17.03.1987
Sameinað þing: 64. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4407 í B-deild Alþingistíðinda. (4152)

Afgreiðsla þingmála

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mig langar að segja nokkur orð um afgreiðslu á þeirri tillögu sem hv. þm. Eiður Guðnason gerði að umtalsefni. Það er rétt sem fram kom hjá honum að ég hef ítrekað reynt í störfum hv. félmn. að knýja fram afgreiðslu á þessu máli. Ég hef orð hv. þm. Gunnars G. Schram, formanns nefndarinnar, fyrir því að hann hafði góð orð um afgreiðslu málsins og talaði um að það þyrfti að taka till. fyrir hjá sjálfstæðismönnum áður en hún yrði afgreidd. Þetta voru þau svör sem ég fékk fund eftir fund hjá hv. formanni nefndarinnar. Síðan er þessari ósk minni um afgreiðslu á tillögunni úr nefndinni svarað með því að hv. formaður nefndarinnar, Gunnar G. Schram, leggur fram á þingi í dag efnislega sömu tillögu og ég hef margítrekað reynt að ná fram afgreiðslu á úr nefndinni. Þetta eru vissulega mjög einkennileg vinnubrögð nú á síðustu tveimur dögum þingsins að leggja fram efnislega sömu tillöguna.

Varðandi það sem hv. þm. Páll Pétursson sagði er það alveg ljóst að þetta er ekki í fyrsta sinn og ekki í annað sinn sem ég hef reynt að ná fram leiðréttingu á augljósu misrétti með því að tryggja heimavinnandi fólki lífeyrisréttindi. Ég hef reynt það allt frá því 1980 og það sem er kannske gleðilegt við þessa þingskapaumræðu sem hér fer fram er að það er alveg ljóst að það eru allir flokkar hér á þingi sammála um það að tryggja heimavinnandi fólki lífeyrisréttindi. Þess vegna tel ég að okkur ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði á þessu þingi að afgreiða tillögu þess efnis.

Hv. þm. Gunnar G. Schram, formaður nefndarinnar, talaði um það að nefndin gæti fjallað um báðar þessar tillögur samtímis. Ég skildi það svo að það væri þá tillagan sem ég bar fram og legið hefur í nefndinni frá því í haust og sú tillaga sem hann hefur lagt fram hér á þingi í dag. Ég vek þá athygli á því að þessi tillaga hv. þm. Gunnars G. Schram er ekki einu sinni komin á dagskrá þingsins og á eftir að fara í fyrri umræðu og síðan þarf að vísa henni til nefndar. Ég tel að nefndinni, hv. félmn., sé ekkert að vanbúnaði að afgreiða málið þótt tillaga hv. þm. Gunnars G. Schram sé ekki komin til nefndarinnar, enda liggur fyrir hér í þingskjali hver vilji hv. þm. er og reyndar fleiri þm. Sjálfstfl. í þessu efni. Ég vil því ítreka þá ósk sem fram kom hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni að félmn. afgreiði nú þáltill. á þskj. 49.

Varðandi orð hv. þm., þar sem hann taldi upp ýmis mál hér í þinginu sem væru efnislega samhljóða og flutt væru af fleiri flokkum en einum, en hann vitnaði sérstaklega til þingmáls Kvennalistans um endurmat á störfum kvenna sem flutt hefði verið fyrr á þinginu með lægra þingskjalsnúmeri en frv. sem ég flutti um endurmat á störfum láglaunahópanna, er þar auðvitað ekkert saman að jafna við þá afgreiðslu og tillögu sem hann hefur flutt hér í dag. Frv. um endurmat á störfum láglaunahópanna hef ég flutt ásamt þm. Kvennalistans og reyndar þm. úr öllum flokkum s.l. fjögur eða fimm ár og það er miklu stærra og viðameira mál en tillaga sú sem fyrir liggur hér í þinginu frá Kvennalistanum um endurmat á störfum kvenna, þannig að því er ekki saman að jafna og langt seilst hjá hv. þm. að reyna að finna eitthvað í líkingu við það sem hann hefur gert varðandi afgreiðslu á þessari tillögu, eins og Eiður Guðnason réttilega gerði að umtalsefni og afgreiðslu hennar.

Þar sem fyrir liggur að það er samstaða allra þingflokka um þetta mikilvæga mál, að tryggja heimavinnandi fólki lífeyrisréttindi, óska ég þess nú við hv. formann nefndarinnar að hann beiti sér fyrir því að nefndin verði kölluð saman og að þessi tillaga fái þá afgreiðslu.