16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4342 í B-deild Alþingistíðinda. (4106)

318. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég fæ þetta mál nú til athugunar í nefnd en er hins vegar búinn að kynna mér það það mikið að ég sé að þau atriði sem þar eru tekin inn, sem eru að mínu viti of fá að vísu, eins og hæstv. ráðh. kom reyndar inn á og viðurkenndi, eru öll til bóta, gera það að verkum að túlkun verði rýmri og auðveldara um vik fyrir Húsnæðisstofnun að snúa sér í ýmsum þeim vafaatriðum sem hafa þvælst þar fyrir núna í framkvæmdinni.

Ég ætla heldur ekki að fara að hefja almenna umræðu svo síðla kvölds alveg sérstaklega vegna þess að það hafa verið miklar umræður um húsnæðismálin almennt hér í þinginu að undanförnu. Fullyrðingar hafa verið miklar til og frá og umræðan heit. Annars vegar hefur hæstv. ráðh. haldið því fram að allt væri í stakasta lagi og mundi vera í stakasta lagi og ekkert væri að óttast. Hins vegar hafa verið fullyrðingar um það að þetta kerfi væri jafnvel sprungið eða ætti eftir að springa á næstunni.

Hið rétta á eftir að koma í ljós í þessum efnum og ég ætla ekki að fara út í allt það sem þar hefur verið sagt. Auðvitað er mikil spurning í mínum huga um það hversu fjármagnið dugar þegar um slíkt stökk er að ræða eins og nú hlýtur að vera bæði í húsbyggingum og húskaupum, við skulum vona sem jafnast um landið því að í raun og veru hefur þessa stökks nú ekki gætt nema hér á Reykjavíkursvæðinu enn þá, en þó kann það að vera að það hafi einhver áhrif til góðs úti á landi einnig. Þá hlýtur maður að spyrja sjálfan sig að því þrátt fyrir það aukna fjármagn sem þarna er komið inn hvort það muni duga vegna þess að menn voru í biðstöðu og höfðu beðið lengi eftir úrlausn. Eðli málsins samkvæmt hlýtur það að vera að þarna verði tæpt, svo að ekki sé meira sagt, varðandi fjármagnið. Það er auðvitað öruggt. Hvort fjármagnsskortur verður, hversu margir standa við það að byggja af þeim sem sækja um, hversu margir standa við það að kaupa af þeim sem sótt hafa um vegna hinna nýju reglna getum við auðvitað ekki og megum út af fyrir sig ekki vera að fullyrða neitt ákveðið um í dag. Það ætla ég mér ekki að gera.

Hitt er svo ljóst að öll þessi umræða, af því að hún hefur ekki fengist á hreint í raun og veru, hefur valdið töluverðri óvissu hjá fólki, töluverðum ótta um það hvernig á því standi t.d. að svo illa hefur gengið hjá mjög mörgum að fá svör hjá Húsnæðisstofnun um það hvort þetta fólk eigi lánsrétt, hversu löng biðin verði þá ef út í það yrði farið og ég veit það að ofálag á þessa stofnun er slíkt núna og hefur verið allt frá haustmánuðum að það er í raun og veru engum mönnum bjóðandi í raun og veru, það álag sem þar hefur verið. Þessi umræða núna þar sem myndin hefur verið dekkt, sumir telja fyllilega ástæðu til, aðrir segja eins og hæstv. ráðh. að hún sé dekkt allt um of, hefur öll orðið til þess að álagið hefur orðið enn þá meira á þessa stofnun og ég get ekki hælt því. Ég hæli þessari stofnun nú almennt fyrir viðskipti við hana en ég hef ekki getað hælt henni núna varðandi þau viðskipti sem ég hef þurft að eiga við hana og alla þá óvissuþætti sem þar hafa komið upp alveg sérstaklega núna á síðustu mánuðum og valda mörgum miklum kvíða og áhyggjum. Þar á ég við það fólk sem hefur þegar keypt og ekki er búið að fá fullnægjandi svör eða er þegar byrjað að byggja og hefur heldur ekki fengið fullnægjandi svör. Ég er ekki að tala um það fólk sem er að hugsa til hreyfings og ætlar að fá vissu um þetta. Menn segja: Hvers vegna gerðu menn þetta? Í mörgum tilfellum var ekki um annað að ræða og þegar fólkið vissi sig eiga nokkurn veginn rétt samkvæmt því sem það gat lesið sér til var auðvitað annaðhvort að hrökkva eða stökkva í mörgum tilfellum og fólk var auk þess í raun og veru með það glæsileg gylliboð upp á vasann, að þetta yrði allt í lagi, að ég skil það fólk vel sem stökk út í nokkra óvissu í þessu efni eftir þá löngu bið sem hafði orðið á þessum málum.

Ekki skal ég draga úr því átaki sem gert var í þessum efnum þegar verkalýðshreyfingin samdi við atvinnurekendur um það að lífeyrissjóðir hreyfingarinnar kæmu svo ríkulega inn í þessa mynd sem raun ber vitni og auðvitað voru kostirnir ótvíræðir með þeirri hækkun lána annars vegar sem þarna kom til varðandi almennt fjármagn inn í húsnæðiskerfið, hækkun á heildarlánum hvort sem þau voru til kaupa á húsum eða til nýbygginga og eins lenging lánanna sem skipti kannske meira máli en flest annað.

