03.11.1986
Neðri deild: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

70. mál, stjórnarskipunarlög

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég tek til máls til að segja nokkur orð um það frv. sem hér er á dagskrá, þ.e. frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, um breytingu á 51. gr. Í henni felst, eins og flm. hefur ágætlega lýst í sinni framsöguræðu, að ráðherrar skuli eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi en eiga þar ekki atkvæðisrétt. Hér er hreyft máli sem áður hefur verið flutt í

þingsölum og er að mörgu leyti athyglisvert mál. Þetta er atriði sem má segja að mörgum rökum og stoðum megi undir renna, að ráðherrar skuli ekki gegna störfum sem þm. í raun, því að það er raunverulega það sem í þessu frv. felst, heldur skuli þá koma inn varamenn fyrir þá alþm. sem taka að sér ráðherraembætti. Það er sá siður sem tíðkast í Noregi og hefur þar um langa hríð verið viðhafður og er þar stjórnarskrárbundinn.

Ég hef haft tækifæri til að kynna mér lítillega hvernig þetta fyrirkomulag hefur reynst í Noregi og jafnframt ýmis önnur þau stjórnskipunarákvæði sem ólík eru íslenskum stjórnlögum. Þar er þó efst á blaði, og sem mesta athygli okkar Íslendinga hlýtur að vekja, það ákvæði norsku stjórnarskrárinnar að ekki sé unnt að rjúfa þing. Í Noregi ríkir enginn þingrofsréttur.

Ég spurðist fyrir um bæði þessi atriði í kynnisför sem ég og þáverandi formaður stjórnarskrárnefndar, Gunnar heitinn Thoroddsen, fórum fyrir nokkrum árum til norska Stórþingsins til að fjalla um þessi mál og afla upplýsinga. Fyrir svörum varð þáverandi forseti Stórþingsins, Guttorm Hansen. Mér er það minnisstætt og vildi minnast á það í þessari umræðu að hann gat þess sem svar við spurningum okkar um bæði þessi atriði að Norðmenn væru mjög ánægðir með þessa skipan mála, með það fyrirkomulag í stjórnarskrá Noregs sem mælir svo fyrir að ekki skuli vera um neinn þingrofsrétt að ræða. Það mál er vitanlega ekki á dagskrá hér, en einnig hitt nefndi hann að það reyndist vel að ráðherrar hefðu ekki atkvæðisrétt, þ.e. varamenn tækju sæti þingmanna þegar þeir gerðust ráðherrar. Rökin fyrir því fyrirkomulagi eru þau, sem í sjálfu sér koma fram í þeirri skipan sem við búum við hér, að ráðherrar taka ekki sæti í nefndum, að ráðherrastarfið er svo erilsamt, svo annasamt og svo umfangsmikið að í raun er verið að létta störfum af ráðherrum þannig að þeir geti heilir og óskiptir annast hin mikilvægustu stjórnsýslustörf sem þeir fara með í þjóðfélaginu. Jafnframt hljóta þeir embættisstöðu sinnar vegna sem æðstu handhafar framkvæmdavaldsins að eiga sæti á Alþingi sem þm. og svara þá fyrir gerðir sínar einnig ef því er að skipta án þess að eiga þar atkvæðisrétt.

Segja má að það sé ofmælt í grg. þar sem sagt er að ráðherrar geti á engan hátt gegnt þingmennsku þannig að fullnægjandi sé. Ráðherrar okkar hafa sýnt fram til þessa að þeir geta gegnt þingmennsku. Það er kannske nokkuð djúpt í árinni tekið að þeir geri það ekki svo fullnægjandi sé. Spurningin er miklu fremur sú hvort ástæða er til að bæta úr í þessum efnum og gera þeim auðveldara að rækja ráðherrastarfið þannig að þeir geti í þeim efnum um frjálsara höfuð strokið. Það er því hreyft hér athyglisverðri hugmynd sem á vel við á kosningaþingi vegna þess að ef Alþingi samþykkir breytingar á stjórnarskipunarlögunum er það stjórnskipunarregla og óhjákvæmilegt skilyrði að rjúfa verður þing og efna til nýrra kosninga. Það er þess vegna sem breytingar á stjórnarskipunarlögum eru jafnan bornar upp á síðasta þingi fyrir kosningar þegar unnt er og eðlilegt að beita þingrofi í lok þings. Þetta frv. er því lagt fram alveg á réttum tíma.

Ég mun ekki á þessu stigi kveða upp efnislegan dóm eða mæla með því að frv. verði samþykkt, en nauðsynlegt er að það fái vandlega athugun í nefnd. Þar að auki vildi ég sérstaklega minnast á að starfandi er hér nefnd sem Alþingi kom á laggirnar 1978 og nefnist stjórnarskrárnefnd. Um hana hefur nokkuð verið spurt á síðustu vikum hér á Alþingi. Þetta er vitanlega mál sem heyrir beint undir þá nefnd. Ég upplýsi að þetta atriði, sem hv. flm. hefur nefnt hér og lagt fram frv. um, hefur verið rætt í stjórnarskrárnefnd Alþingis og fengið þar þó nokkra umfjöllun. Í sjálfu sér hefur því nokkuð verið unnið í málinu nú þegar, en mér sýnist einborið að þegar þetta frv. er komið á dagskrá þingsins nú í dag til 1. umr. í Nd. komi það einnig til umræðu í stjórnarskrárnefnd sem fjalli um það og fái fram niðurstöðu um það innan sinna veggja.