16.03.1987
Efri deild: 67. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4353 í B-deild Alþingistíðinda. (4114)

209. mál, sjómannadagur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma því á framfæri að ég er mjög ósáttur við þá breytingu sem gerð var í Nd. á því frv. sem við erum að ræða nú. Ég tel þessa breytingu á misskilningi byggða og óttast það að hún verði til þess að hátíðahöld sjómannadagsins um hinar dreifðu byggðir landsins verði risminni en ella ef eftir þessu verður farið. En ég vænti þess að á næsta þingi gefist rúm til að breyta þessu á þann veg sem skynsamlegast er, að í þeim tilvikum sem tilfærsla þarf að vera á sjómannadegi, þá verði hann fluttur fram en ekki aftur.

Breyttir útgerðarhættir, breytt þjóðfélag gerir það að verkum að þessi háttur er eðlilegri. Sú breyting sem gerð var í Nd. hefði kannske verið eðlileg fyrir 30 árum síðan, en vilji menn skynja hvað er að ske meðal sjómanna og átti menn sig á því hvaða veiðihættir eru hafðir í frammi nú, þá sjá menn að frv. eins og það kom frá Ed. var eðlilegra og þjónaði betur hagsmunum sjómanna heldur en sú breyting sem kemur frá Nd.

En til samkomulags þá hef ég eins og aðrir í sjútvn. samþykkt að hleypa þessu fram hjá vegna þess að við óttumst að ella verði málið drepið, komist ekki í gegn og sá sómi, sem við ætluðum að sýna sjómannastéttinni með samþykkt þessa frv., yrði að engu.