góðum tilgangi þegar til lengdar lætur. Það hlutverk sem læknadeild hefur haft held ég að sé miklu betur komið í hennar höndum en í höndum embættismanna ráðuneytis. Þess vegna vonast ég til að þetta verði íhugað vel í nefndinni og ég vil fara fram á það eins og áðan, af því að ég á ekki lengur sæti í hv. heilbr.- og trn. Nd., að ég fái áheyrnaraðild að þeirri nefnd þegar hún fjallar um þetta mál.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.