17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4403 í B-deild Alþingistíðinda. (4148)

Afgreiðsla þingmála

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að taka til máls í þessari umræðu vegna þeirra orða sem hér hafa fallið út af því máli sem hér hefur verið tekið upp nndir liðnum þingsköp. Ég skil mjög vel að hv. þm. eins og Guðrúnu Helgadóttur og ugglaust mörgum fleirum þyki mjög miður að öll þau mál sem borin eru fram á þingi nái ekki endanlegri afgreiðslu í þingnefndum.

Ég hygg að það sé sameiginleg reynsla allra þm. að mál sem við höfum flutt, hvort sem við tilheyrum stjórnarliðinu eða erum í stjórnarandstöðu, fá ekki endanlega afgreiðslu. Það hefur jafnan verið svo og það er einnig svo á þessum vetri.

Ég get nefnt dæmi af eigin tillögum sem ég hef flutt í þeim nefndum sem ég á sjálfur sæti í og ekki hafa hlotið afgreiðslu, jafnvel þó að ég sé formaður í hlutaðeigandi nefnd, félmn. Sþ. Ég nefni það hér vegna ummæla hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur. Það er því vel skiljanlegt að þm. séu að mörgu leyti óánægðir með það að mál þeirra gangi ekki öll fram til samþykktar á þingi.

Ég vil hins vegar minna á að ýmisleg mál hafa þó náð samþykkt sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur borið fyrir brjósti og það segi ég eingöngu í tilefni af orðum hennar áðan. Ég minni aðeins á það síðasta að fyrir nokkrum mínútum hygg ég var verið að dreifa þskj. 936 sem er nál. frá félmn. Sþ. um till. til þál. um skipulegt átak til aukinnar sjúkra- og iðjuþjálfunar í heilsugæslu. Hér er ein af þáltill. þeim sem félmn. Sþ. hefur samþykkt og ég vil aðeins nefna hver var flm. þessarar ágætu og gagnmerku tillögu. Það var hv. alþm. Helgi Seljan. Þá tillögu bar Guðrún Helgadóttir mjög fyrir brjósti og studdi í nefndinni.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir nefndi frv. sem hún og fleiri þm. fluttu um breytingu á barnalögunum. Það hefur verið borið hér fram, að vísu í örlítið breyttri mynd, af nefndinni. En eins og hún gat réttilega um gekk málið fram efnislega og er annað dæmi um mál sem mjög duglegur, virkur og athafnasamur alþm. hefur borið hér fram með miklum árangri.

Að því er varðar það mál sem hv. málshefjandi vék að hér áðan, sem er till. til þál. á þskj. 959, um undirbúning lífeyrissjóðsréttinda þeirra sem sinna heimilis- og umönnunarstörfum, er það alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. að hér er ekki um neitt nýmæli að ræða í þingsölum, heldur mál sem oft hefur verið fjallað um áður og verið hreyft á þingi, ekki aðeins á þessu ári, heldur líka á liðnum árum. Það er líka hið þarfasta mál.

Nú þegar hefur þessu máli raunar verið hreyft tvisvar áður á þessu þingi, bæði af hálfu Jóhönnu Sigurðardóttur á þskj. 49 og einnig í frumvarpsformi af fulltrúum Kvennalistans. Þar er um mjög áþekk mál að ræða því sem fram kemur á þskj. 959. Ég vek athygli á að mál Kvennalistans er eldra á þessum vetri í þingsölum en málið á þskj. 49.

Það er ekkert einstakt að þm. beri fram tillögur um áþekk mál eða jafnvel sama málið.

Ég nefni annað dæmi á þessum vetri í því sambandi. Á þskj. 11 bera þm. Kvennalistans fram till. til þál. um endurmat á störfum kvenna. Þskj. 53, borið fram af Jóhönnu Sigurðardóttur o.fl., fjallar um endurmat á störfum láglaunahópa, en eins og allir vita eru konur því miður láglaunahópar.

Ég get nefnt ýmis fleiri dæmi. Ég get nefnt dæmi um það að á síðasta þingi og á þessu þingi höfum við nokkrir þm. Sjálfstfl. borið fram frv. um umboðsmann Alþingis, áþekkt frv. sem fyrst var borið fram fyrir um það bil 15 árum. Síðar á þessum vetri kemur fram frv. um umboðsmann Alþingis sem er stjfrv. Það var nánast alveg samhljóða því frv. sem við nokkrir þm. höfðum borið fram í fyrra og fyrr á þessu þingi um það efni.

Það mætti kannske líka minna á till. til þál. sem ég ásamt nokkrum öðrum þm. bar fram fyrr í vetur á þskj. 180, um samræmingu í stjórn umhverfismála. Til þess að gera nýlega kom fram önnur till. á þskj. 302 sem fjallaði einnig um umhverfismál og var ákaflega áþekk hinni fyrri tillögu.

Ég nefni aðeins þessi dæmi til þess að vekja athygli á því að í sjálfu sér á enginn þm. einkarétt á neinu máli og það er alsiða að borin eru fram frumvörp eða tillögur um svipuð efni. Ég vil hins vegar nefna það að mér sýnist alveg sjálfsagt vegna þeirra tillagna um lífeyrissjóðsréttindi þeirra sem sinna heimilis- og umönnunarstörfum að félmn. Sþ. fjalli um þær tillögur báðar í einu lagi og, ef flm. kjósa, sameini þær tillögur annaðhvort í einni tillögu eða hugi að afgreiðslu þeirra á annan máta. Það finnst mér alveg sjálfsagt og mun beita mér fyrir því sem formaður í félmn. Tillöguflutningur okkar er gerður til málamiðlunar í nefndinni.