03.11.1986
Neðri deild: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

70. mál, stjórnarskipunarlög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð til að lýsa vissum efasemdum í sambandi við frv. sem hér liggur fyrir á þskj. 70. Ég get efnislega verið sammála því að ráðherrar gegni ekki þingmannsstörfum, en þá held ég að sú spurning hljóti líka að vakna hvort þingmenn eigi almennt að gegna öðrum störfum en þingmannsstörfum. Hér gegna menn alls kyns embættum samfara þingmannsstörfum og við vitum það öll sem hér sitjum að það bitnar mjög á störfum manna í þinginu. Við höfum rætt það nær á hverju einasta ári hversu störf þingnefnda gangi hægt og illa fyrir sig og þekkjum öll hvernig það gengur fyrir sig á ári hverju að nefndastörf hefjast í raun og veru tæpast fyrr en líður að þinglokum og í besta falli rétt fyrir þinghlé vegna þess að ríkisstjórnir þurfa að koma einhverjum málum af sér fyrir áramót.

Það er enginn vafi á því að umfangsmikil störf manna úti í þjóðfélaginu eru á engan hátt samrýmanleg þingstörfum ef vel á að vera. Um leið og ég tek undir að um þetta mál verði fjallað af mikilli alvöru, því ég tel að þetta sé mál sem vissulega er vert að ræða og vert að bera fram, vona ég að þá verði litið til þess til hvers sé ætlast af þingmönnum almennt. Þá vil ég líka benda mönnum á að rætt verði um leið hvernig beri að launa þingstörf því að það er alveg ljóst að hátekjumenn sem eru kjörnir á þing stórtapa fé við það. Það vita allir þeir sem hér hafa setið. Þannig held ég að verði að skoða þessi mál í heild og þá einnig hvort menn vilji þá virkilega gera þær kröfur til þingmanna að þeir gegni engum öðrum störfum. Þróunin hefur vissulega verið í þá átt meira en áður var, enda orðin nokkur bót á kjörum þingmanna, en ég held að samt séu þó nokkrir þingmenn sem gegna umsvifamiklum störfum úti í þjóðfélaginu og mér sýnist allt benda til þess að ekki minnki það eftir næstu kosningar ef svo fer sem horfir. Þess vegna bið ég hæstv. forseta að beina þeim tilmælum til þeirrar nefndar, sem um þetta mál kemur til með að fjalla, að litið verði til aukastafa þm. í heild en ekki einungis talað um hvort þm. megi vera ráðherrar jafnframt þingstörfum.