17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4372 í B-deild Alþingistíðinda. (4131)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það eru nokkur atriði varðandi vegáætlun sem ég vildi ræða við þessa umræðu og hafa þó þessum málum verið gerð góð skil af talsmönnum Alþb. hér, bæði við fyrri umræðu við þetta mál og nú af hv. þm. Geir Gunnarssyni, en Helgi Seljan ræddi þessi mál ítarlega, hv. 2. þm. Austurl., við fyrri umræðu um vegáætlun.

Ég spara mér að taka mikið á þeim þáttum sem þeir véku að í sínu máli, en bendi á hina mjög skýrt fram settu útreikninga sem hv. þm. Geir Gunnarsson hafði yfir í sínu máli áðan og sem sýna skýrt og ótvírætt hvernig ríkisstjórnin hefur brugðist viljayfirlýsingu eða stefnumörkun, sem samstaða var um á Alþingi á sínum tíma í sambandi við vegamálin, hvernig haldið hefur verið á þeim málum af ríkisstjórninni. Og það er auðvitað meginmálið þegar við erum að ræða þetta hér og svo það sýndarplagg sem hér er sýnt í formi vegáætlunar fyrir árin 1988 til 1990, sem engin innistæða er fyrir í sambandi við tekjuöflun til að þoka því hlutfalli til betri vegar sem Alþingi ræddi um á sínum tíma, 2,4% af þjóðarframleiðslu.

Ef litið er til baka eru það 1800 millj. kr. tæpar sem skortir á varðandi fyrsta tímabilið af þeim tólf sem sett var fram áætlun um á sínum tíma, 1800 millj. í nýframkvæmdir einar saman sem á vantar til þess að við það sé staðið og mér finnst það mikil hógværð þegar menn eru að reyna að klóra yfir það, eins og formaður fjvn., hv. þm. Pálmi Jónsson, gerði í sínu máli hér, þegar hann mælti fyrir nál. fjvn., og reyna að hreinsa ríkisstjórnina af þessum gerðum og stjórnarmeirihlutann með því að tekist hefði að nýta fjármagnið betur en menn hafi séð fyrir á sínum tíma. Raunar virtist mér hafa verið tekið undir þetta af talsmanni stjórnarandstöðu, hv. 7. landsk. þm. Kristínu Halldórsdóttur, sem tók undir það í rauninni. Ég skil ekki þá hógværð af stjórnarandstæðingum að geta mælt þeim niðurskurði bót sem hér er um að ræða og sem bitnar auðvitað öðru fremur á landsbyggðinni. Menn skulu ekki halda að þess hefði verið að vænta að fá þetta fjármagn í eitthvað annað frá ríkisstjórninni. Um þessi mál virtist vera samstaða á Alþingi á sínum tíma og við hljótum að gera kröfu til þess að stjórnvöld á hverjum tíma standi við vilja sem fram kemur á Alþingi, hvort sem formlega er frá því gengið eða ekki í þeim efnum. Hér horfum við til baka, til fyrsta tímabilsins að þessu leyti og sjáum hvað við blasir. Það er rétt að það hefur ekki komið í aðra þætti samgöngumála sem skorið hefur verið niður til vegamálanna, ekki í hafnirnar, ekki í flugmálin, en það hefur heldur ekki komið í barnaheimilin eða aðrar samfélagslegar framkvæmdir og hefur það mál verið rætt hér áður.

Ég rifja upp í sambandi við fjáröflun til vegagerðar að ríkisstjórnin og hennar stuðningslið á Alþingi hagnýtti ekki þær verðbreytingar, þá lækkun sem varð á olíuvörum á síðasta ári, þá miklu lækkun sem varð á innflutningsverði á bensíni og öðrum olíuvörum til að bæta svolítið um varðandi niðurskurðinn á fjárframlögum. Ég ræddi það á Alþingi fyrir ári u.þ.b. að þannig ætti að taka á málum og hæstv. samgrh. tók það mál upp í ríkisstjórn nokkru seinna, en það hafði engin áhrif. Undir það var ekki tekið af meiri hluta í ríkisstjórn og voru þar sérstaklega tilgreindir á síðum Morgunblaðsins hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson og hæstv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson sem voru hvað fyrstir til að kveða þær hugmyndir niður. Ég held að það sé rétt að menn rifji það upp hér svo sjálfsagt sem það hefði verið að nýta þetta tækifæri af hálfu stjórnarliðsins til að bæta um vanefndir sínar í vegamálunum. Það er ekki hægt að bera við samningum á vinnumarkaði í sambandi við það því að sú lækkun sem gert var ráð fyrir í kjarasamningum á sínum tíma varðandi lækkun á olíuvörum var hvað snertir bensínverðið rétt um 30 kr. á lítrann, en verðið fór langt niður fyrir það og er enn neðan við þau mörk og hefði áreiðanlega enginn brestur orðið í landinu þó að menn hefðu tekið þann hagnað sem þjóðarbúið fékk með þeim hætti til að fylla í skörðin í vegamálunum.

