17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4388 í B-deild Alþingistíðinda. (4135)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þeirra ummæla hv. 3. þm. Norðurl. e. Stefáns Valgeirssonar, að í hans huga væri Ólafsfjarðarmúlinn kominn í biðstöðu og var ekki annað að heyra á efni hans ræðu en að hann gerði lítið úr þeirri bókun sem birt er í nál. fjvn. og ég vil þakka fjárveitinganefndarmönnum fyrir. Ég er algerlega ósammála hv. þm. og þykir raunar leiðinlegt að hann skuli tala með þessum hætti í þessum ræðustól. Við munum eftir því að þegar samkomulagið var á sínum tíma gert um Ó-vegaáætlunina var það staðfest í nál. meiri hl. nefndarinnar 18. maí 1981 og það er mér sérstakt fagnaðarefni að öll fjvn. skuli nú standa að svofelldri yfirlýsingu, með leyfi hæstv. forseta:

„Í því samkomulagi sem gert var um svokallaða Ó-vegi var út frá því gengið að fyrst yrði lokið við veginn fyrir Ólafsvíkurenni síðan við veginn um Óshlið, en í beinu framhaldi yrðu gerð jarðgöng gegnum Ólafsfjarðarmúla. Gert var ráð fyrir sérstakri fjárútvegun í þessu skyni. Samkvæmt vegáætlun verður byrjað á jarðgöngum í gegnum Ólafsfjarðarmúla árið 1988. Fjvn. lýsir yfir þeim vilja sínum að aflað verði sérstaks framkvæmdafjár til þessa verkefnis til þess að jarðgangagerðin geti haldið viðstöðulaust áfram og með eðlilegum hraða að mati Vegagerðar ríkisins.“

Svo mörg voru þau orð. Á bak við þessa yfirlýsingu standa fulltrúar allra þeirra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi og þetta er sú nefnd sem eðlilegt er að fjalli um vegamál og vegáætlun. Ég sé ekki annað en þessi málsmeðferð sé fullkomlega eðlileg. Á þessari stundu er ógerningur að slá því nákvæmlega föstu hve mikið fjármagn þurfi til jarðgangagerðarinnar þau ár sem verið er að brjótast í gegnum fjallið. Það hefur verið talið af Vegagerð ríkisins að það þurfi um 140 millj. kr. hvort árið 1989 og 1990 og telur Vegagerðin að hún hafi þar borð fyrir báru. Miðað við reynslu alþm. af Vegagerðinni má ætla að hún reynist þar sannspá því að þeim hefur ekki verið lagið að vera með neinar skýjaborgir þegar þeir hafa talað um framkvæmdahraða eða vegáætlun heldur reynt að vera gætilegir í sinni áætlunargerð. Ég efast ekki um að við þetta verði staðið. Ég ítreka það. Hér er um það að ræða að allt þingið stóð að ákveðnu samkomulagi um framkvæmdaröð um stór og kostnaðarsöm verkefni. Þetta er síðasta verkefnið í þeirri áætlun og ég held að þm. sé ljóst að nauðsynlegt sé að hægt sé að ná slíkum áætlunum framvegis þegar um mikil verkefni er að ræða. En til þess að um slíkt geti tekist samkomulag verður að sjálfsögðu að standa við slík samkomulög þegar þau eru gerð.

Ég ítreka þakkir mínar til fjvn. og veit að Alþingi mun standa við þau orð sem skrifuð standa í áliti fjvn.