17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4406 í B-deild Alþingistíðinda. (4151)

Afgreiðsla þingmála

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir mjög réttmæta gagnrýni hv. þm., 5. landsk. og 10. landsk. þm., gagnrýni á vinnubrögð hérna í þinginu, og enda þótt ég fagni mjög áhuga hv. þm. og stuðningi við réttindamál heimavinnandi húsmæðra með þeim tillöguflutningi sem hér birtist á þskj. 959, sem er, eins og hefur komið fram, ákaflega áþekkur þingmáli sem þm. Alþfl. fluttu fyrr á þessu þingi, vil ég benda á að þm. Kvennalista hafa gengið enn lengra og flutt frv. um þetta mál sem er 27. mál þessa þings og hefur ekki fengist afgreitt úr nefnd. Ég held að þinginu væri einfaldlega mest til sóma að taka það mál fyrir og afgreiða því að það er þó í frumvarpsformi og væri hægur vandi að gera það að lögum ef nokkur einasti vilji væri fyrir hendi til að taka á þessum málum. Það væri einfaldast og kæmi heima vinnandi húsmæðrum best.

Ég hlýt líka að samsinna því sem hefur komið hérna fram að það virðist ekki sama hvaðan gott kemur og það hefur oft undrað mig hve hv. þm. virðast lítið hafa fyrir því að kynna sér hvaða mál hafa komið fram á þinginu þó að ég geri ekki lítið úr því að það sé gott að fá sem oftast umræður um svipuð mál ef þau eru góð. Það virðist satt að segja vera viðtekin venja og hefð hreinlega að hundsa mál sem koma t.d. frá stjórnarandstöðunni og þeim sem fylgjast með störfum þingsins virðist þykja þetta eðlilegt.

Ég tók eftir því nýlega að það var verið að fjalla um Kvennalistann og störf þingkvenna Kvennalista í Staksteinum Morgunblaðsins og höfundur lét sig hafa það að gefa þingkonum Kvennalistans einkunn þar. Sú einkunn var að vísu harla góð. Við þóttum málefnalegar og duglegar, hæfar, held ég að hafi verið sagt, en við vorum svo ólánssamar að vera ekki í réttum samtökum og þess vegna kæmi þetta okkur ekki að gagni. Betri stuðningsyfirlýsingu við þessa skoðun okkar er varla hægt að fá að það sé sem sagt engin von til þess að það sé litið á málefnin. Það sé alls ekki sama hvaðan gott kemur.