Það er raunalegt að heyra málflutning af því tagi sem var uppi hafður að hluta af hv. þm. Karvel Pálmasyni. Ég kann því illa þegar þm. af landsbyggðinni, í þessu tilviki stjórnarandstæðingur eins og ég, eru að gera þennan brýna þátt samfélagslegra framkvæmda að einhverju karpi milli kjördæma og þeirra kjördæma sem hallast standa í sambandi við framkvæmdir í vegamálum. Þær athugasemdir komu frá hæstv. sjútvrh., sem hann mælti fyrir hönd okkar þm. Austurlands eins og menn heyrðu í hans máli, út af því hvernig háttað er fjárveitingum til Austurlandskjördæmis í sambandi við þá áætlun sem hér liggur fyrir og þau augljósu mistök sem þar liggja fyrir af hálfu fjvn. og e.t.v. misskilnings á milli fjvn. og Vegagerðar ríkisins í sambandi við skiptingu fjármagns á einstök ár á því áætlunartímabili sem hér liggur fyrir.

Ég held að við stjórnarandstæðingar og landsbyggðarþingmenn upp til hópa, hvar sem þeir standa, hvort sem þeir standa í stjórn eða stjórnarandstöðu, þurfi að átta sig á því að menn þurfa að sýna og vernda ákveðna samstöðu í brýnustu undirstöðuframkvæmdum eins og vegamálunum. Hæstv. samgrh. sagði að djöflarnir væru margir sem þar væri við að glíma, það væru smádjöflar, en þeir eru greinilega nokkuð stórir þegar saman er lagt. Og auðvitað er það stjórnarstefnan og þeir sem þar ráða ferðinni, og það virðist vera sem það sé ekki hæstv. samgrh., sem hafa knésett ríkisstjórnina og meiri hluta hennar hér á Alþingi með þeim hætti sem hér liggur fyrir. Og þetta eiga menn að viðurkenna. Þetta ætti hv. þm. Pálmi Jónsson að viðurkenna þegar hann talar fyrir þessari niðurskurðartillögu. Og að halda því fram að breytt tilhögun í vegaframkvæmdum með því að hverfa frá uppbyggingu veganna áður en lagt er bundið slitlag og með því að setja á eina breidd, eina akbraut með bundnu slitlagi í staðinn fyrir tvær; að þetta sé að halda í horfinu, ja, það eru lítilþægir menn sem þannig tala. Halda menn að vegirnir séu samir eftir slíka breytingu á framkvæmdatilhögun? Halda menn að öryggið í umferðinni sé hið sama þegar menn eru komnir með bundið slittag upp á 3,8 m þar sem tæpast er hægt að mætast með öryggi á bundnu slitlagi? Geta menn réttlætt þennan niðurskurð á framlögum með slíku? Ég get ekki tekið undir það.

Ég vil taka undir þann fyrirvara og þá gagnrýni sem hæstv. sjútvrh. hafði uppi í sambandi við framlög til Austurlandskjördæmis, en ég geri það ekki á kostnað Vestfjarða eða annarra kjördæma í landinu, ekki með því að vera að gagnrýna að það renni of mikið til annarra kjördæma. Það er heildin sem er skorin niður öllum til baga, en þegar mun minna er til skiptanna en menn höfðu vænst er meðferð af þeim toga sem varðar Austurlandskjördæmi og hæstv. sjútvrh. vék að áðan í máli sínu mun tilfinnanlegri en ella. Það sem hér liggur fyrir er í stuttu máli sagt að Austurlandskjördæmi nær ekki áætlaðri reiknitölu að því er virðist á öllum árum þessa tólf ára tímabils í sambandi við vegáætlun á sínum tíma.

