16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4340 í B-deild Alþingistíðinda. (4105)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er 318. mál Nd. á þskj. 904. Hér er um að ræða frv. sem fyrst og fremst er flutt til þess að reyna að lagfæra ákveðna agnúa sem hafa komið fram í sambandi við þetta mál en eins og allir hv. þm. vita voru þau lög sem rætt er um að gera breytingu á byggð á samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. Meginatriði laganna byggðist í raun og veru á samræmdri þátttöku allra lífeyrissjóða landsins en þeir leggja til fjármagn sem nemur 55% af ráðstöfunarfé þeirra sem er í raun skilyrði fyrir lánsrétti einstaklinga sem sækja um lán skv. þessum lögum.

Það var ljóst í upphafi að þessum gífurlegu breytingum sem þarna er um að ræða mundu fylgja einhverjir vaxtarverkir, ekki síst átti eftir að skoða ýmsa þætti, hvernig þetta kæmi við einstök atriði að því er varðar þá sem þurfa að byggja á lífeyrisréttindum þannig að það var ekkert óeðlilegt að það kæmi ýmislegt fram sem þyrfti að skoða nánar síðar.

Ég vil taka það fram í upphafi og ég skal reyna að verða stuttorður, virðulegi forseti, að aðilar vinnumarkaðarins gerðu ráð fyrir að þessi mikla lagabreyting þyrfti að fá vissan aðlögunartíma í framkvæmdinni og það væri hyggilegt að flýta sér hægt í að gera miklar breytingar. Þess vegna var það að ég lagði á það mikla áherslu við Húsnæðisstofnun að það yrði ákveðið strax við framkvæmd laganna á s.l. hausti að þau atriði sem væru fyrst og fremst tæknileg og atriði sem væru augljóslega þannig upp sett í þessum nýju lögum að það gæti hindrað afgreiðslu til fólks sem vantaði lítið upp á til þess að njóta fullra réttinda yrðu athuguð sérstaklega.

Niðurstaðan varð sú að þær breytingar sem liggja til grundvallar í þessu frv. eru við þetta miðaðar. Það er gert ráð fyrir því að í staðinn fyrir að fólk þurfti að hafa samfelldan lífeyrisrétt á síðustu 24 mánuðum verði það stytt í 20 mánuði, það yrðu 20 mánuðir innan þessara 24. Það kom í ljós við athugun að það mundi leysa vanda ýmissa aðila sem hafa sótt um, sérstaklega unga fólksins sem lögin stefna nú fyrst og fremst að að reyna að lagfæra lánsréttinn fyrir. Þetta var sem sagt eitt atriðið. Síðan kom í ljós að námsmenn voru ákaflega óviðbúnir þessu nýja lífeyrissjóðskerfi sem eðlilegt var og það þurfti að koma eitthvað til móts við þá. Það var gert á tvennan hátt. Annars vegar með því að ná samkomulagi við Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda um að Söfnunarsjóðurinn og Lánasjóður námsmanna gerðu með sér samkomulag sem gildir frá 1. sept. s.l. um það að tryggja öllum sem fá lán úr sjóðnum lífeyrisréttindi frá 1. sept. s.l. sem tryggir þessu fólki lánsréttindi þegar fram í sækir og einnig það að með þessu móti var hægt að létta áhyggjum af þessu námsfólki sem þarna var um að ræða. Síðan var sett ákvæði til bráðabirgða í þetta frv. sem gerir þeim sem á síðustu tveimur árum hafa verið að reyna að koma húsnæði yfir sig léttara fyrir með því að þeir eru undanskildir að nokkru leyti í sambandi við þetta stranga ákvæði ef þetta ákvæði til bráðabirgða verður samþykkt.

Einnig eru nokkur önnur atriði. Ég nefni að það er verið að gera þarna tilraun til þess að koma til móts við fólk sem hefur orðið fyrir því að þurfa að hverfa tímabundið af vinnumarkaðinum um skamman tíma á síðustu tveimur árum og hefði í strangasta skilningi laganna, eins og þau voru byggð upp, misst lánsréttinn að verulegu leyti. Miðað við þá breytingu sem hér er lögð til er því stórum hluta af þessu fólki bjargað fyrir horn ef svo má að orði komast þannig að það heldur sínum réttindum miðað við að þessar breytingar verði samþykktar. Þetta tekur til fólks sem hefur gert hlé á starfi um skeið, t.d. hálft ár vegna endurmenntunar eða eitthvað þess háttar og það fær þarna að fullu borið í slíkum tilvikum.

Þá var einnig slakað nokkuð á stærðarmörkum í sambandi við lögin. Það er gert ráð fyrir í lögunum að miðað sé við 170 fermetra stærðarmörk. Það kom í ljós, miðað við viðmiðunarstaðla á fasteignamarkaðinum og það sem er í gildi núna, en nýr staðall tók gildi 1. desember s.l., að til þess að fullnægja því þá þurfti að rýmka nokkuð um stærðarmörkin miðað við 180 fermetra og Nd. gekk frá því máli við samþykkt frv.

Eitt atriði enn langar mig til að nefna, frú forseti. Það er í sambandi við öryrkja og aldraða. Í þessu frv. er það tryggt að þeir sem reka stofnanir fyrir öryrkja og fatlaða fá fullan lánsrétt með þessu frv. eins og kemur fram í 3. gr. þess.

Ég vil geta þess vegna þess að fram kom í umræðum í Nd. að ýmislegt fleira hefur komið fram í sambandi við þessi lög og það hefur verið rætt við aðila vinnumarkaðarins og laganefndina um víðtækari breytingar að samkomulag varð um það að hafa þær eins litlar og mögulegt var og gefa sem sagt lengri aðlögunartíma til þess að sjá hvernig þessi lög verða í framkvæmd. Þess vegna var ekki tekið meira inn af þeim breytingum sem hugsanlega þyrfti að gera á þessu frv. þegar fram í sækir.

Eitt af því sem menn hafa gagnrýnt er það að komið hefur í ljós að ýmsir sem sækja um lán skv. þessum grundvallaratriðum sem ég nefndi hér fyrr að með tilkomu allra lífeyrissjóðanna inn í þetta koma til greina einstaklingar sem hafa kannske það góð efni að þeir þurfa ekki á slíkum lánum að halda. Það er ekkert auðvelt að breyta því í fyrstu lotunni þar sem búið er að gera bindandi samninga við alla lífeyrissjóði um fjármagnið, 55%-fjármagnið, og þeir náttúrlega gera það í trausti þess að þeirra félagsmenn njóti þeirra kjara sem þessi nýju lög veita.

Hins vegar er í gangi nú þegar endurskoðun á þessum lögum og raunar fleiri atriðum í sambandi við húsnæðismálin og ég reikna með því að - hver sem við tekur - örugglega verði hægt að gera á þessu breytingar ef menn vilja þegar kemur að næsta þingi. Þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frv. og hv. Nd. hefur samþykkt eru aðeins lagfæringar sem eru þó mjög nauðsynlegar og þess vegna má ekki koma fyrir annað en að Alþingi samþykki þetta frv. sem hér liggur fyrir því það mun laga þessi mál fyrir marga sem þurfa sannarlega á því að halda.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessa umræðu meira, virðulegur forseti, en legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og félmn.