Auðvitað vissum við það þegar við vorum að afgreiða þetta mál á sínum tíma að það voru á því ótal gallar og annmarkar. Hér er verið að sníða nokkra þeirra af en enn eru þó, eins og hæstv. ráðh. viðurkenndi áðan, margir eftir sem eiga eftir að valda fólki og stofnun ómældum erfiðleikum og ekki sér fyrir endann á. Það hefur nefnilega komið í ljós þrátt fyrir skylduaðild fólks að lífeyrissjóðum, lögum samkvæmt, að hér er um mjög miklar brotalamir að ræða varðandi þann rétt sem fólk á og margar ástæður líka sem koma inn í þetta. Að vísu er verið að sníða þá agnúa af að sumu leyti núna fyrir suma þeirra, margt sem veldur því að fólk hefur ekki þennan fulla rétt í lífeyrissjóðunum sem þarf til þess að njóta lánsréttar.

Það tvennt sem skiptir þó kannske mestu máli í þessari húsnæðisumræðu er annars vegar það að enn þá er hið svokallaða félagslega kerfi eftir, það liggur enn þá eftir. Það liggur einfaldlega eftir, það vita það allir og þýðir ekkert um það að deila. Það liggur einfaldlega eftir vegna þess að það er ekki samkomulag um það innan ríkisstjórnarinnar hvernig með skuli fara. Hins vegar veit hæstv. félmrh. það að hann hefur til þess þingstyrk hefði hann viljað fara út í það á þeim grundvelli að ná því fram í gegnum annars vegar sinn flokk og hins vegar stjórnarandstöðuna, fyrir því var vilji, að stíga ákveðin skref til mikils gagns í félagslega kerfinu. Hins vegar hefur Sjálfstfl. verið þarna öndverður og við höfum heyrt settar á langar tölur í Sþ. og Nd. varðandi það og þarf ekki frekar að minna á það.

Við vitum að verkamannabústaðakerfið eins og það er nú er orðið vandræðabarn sveitarfélaganna í landinu og mjög víða er þetta mikið vandamál sem þeim fylgir og við verðum annaðhvort að lagfæra það kerfi mjög verulega eða, sem er enn þá líklegra, bæta við við hliðina á því öðru kerfi þar sem hið félagslega íbúðarform nýtur sín til fullnustu. Ég man eftir því að ég las mér til um það hvernig þetta væri í öðrum löndum eitthvað í kringum 1975-1976 og kynnti þá þær hugmyndir í tillögu sem ég flutti hér inn þá um það leyti og menn hristu mjög höfuðið yfir, einmitt það sem menn tala nú kannske mest um, búseturéttarformið, eða eitthvað í þá áttina. Þá man ég eftir að mönnum þótti þetta slík fjarstæða að engu tali tók en það var þá þegar komið í gang í öðrum löndum. Þá var eðlilegt, þegar maður var að flytja tillögu um þessi mál, að maður kæmi inn á það þá fyrir meira en áratug síðan.

Hitt atriðið er svo vandi þessa svokallaða misgengishóps sem við höfum kallað svo sem varð fyrir misgengi lána og launa. Ég er ekkert að draga úr því og skal alveg viðurkenna það að þær ráðstafanir sem við vorum öll sammála um að gera varðandi greiðsluerfiðleika þessa hóps hafa bætt úr fyrir mörgum. Mér dettur ekki í hug að draga það í efa. Hins vegar veit ég það einnig að hjá mjög mörgum lengdi þetta aðeins í hengingarólinni, í snörunni, því miður vegna þess að misgengið hafði komið það hart við þetta fólk. Það veit hæstv. ráðh. líka að allt of stór hluti, þó að margir hafi fengið leiðréttingu, þessa fólks býr enn þá við erfiðleika af þessum sökum og það þarf og á að koma til móts við það með þeim hætti sem heppilegastur er og réttlátastur einnig vegna þess að það voru stjórnvaldsaðgerðir fyrst og síðast sem ollu því á sínum tíma að þetta fólk lenti í þeim gífurlegu erfiðleikum sem raun bar vitni.

Ég hef á liðnum mánuðum fengið að kynnast óteljandi dæmum um það hvað þessi nýju lög hafa valdið mörgum einstaklingum miklum erfiðleikum vegna þeirrar breytingar sem á hefur orðið varðandi rétt til húsnæðisláns. Það er í raun og veru ótrúlegt. Mér finnst það satt að segja til umhugsunar fyrir okkur hér á Alþingi hvað miklar brotalamir virðast vera á því að fólk greiði í lífeyrissjóði. Það sem manni dettur fyrst í hug er að fólk hreinlega sleppi því að greiða í lífeyrissjóði en fái greiðslurnar beint í launaumslagið, eins og er um ýmsar aðrar greiðslur sem veita fólkinu félagsleg réttindi, veita því tryggingu í veikindum, veita því öryggi í ellinni o.s.frv. Þetta atriði er með þeim hætti að við mættum gjarnan huga að því og kemur auðvitað inn á þá allsherjar lífeyrissjóðsumræðu sem hér hefur verið í landinu og hvernig við eigum að koma þar á sem mestu jafnræði.

Ég hef lengi sagt það, og skal láta það vera mín lokaorð, af því að þessi mál hafa óneitanlega blandast inn í þetta, að við eigum að nota almannatryggingakerfið til þess að jafna lífeyri fólks á elliárunum, alveg tvímælalaust, ganga enn lengra í tekjutryggingaráttina til þess arna. Það er meginatriði þessa máls. Við sáum það upp úr 1971 hverju var hægt að breyta og hve mikið var hægt að jafna með tekjutryggingarákvæðinu sem þá kom og ef við gengjum þá götu nógu langt gætum við a.m.k. veitt öllum sómasamlegt viðurværi varðandi lífeyri á elliárum þó að aldrei verði sjálfsagt gengið þannig frá málum að eitthvert misræmi verði ekki.

Ég mun að sjálfsögðu greiða fyrir því að þetta mál fái fljóta athugun í nefnd og afgreiðslu vegna þess að það munu allir vera sammála um þau meginatriði sem það hefur inni að halda.