17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4405 í B-deild Alþingistíðinda. (4150)

Afgreiðsla þingmála

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að svara hv. þm. Gunnari G. Schram vegna þess að ég held að hann hafi algjörlega misskilið mál mitt áðan. Ég hef aldrei vefengt þann lýðræðislega rétt meiri hl. að samþykkja ekki eina einustu tillögu sem ég eða aðrir þm. bera fram. Vitaskuld verður maður að lúta því ef ekki er þingstyrkur til að koma málum fram. Það sem ég hins vegar hlýt að gera athugasemd við, ef hann er augljós og meiri hlutinn er samþykkur því máli sem við höfum flutt, er auðvitað gersamlega út í hött að leggja fram nýja samhljóða tillögu og erfitt að rökstyðja hvers vegna málið sem fyrr var flutt hefur ekki hlotið eðlilega afgreiðslu.

Jafnframt minntist ég á að ég hefði haldið að hver einasti a.m.k. akademískur fræðimaður virti þann sjálfsagða rétt annars fræðimanns að fari hann inn á hans svið í sínum fræðiskrifum sé getið þeirra verka sem áður hafa verið unnin í fræðunum. Þetta eru svona almennir mannasiðir, sem ungu fólki eru kenndir í menntaskólum, að geta heimilda og geta samstarfs eða þess starfs sem áður hefur átt sér stað.

Hv. þm. minntist á umboðsmann Alþingis sem hann vissulega var 1. flm. að en það frv. var reyndar unnið af opinberri nefnd og þess vegna dálítið kyndugt að það skyldi borið fram á þann hátt sem það kom fyrst fram á. Ég vil vekja athygli á því að í grg. fyrir því frv. sem ríkisstjórnin síðan bar fram var öll saga málsins rakin frá upphafi. Hver einasti þm. nefndur á nafn sem hafði komið nálægt því máli að sjálfsögðu.

Ég vil líka vekja athygli á því að í frv. til laga um umboðsmann barna sem ég hef sjálf ásamt fleirum lagt fram hér á hinu háa Alþingi var ég svo nákvæm að ég vitnaði ekki í áðurflutt frv., heldur þátt, eina setningu í,grg. fyrir frv. um allt annað efni, þar sem hv. þm. Árni Gunnarsson hafði minnst á að nauðsynlegt væri að stofna þetta embætti fyrir mörgum, mörgum árum. Það var ekki einu sinni í máli sem fjallaði um það. Þetta þykja mér vinnubrögð sem eru bara gjörsamlega sjálfsögð og sjálfsagt að hvenær sem þm. vinnur tillögu eða frv. kanni hann hér í skjölum Alþingis hvort slík mál hafa verið borin fram áður og þá af hverjum. Það er sjálfsögð virðing fyrir vinnubrögðum okkar, vinnubrögðum hvers annars hér á hinu háa Alþingi.

Ég skal ekki lengja mál mitt hér. Á þeim tveimur málum sem hér eru til umræðu er nákvæmlega sá munur, að önnur tillagan felur fjmrh., hin ríkisstjórninni, að beita sér fyrir því að þeir öðlist lífeyrisréttindi sem sinna heimilisstörfum. Í tillögu hv. þm. Gunnars Schram er bætt við: og umönnunarstörfum. Þetta er auðvitað nákvæmlega sama tillagan, það fer ekki á milli mála, og hlýtur því að vera undarlega að farið.

Ég ítreka spurningu mína, hæstv. forseti. Hver sér í raun og veru um að mál séu sett fram hér á hinu háa Alþingi með þeim virðulega hætti og þeim eðlilegu vinnubrögðum sem við, a.m.k mörg, vona ég, teljum sjálfsögð?