Hvað snertir það tímabil sem hér er til umræðu er það fyrst á síðasta árinu sem menn ná þeirri prósentu sem Austurlandskjördæmi er heitið, og þar er ekki einu sinni skipt því fjármagni sem er til ráðstöfunar á það ár. Þar liggur skiptingin ekki fyrir nema að því er varðar sérverkefnin. Þetta er auðvitað ekki í lagi og þetta lá ekki fyrir þingmannahópi Austurlands. Þó að einn úr hópi þm. skrifi undir álit fjvn. án fyrirvara lá það ekki fyrir þm. Austurlands að málin lægju fyrir með þeim hætti sem hér blasir við að framlögin á þeim þremur árum sem hér eru til skipta eru langt undir þeirri reiknitölu sem kjördæminu er ætlað á þessu tímabili. Okkur er stillt upp fyrir gerðum hlut og hljótum að gera athugasemdir við það. En ég ítreka að það er ekki vegna þess að við lítum öfundaraugum til annarra kjördæma þar sem of lítið er til skipta.

Einn þáttur sem ég vil nefna er jarðgangagerðin. Það er ánægjuefni að það eru loforð uppi um að ráðast í brýna gerð jarðganga undir Ólafsfjarðarmúla og ákveðin fyrirheit gefin í því efni og við skulum vona að það verði einhver innistæða fyrir þeim loforðum sem þar eru framreidd í orði, en frammistaða stjórnvalda í sambandi við jarðgangagerð er kapítuli út af fyrir sig. Það liggur ekki fyrir nein heildstæð áætlun um slíkar framkvæmdir svo augljóslega brýnar sem þær eru sem einn þáttur samgöngumálanna og gætu fært heilum landshlutum stórfelldar hagsbætur. Ég orða það svo að það er mikil hógværð hjá löggjafanum og framkvæmdarvaldinu að menn skuli láta nægja ár eftir ár að velta því fyrir sér, af hverju áætlaðar kostnaðartölur til jarðgangagerðar séu svo miklu hærri á Íslandi en í grannlöndum okkar, í stað þess að ráðast í framkvæmdir og láta reynsluna skera úr, fá reynslu af jarðgangagerð í reynd með þeirri fullkomnustu tækni sem völ er á, með því að láta það opinbera, og í þessu tilviki Vegagerð ríkisins, standa fyrir slíkum framkvæmdum með fullkomnustu tækni þar sem unnið væri í samfellu allt árið um kring að jarðgangagerð samkvæmt áætlun sem menn hefðu gengið frá á Alþingi, ákveðinni forgangsröðun framkvæmda fram í tímann. Um það þarf auðvitað að vera samkomulag. Samgöngumálin, vegamálin sem einn þáttur samgöngumála, eru eins og hér hefur verið rakið slíkt undirstöðuatriði, arðbært hvernig sem á það er litið, einnig á mælikvarða reiknistokksins, og ég tala nú ekki um í félagslegu tilliti, að það er ósæmilegt hvernig staðið hefur verið að þeim málum á liðnum árum og alveg sérstaklega nú þegar menn hafa mun meira til skipta en áður. Það er ósæmilegt og undarlegt að nokkur skuli hafa sig í að vera að réttlæta það sem þar blasir við.

En auðvitað þarf að taka samgöngumálin í heild sinni til endurskoðunar og samræmingar eins og lagt hefur verið til ítrekað af Alþb. að gert verði og m.a. í þáltill. sem liggur fyrir þinginu, 1. flm. hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, um samræmingu áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar þar sem taka þarf á öllum þáttunum og ganga í þessi mál með heildarhagkvæmni í huga og hagsbætur fyrir viðkomandi byggðarlög. Slíkrar áætlunar söknum við og það er eitt af brýnum verkefnum að ráðast í að ganga frá slíku og skapa samstöðu um áherslur og umfram allt fjármagn sem þarf til þessara brýnu samfélagslegu verkefna.