16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4337 í B-deild Alþingistíðinda. (4100)

430. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Vegna orða síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Vesturl., um hvernig að flutningi þessa frv. var staðið vil ég aðeins ítreka það sem hefur komið hér fram áður að ég óskaði eftir því að þessi leið yrði farin til þess að flýta framlagningu frv. Þær tölur sem frv. er byggt á lágu ekki fyrir fyrr en rétt fyrir helgina og þar sem það tekur tíma að ganga frá formsatriðum stjfrv. var ljóst að það þurfti að reyna að fara þá fljótustu leið sem hægt var. Og í öðru lagi, ef von ætti að vera um að frv. næði fram að ganga þá varð að gera það í góðu samkomulagi við stjórnarandstöðuna þar sem þetta var svo seint fram komið. Þess vegna taldi ég að það væri heppilegra að ræða málið á þessum grundvelli. Ég vil þakka hv. 4. þm. Vesturl. og öðrum þm. stjórnarandstöðunnar, sem hafa um þetta mál fjallað enn þá, fyrir góðar undirtektir um að greiða fyrir framgangi þess. Ég mun ekki ræða efnislega að öðru leyti landbúnaðarmálin, því að þá getum við áreiðanlega verið hér í marga daga og vil því fara sömu leið og hv. 4. þm. Vesturl. og sleppa þeirri umræðu.